Vildu ráða Ketil á auglýsingasamningi

Ketill Sigurjónsson.
Ketill Sigurjónsson.

Eitt af stærri fyrirtækjum landsins í orku- og verkfræðibransanum vildi ekki  að hægt væri að tengja kaup á sérfræðiþjónustu við orkuráðgjafann Ketil Sigurjónsson og buðu honum því frekar auglýsingasamning en verktakasamning. Með þessu væri ólíklegra að Norðurál myndi aðhafast  ef það kæmist að tengslum Ketils við fyrirtækið. Þetta sagði Ketill í Kastljósi í kvöld.

Ketill skrifaði pistil á vefsíðu sína í gær þar sem hann lýsti starfsháttum Norðuráls gegn sér og að hann hafi meðal annars fengið að vita það frá bankastjóra að Norðurál ætlaði sér að „eyðileggja hann“ vegna skrifa Ketils.

Pistill fyrir ári síðan markaði straumhvörf

Undanfarin átta ár hefur Ketill haldið úti Orkublogginu þar sem hann hefur skrifað um innlend og erlend orkumál. Sagði hann í Kastljósþættinum að straumhvörf hafi verið í þeim málum fyrir ári síðan þegar hann skrifaði grein um raforkusamning Norðuráls og Landsvirkjunar. Kom þar fram að samningurinn hafi verið að renna út og að fyrirtækið væri að greiða eitt lægsta verð fyrir raforku til álfyrirtækis sem þekktist í heiminum.

Fjöldi pistlahöfunda sem áður höfðu ekki tjáð sig um orkumál

Eftir það skrifaði framkvæmdastjóri Norðuráls grein þar sem hann að sögn Ketils bar fram rangar upplýsingar og þrætti fyrir að samningurinn væri að renna út. Samt hafði forstjóri samstæðunnar stuttu áður sagt frá því að samningurinn væri að renna út. Þegar Ketill hafði bent á þetta segir hann að Norðurál hafi ekki haft sig í frammi á beinan hátt, heldur hafi fjöldi pistlahöfunda byrjað að skrifa um orkumál sem áður höfðu ekki rætt mikið um slík mál. Sögðu þeir meðal annars að Landsvirkjun væri að fá of hátt verð.

Norðurál í Hvalfirði.
Norðurál í Hvalfirði. mbl.is/Árni Sæberg

Ketill fór einnig að heyra af því frá fólki í orkugeiranum að Norðurál ætlaði sér að fara illa með hann. Aðspurður í þættinum hvort þetta hafi haft áhrif á hann og að honum hafi verið ýtt út úr verkefnum sagði Ketill það svo sannarlega hafa haft áhrif. Sagðist hann hafa upplifað þetta mjög sterkt, meðal annars þegar fyrirtæki í orku- og verkfræðigeiranum vildi ganga til samstarfs við hann en setti þann fyrirvara á að kaupin væru í gegnum auglýsingasamning á heimasíðu hans, en ekki sem kaup á sérfræðiþjónustu. Ástæðan væri sú að fyrirtækið vildi ekki að Norðurál kæmist að því að þeir væru að kaupa af honum þjónustu.

Völd sem ekki allir væru varir um

Sagði Ketill að fólk þyrfti að gera sér grein fyrir að stóriðjufyrirtækin hefðu völd sem ekki allir væru varir um. Hann tók þó fram að umræðan frá í gær hefði að miklu leyti snúist um að hann væri fórnarlamb í þessu máli. Það væri ekki það sem hann væri að benda á, heldur að áhugaverðasti vinkillinn væri að sum þessara stóriðjufyrirtækja hikuðu ekki við að setja fram á opinberum vettvangi upplýsingar sem væru rangar til að blekkja almenning um í hvaða viðskiptaumhverfi þau væru. 

Sagði Ketill að stóriðjan væri í bómullarumhverfi þótt þau reyndu að segja umhverfið harðneskjulegt. Þannig hafi stóriðjufyrirtækin ítrekað sagt að þau væru að borga hátt verð, en hans skoðun væri að verðið væri lágt og að það skipti þjóðarhag Íslendinga miklu máli að hækka verðið til fyrirtækjanna.

Í þættinum var tekið fram að í yfirlýsingu frá Norðuráli væri ásökunum Ketils vísað á bug.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert