„Ég hef unnið á fjölmörgum vinnustöðum en ég hef aldrei orðið vitni að jafn miklum dónaskap og hérna í þessu húsi. Ég hef aldrei áður verið kölluð fasisti, nasisti eða fáviti fyrr en ég byrjaði hér,“ sagði Heiða Björg Hilmisdóttir borgarfulltrúi Samfylkingar á fundi borgarstjórnar í dag.
Til umræðu var tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks, um að heimilt verði að opna fundi ráða og nefnda og hefja beinar útsendingar frá þeim.
Flutningsmaður tillögunnar var Júlíus Vífill Ingvarsson borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks. Samkvæmt henni er lagt til að ákvæðum samþykkta fastanefnda borgarinnar verði breytt þannig að heimilt verði að verða við óskum um að reglubundnir fundir ráða og nefnda verði opnir almenningi.
Þá er að auki lagt til að opnað verði fyrir og undirbúið að hefja beinar útsendingar frá fundum ráða og nefnda með rafrænum hætti. Hvert ráð fyrir sig móti sér þá skýrar og aðgengilegar reglur varðandi opna fundi og útsendingar frá fundum.
„Þessi tillaga er gerð til að opna okkar störf og gera þau lýðræðislegri,“ sagði Júlíus.
„Við sem hér störfum þekkjum það að meirihluti okkar tíma fer í lokaða fundi nefnda og ráða borgarinnar. Sú spurning hlýtur að vakna, er það lýðræðislegt að halda því leyndu sem fram fer hér á fundum? Mér finnst það ekki.“
Bætti hann við að í mörgum ríkjum Bandaríkjanna væri meirihlutum sveitarstjórna bannað að funda saman um málefni áður en þau væru rædd á vettvangi sveitarstjórnarinnar, og að sektir, sem næmu allt að þúsund Bandaríkjadölum, lægju við broti á lögum þess efnis.
Halldór Auðar Svansson borgarfulltrúi Pírata sagði tillöguna vera skref í rétta átt.
„Það er kannski hægt að halda langar ræður um eðli opinna og lokaðra funda [...] Það er oft ekki sérstakt tilefni til að halda fundunum lokuðum. Oft fáum við kynningar á málum og það er gott að fólk sjái hvað þar fer fram en fái ekki aðeins gögnin.“
Björn Blöndal oddviti Bjartrar framtíðar sagði tillöguna vera af hinu góða en að æskilegra væri að umræða í faglegum ráðum borgarinnar yrði áfram lokuð.
„Við fögnum því þegar einhver nennir að hlusta á okkur annar en við sjálf. En þá viljum við gjarnan fara í leiki, eins konar orðaleiki fyrir áhorfendur, sem leiða okkur á villigötur og eru ekki til þess fallnir að dýpka umræðuna,“ sagði Björn og tók sem dæmi þing Breta, sem hann sagði í raun vera leiksýningu.
„Ef við gerum þetta þá verðum við að taka okkur svolitlu taki.“
Heiða Björg Hilmisdóttir sagðist hafa verið mjög jákvæð fyrir tillögunni fyrir fund borgarstjórnar. Eftir umræðuna hafi þó dregið úr jákvæðninni.
„Ég hef unnið á fjölmörgum vinnustöðum en ég hef aldrei orðið vitni að jafn miklum dónaskap og hérna í þessu húsi. Ég hef aldrei verið kölluð áður fasisti, nasisti eða fáviti fyrr en ég byrjaði hér. Þetta er það sem ég óttast ef við opnum nefndarfundi því þar höfum við hingað til getað átt betra samtal,“ sagði Heiða.
„Mér finnst oft eins og það sé stefna fólks að finna ágreiningsefni frekar en að finna leiðir til málamiðlana og sátta.“
Hildur Sverrisdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks sagðist gjarnan vilja ræða það frekar hvernig lýðræðishlutverki borgarfulltrúanna gæti verið betur sinnt.
Við vitum öll að fleiri fylgjast með okkur rífast á Facebook heldur en þegar við ræðum hér á fundum okkar. Það er eitthvað sem við þurfum að horfast í augu við og taka mið af þegar við horfum fram á veginn.“