Var ein heima ásamt 2 ára barni

Ummerki eftir skotárás eru greinileg, en útifatnaður er tættur eftir …
Ummerki eftir skotárás eru greinileg, en útifatnaður er tættur eftir högl. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Íbúi í fjölbýlishúsi við Kjarnagötu í Naustahverfi á Akureyri gerði um klukkan hálftvö í nótt lögreglunni viðvart eftir að hafa heyrt skothvelli. Er um að ræða tveggja hæða fjölbýlishús með tveimur íbúðum á hvorri hæð. Hafði þá karlmaður vopnaður haglabyssu skotið inn í íbúð á jarðhæð hússins.

Í þeirri íbúð sem skotið var á býr 25 ára gömul kona ásamt tveggja ára dóttur sinni og voru þær einar heima þegar atvikið átti sér stað. Skotmaðurinn býr á efri hæðinni og er hann 44 ára gamall. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Akureyri á maðurinn við andleg veikindi að stríða.

Almenn lögregla vopnaðist

Þegar tilkynning barst lögreglu voru sex almennir lögreglumenn og einn sérsveitarmaður úr sérsveit ríkislögreglustjóra á vakt. Var fljótt tekin ákvörðun um að kalla út auka mannskap, meðal annars frá Reykjavík. Þyrla Landhelgisgæslu Íslands var kölluð út klukkan 02:40 og var henni, samkvæmt heimildum mbl.is, flogið norður með sjö sérsveitarmenn frá sérsveit ríkislögreglustjóra innanborðs.

Þegar hér var komið við sögu höfðu almennir lögreglumenn á Akureyri fengið heimild frá yfirmanni til að vopnast. Voru þeir því vopnaðir skammbyssum og búnir hlífðarfatnaði. En þeirra hlutverk var einkum að tryggja vettvang, gera nágrönnum viðvart og loka fyrir umferð í nærliggjandi götum. 

Úlpa sem var í forstofunn er tætt og rifin eftir …
Úlpa sem var í forstofunn er tætt og rifin eftir högl. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Voru skömmu áður í forstofunni

Mbl.is hefur heimildir fyrir því að konan hafi verið vakandi þegar skotið var inn um rúðu í forstofu íbúðarinnar. Dóttir hennar hafði verið óróleg um nóttina og vaknað og gekk konan því með barn sitt um gólf. Voru þær meðal annars inni í forstofunni nokkrum mínútum áður en skotið var þangað inn með haglabyssu.

Þegar skotárásin hófst var konan hins vegar komin aftur inn í svefnherbergi ásamt dóttur sinni. Litla stúlkan var þá sofnuð. Mun konan þá hafa heyrt dynki og ekki áttað sig strax á því hvað fór fram. Tók hún þá eftir kúlnagötum í rúðu við útidyrnar.

Forstofan ber þess greinilega merki að skotið var á hana af haglabyssu. Fataskápur sem þar stendur er gjörónýtur ásamt skóhillu. Yfirhafnir og skófatnaður er tættur eftir högl auk þess sem högl er að finna um allt gólf. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu skaut maðurinn minnst fjórum sinnum af haglabyssu sinni.

Skotið var inn um rúðu í forstofu íbúðarinnar.
Skotið var inn um rúðu í forstofu íbúðarinnar. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Nágranni tók vopnið

Útidyrahurð íbúðar konunnar ber þess einnig merki að reynt hafi verið að brjótast þar inn. Samkvæmt sjónarvotti sem mbl.is ræddi við eru rispur á bæði hurð og dyrakarmi og virðist sem barið hafi verið með haglabyssunni í hurðina.

Þá hefur mbl.is einnig heimildir fyrir því að maðurinn hafi verið óvopnaður þegar lögreglan handtók hann. En samkvæmt upplýsingum á maðurinn að hafa lagt byssuna frá sér eftir skotárásina og því næst hlaupið upp á efri hæð hússins. Nágranni skarst þá í leikinn, náði í haglabyssuna og fór með hana inn í íbúð sína.

Högl enduðu meðal annars í skóm stúlkunnar.
Högl enduðu meðal annars í skóm stúlkunnar. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Maðurinn var svo handtekinn af lögreglu um klukkan 5 í morgun og færður í fangageymslur lögreglunnar á Akureyri. Samkvæmt upplýsingum þaðan hefur hann enn ekki verið yfirheyrður og ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort farið verði fram á gæsluvarðhald yfir honum.

Þyrla Landhelgisgæslunnar flaug svo aftur með sérsveitarmennina til Reykjavíkur í morgun og lenti hún við flugskýli Gæslunnar á Reykjavíkurflugvelli klukkan 07:18.

Rann­sókn­ar­deild lög­regl­unn­ar á Ak­ur­eyri fer með rann­sókn máls­ins.

Ummerki eftir skotárásina eru víða.
Ummerki eftir skotárásina eru víða. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert