Landeigendur hafa brugðið á það ráð að loka leiðinni frá þjóðvegi niður Sólheimasand að bandaríska flugvélarflakinu sem þar er vegna slæmrar umgengni.
„Það er búið að vera að keyra víða þarna og það er ekki alveg það sem við getum orðað okkur við. Við höldum í hestana og stoppum í smá tíma,“ segir Benedikt Bragason, einn af landeigendum.
Leiðin er um þriggja kílómetra löng. Að sögn Benedikts lögðu landeigendur veg að flugvélarflakinu og merktu slóðina mjög vel þangað en það virðist ekki hafa dugað til. Þess vegna ætla þeir að setja upp skilti þar sem ferðamönnum verður meinaður aðgangur að svæðinu.
Hann segir gríðarlegan fjölda ferðamanna fara um svæðið og það sé orðið einn fjölsóttasti ferðamannastaður Vestur-Skaftafellssýslu. „Við viljum finna út hvað er hægt að gera til að leyfa fólki að halda áfram að skoða þetta flugvélarflak. Við viljum endilega leyfa fólki það en höfum ekki efni á því að leyfa því að ganga svona um landið,“ segir Benedikt.
„Við erum fátækir bændur og getum ekki ausið endalaust peningum þarna niður eftir til að verja okkur. Einhver þarf að borga þetta,“ bætir hann við. „Ef Ísland verður svona þá vill enginn koma og skoða það. Við erum að reyna að passa upp á að það verði áfram spennandi að koma til okkar.“
Frétt mbl.is: Landeigandinn stöðvaði jeppamanninn utan vegar