Búist er við fundarboði á næstunni frá Rússum vegna veiða Íslendinga á þorski í Barentshafi, samkvæmt upplýsingum Jóhanns Guðmundssonar, skrifstofustjóra í sjávarútvegsráðuneytinu.
Samningur hefur verið í gildi á milli þjóðanna um þessar veiðar, en niðurstaða náðist ekki á fundi í Moskvu í desember um veiðarnar 2016.
Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, þingaði með norskum starfsbróður sínum, Per Sandberg, í Bergen fyrir skömmu. Meðal annars var rætt um hvort íslenskar útgerðir mættu veiða svokallaðan „rússaþorsk“ í lögsögu Noregs og þyrftu ekki að sækja hann alla leið í hinn rússneska hluta Smugunnar, enda um sama stofn að ræða, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.