Laun lögreglumanna á raunvirði eru í dag svipuð því sem var árið 2002. Hafa þau lækkað um tæplega 9% síðan þau voru hæst árið 2005. Þetta kemur fram í skriflegu svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur, þingmanns Vinstri grænna.
Bjarkey spurði hvernig laun lögreglumanna hafi þróast síðan verkfallsréttur þeirra var afnuminn árið 1986. Bað hún einnig um samanburð við meðallaun hjá BSRB á sama tímabili. Svarið var unnið upp úr bæði núverandi launakerfi ríkisins sem var innleitt árið 2005 og eldri launakerfum. Þar sem breytingar eru á því hvaða stéttarfélög eru innan BSRB á umræddu tímabili voru meðallaun fyrir SFR notuð í staðinn til að endurspegla launaþróun BSRB. SFR er fjölmennasta stéttarfélagið innan BSRB.
Meðallaun lögreglumanna árið 1986 voru 195.193 krónur á verðlagi ársins 2014. Áratug síðar voru þau komin upp í 237.427 krónur. Frá 1996-2006 hækkuðu launin mikið. Fóru launin upp um rúmlega 53% á tímabilinu. Svipuð hækkun var á meðallaunum hjá SFR.
Í hruninu lækkuðu laun lögreglumanna nokkuð, en árið 2012 tóku þau að rísa á ný. Örlítil lækkun varð árið 2013, en svo stóðu þau í stað milli ára. Eru launin núna svipuð því sem var árið 2002. Á eftirfarandi mynd má sjá þróunina.