„Ég tel með öllu ótímabært að gefa út yfirlýsingar um að hvalveiðum verði hætt,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, en bandarísk stjórnvöld binda vonir við að íslensk stjórnvöld muni hugleiða það alvarlega að hætta hvalveiðum í atvinnuskyni.
Morgunblaðið óskaði viðbragða bandaríska sendiráðsins á Íslandi við þeirri ákvörðun Hvals hf. að hætta hvalveiðum í sumar. Í svari sendiráðsins var litið á tilkynningu Hvals sem jákvæða þróun. Ítrekað var jafnframt að Bandaríkin styddu bann Alþjóðahvalveiðiráðsins við hvalveiðum í atvinnuskyni.
Í Morgunblaðinu í dag segist Sigurður Ingi ekki ætla að tjá sig sérstaklega um yfirlýsingar sendiráðsins. Íslensk stjórnvöld bíði nú eftir ráðgjöf Hafró um hve margar langreyðar og hrefnur sé óhætt að veiða.