Áfengisfrumvarpið hefur nú verið afgreitt úr allsherjarnefnd Alþingis, en meirihluti nefndarinnar samþykkti málið með tveimur breytingartillögum. Þetta staðfestir Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður nefndarinnar og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is.
Meirihlutinn samanstendur af þeim Unni Brá og Vilhjálmi Árnasyni frá Sjálfstæðisflokknum, Karli Garðarssyni úr Framsóknarflokki, Guðmundi Steingrímssyni úr Bjartri framtíð og Helga Hrafni Gunnarssyni frá Pírötum.
„Stóru línurnar eru að þetta var samþykkt af meirihlutanum,“ segir Unnur og bætir við að nú sé það í höndum yfirstjórnar þingsins að ákveða næstu skref málsins.
Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins er Vilhjálmur, en í samtali við mbl.is segir hann að í niðurstöðu nefndarinnar sé horft til þess að afnema einkaréttinn á áfengissölu. Fyrri breytingartillagan sem liggur fyrir fjallar um reglur í tengslum við það hvar selja megi og stilla fram áfengi í búðum. Segir hann að miklar áhyggjur hafi verið um að áfengi yrði á sama stað og mjólkin og því leggi meirihlutinn til að sveitarfélögum, sem nú eru leyfisveitendur og munu vera það áfram, fái ákveðið svigrúm til að setja reglur sem passi hverju samfélagi á landinu.
Hin breytingartillagan er að í stað þess að allt áfengisgjaldið fari í Lýðheilsusjóð muni helmingur fara þangað en helmingur til lögreglunnar til að sinna félagslegum forvörnum í staðin fyrir beinan áróður. Segir hann að þarna sé komið til móts við þær raddir sem töldu að eftirlitið yrði ekki sterkt með sölu í almennum búðum. Bendir Vilhjálmur á að gert sé ráð fyrir því að leyfisveitingarkerfið verði mjög sterkt og að þeir sem brjóti reglurnar greiði sektir, missi söluleyfið eða fari jafnvel í fangelsi.