Þingmenn Samfylkingarinnar gagnrýndu Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra harðlega á Alþingi í dag undir liðnum fundarstjórn forseta vegna svar hans við skriflegri fyrirspurn frá Kristjáni L. Möller, þingmanni flokksins, um sölu Landsbankans á Borgun. Sögðu þeir svarið engan veginn ásættanlegt enda væri það fáeinar málsgreinar og síðan tvö ljósrituð skjöl sem hægt væri að nálgast á netinu. Var kallað eftir því að ráðherra yrði gert að svara fyrirspurninni aftur.
Bjarni vísaði gagnrýninni á bug og sagði svarið fela í sér svör við öllum spurningum Kristjáns. Skjölin tvö væru annars vegar bréf Bankasýslu ríkisins til fjármála- og efnahagsráðherra dagsett 14. mars og hins vegar bréf Bankasýslunnar til Landsbankans frá 11. mars. Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tók einnig til máls og gagnrýndi þingmenn Samfylkingarinnar fyrir að gera mál út af því að svarið væri ekki nákvæmlega eins og þeir vildu hafa það. Svar fjármálaráðherra svaraði fyllilega spurningum Kristjáns Möllers.