Framsókn komin í kosningabaráttu

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra þegar stjórnarsamstarf …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra þegar stjórnarsamstarf flokkanna var kynnt 2013. mbl.is/Eggert

„Mér sýnist Framsóknarflokkurinn vera kominn af stað í kosningabaráttu og telji mikilvægt að sýna sérstöðu umfram samstarfsflokkinn í ríkisstjórn. Flokkurinn virðist vera að skjóta ákveðnum hugmyndum út í loftið til þess að kanna hver viðbrögðin við þeim verða og hvaða mál hreyfi við fólki. Þannig sér þetta við mér,“ segir Stefanía Óskarsdóttir, dósent í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is spurð um stöðuna á stjórnarheimilinu.

Fram kemur í Morgunblaðinu í dag að ákveðnir samskiptaerfiðleikar séu á milli Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins sem mynda núverandi ríkisstjórn undir forsæti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins. Stjórnarþingmenn sem blaðið hafi rætt við telji þó stjórnarsamstarfið ekki í hættu. Bent er í umfjöllun blaðsins á mál eins og staðsetningu Landspítalans og húsnæðisfrumvörp Eyglóar Harðardóttur félags- og húsnæðismálaráðherra sem sem dæmi um mál þar sem skortur virðist á samskiptum.

Frétt mbl.is: Lítið talað saman í stjórninni

„Framsóknarflokkurinn passaði upp á það hér áður fyrr að hafa mögulega samstarfsaðila bæði til vinstri og hægri verandi miðjuflokkur. Mér sýnist forysta flokksins vera að halda öðrum samstarfsmöguleikum opnum,“ segir Stefanía. Þó ekki nema til þess að styrkja samningsstöðuna í mögulegum stjórnarmyndunarviðræðum. Forystumenn flokka séu alltaf í þeirri stöðu að þurfa að skila þeim góðu fylgi í kosningum og fyrir vikið sé ljóst að ýmsir leikir séu í gangi í þeim efnum enda í rauninni ekki langt í næstu þingkosningar.

Sögulega séð segir Stefanía að komið hafi á stundum til einhverra árekstra á milli flokka í ríkisstjórnarsamstarfi. Samstarf Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins 1995-2007 hafi í raun verið mjög sérstakt þar sem árekstrar hafi sjaldnast ratað upp á yfirborðið og samstarfið virst mjög traust. Meira hafi gengið á í samstarfi Sjálfstæðisflokksins og Alþýðuflokksins 1991-1995 sem og í samstarfi vinstriflokkanna á síðasta kjörtimabili þar sem kvarnast hafi smám saman úr stjórnarliðinu. Ekki hafi þó komið til tals að slíta samstarfinu.

Viðbúið sé að fleiri slík mál komi upp þegar nær dragi þingkosningunum þar sem bæði Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn reyni að skerpa á sérstöðu sinni og þeim málum sem flokkarnir vilji leggja áherslu á sem undirbúning fyrir kosningarnar sem kunni þannig ekki að samrýmast stefnu samstarfsflokksins og jafnvel koma illa við hann. Stefanía segist sérstaklega eiga von á slíku frá Framsóknarflokknum.

Stefanía Óskarsdóttir, dósent í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.
Stefanía Óskarsdóttir, dósent í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert