Framsókn áfram flugvallarvinur

Reykjavíkurflugvöllur.
Reykjavíkurflugvöllur. mbl.is/Árni Sæberg

Oddviti Framsóknar og flugvallarvina í borgarstjórn Reykjavíkur, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, segir enga breytingu hafa orðið á stuðningi framboðsins við að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram í Vatnsmýrinni þrátt fyrir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, hafi kallað eftir því að nýr Landspítali rísi við Vífilstaði í Garðabæ frekar en við Hringbraut í Reykjavík. Þetta kemur fram á vefsíðu Guðfinnu í dag.

„Sumir hafa velt því fyrir sér hvort Framsókn vilji ekki lengur hafa flugvöllinn í Vatnsmýrinni og halda neyðarbrautinni vegna umræðunnar um að byggja spítalann annars staðar en við Hringbraut. Það eru óþarfa áhyggjur. Ég hef t.d. verið þeirrar skoðunar í nokkur ár, reyndar löngu áður en í fór í pólitíkina, að halda flugvellinum í Vatnsmýrinni og að byggja spítalann annars staðar en við Hringbraut. Af minni hálfu er ekki nauðsynlegt að hafa spítalann við hliðina á flugvellinum enda er einnig farið með fólk sem kemur með sjúkraflugi á Borgarspítalann,“ segir hún. Ekki hafi verið sýnt fram á að önnur staðsetning fyrir flugvöllinn sé jafngóð eða betri en Vatnsmýrin.

„Þá hefur ekki verið sýnt fram á að flugöryggi verði tryggt ef neyðarbrautinni er lokað. Meðan slík fullvissa liggur ekki fyrir er ekki hægt að loka henni. Þá er alveg ljóst að kostnaðurinn yrði verulegur ef það ætti að byggja nýjan innanladsflugvöll á nýjum stað með öllum þeim innviðum sem þarf og þeirri þjónustu sem þarf að vera í kringum flugvöllinn eða nálægt honum og þeir peningar eru einfaldlega ekki til. Bygging spítalans er hins vegar forgangsmál. Flugvöllur sem er ca 10 mín frá sjúkrahúsi er í mínum huga í nálægð við sjúkrahús en það virðist ekki vera í huga Agnesar Bragadóttur blaðakonu á Morgunblaðinu. Hér er linkur á greinina sem hún túlkar eftir sínu höfði.“

Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir.
Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert