Fundur í kjaradeilu álversins í Straumsvík og Rio Tinto Alcan hjá ríkissáttasemjara í dag var árangurslaus að mati talsmanns starfsmanna álversins. Samninganefnd fyrirtækisins lagði fram formlegt tilboð.
„Við vorum í þreifingum, að sjá hvort hægt væri að ná saman. Það miðaði aðeins en ekki nóg. Eftir formlegan fund hjá sáttasemjara þar sem farið var yfir stöðuna og mönnum var ljóst að menn voru ekki að ná saman á þessum tímapunkti þá báðu viðsemjendur okkur um smá hlé og komu síðan eftir fimm mínútur og lögðu fram formlegt tilboð,“ segir Gylfi Ingvarsson, talsmaður starfsmanna Rio Tinto Alcan á Íslandi.
Tilboðinu hefur ekki verið svarað en það verður tekið til umræðu hjá samninganefnd starfsmanna álversins á fimmtudaginn.
„Það er alveg ljóst að þetta tilboð var mörg skref aftur á bak. Að mæta til viðræðna og þreifa til að reyna að fá fram lausnir en vera með í rassvasanum samkvæmt fyrirmælum að utan um mörg skref aftur á bak, það er ekki ferli til að leysa samning,“ segir Gylfi.
Aðspurður segist Gylfi ekki geta greint frá tilboðinu en hann telur ólíklegt að það verði samþykkt.