Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra heldur áfram að tjá sig um skipulagsmál Reykjavíkurborgar. Í færslu á Facebook-síðu hans birtir hann mynd af Tryggvagötu 14 og vekur athygli á því að verið sé að rífa það. Fjallað var um málið í Morgunblaðinu í dag.
„Hér er verið að rífa Tryggvagötu 14, friðað hús frá 1898 í elstu byggð Reykjavíkur. Þetta var eitt sinn fallegt hús með „kastalaturni“. Á forsíðu Morgunblaðsins í dag kemur fram að til standi að rífa fleiri hús, samtals um 716 fermetra og byggja í staðinn 5.700 fermetra, 107 herbergja, hótel,“ skrifar forsætisráðherra.
Segir hann að um áttföldun byggingarmagns sé að ræða og þetta sé liður í þróun sem hljóti að fara að kalla á inngrip „til að verja sögulega byggð í Reykjavík og nágranna slíkra framkvæmda.“