„Hér hefur fengið að þrífast allt of lengi víðtækur ótti við að styggja ríkjandi öfl. Hvort heldur það eru öfl á hinum frjálsa markaði eða ríkisvaldið,“ sagði Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, á Alþingi í dag í umræðum um störf þingsins. Sagði hún þennan ótta koma skýrt fram í skýrslu rannsóknarnefndar þingsins og að mikið hafi verið rætt um þetta í kjölfar bankahrunsins.
„Allt sem fólk hafði lagt traust sitt á til að tryggja að hér á landi væri upplýst lýðræðissamfélag hafði brugðist en ákveðið var að fara í víðtækar aðgerðir til að læra af reynslunni á mismunandi stigum samfélagsgerðar okkar. En hvert erum við komin í þessari vegferð? Hvar er þetta nýja Ísland sem átti að rísa upp úr öskustónni? Mér sýnist að við séum komin nánast á nákvæmlega sama stað á svo mörgum sviðum og fyrir hrun. Viðvörunarljósin blikka ótt og títt og ég get ekki orða bundist,“ sagði þingmaðurinn.
Vísaði hún því næst í skrif Ketils Sigurjónssonar, lögfræðings og bloggara, þess efnis að stóriðjufyrirtæki vildu koma í veg fyrir að hann skrifaði um orkumál og sagði síðan: „Inngrip stóriðjufyrirtækja á faglegar umfjallanir sem þeim hugnast ekki á ekki að líðast nú sem áður. Ég skora á þingmenn að beita sér fyrir því að hér fái að ríkja samfélag þar sem opin umræða fær að vera í friði.“