Þingmenn Samfylkingarinnar fóru í ræðustól Alþingis við upphaf þingfundar í dag undir liðnum fundarstjórn forseta og gagnrýndu Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra fyrir að hafa ekki svarað skriflegri fyrirspurn frá Kristjáni L. Möller, þingmanni flokksins, um sölu Landsbankans á Borgun.
Bentu þingmennirnir á að Bjarni væri í húsnæði Alþingis hefði verið undanfarna mánudaga þar sem hann hafi svarað öðrum fyrirspurnum. Hins vegar hefði hann ekki svarað uppræddri fyrirspurn. Sögðu þeir málið alvarlegt og að mikilvægt væri að fyrirspurninni yrði svarað.
Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, sagðist ekki geta svarað fyrir það hvers vegna umræddri fyrirspurn hefði ekki verið svarað. Hins vegar benti hann á að vel hefði gengið að svara skriflegum fyrirspurnum til ráðherra á undanförnum mánuðum.