Bleikir baggar prýða haga í sumar

Bleikar rúllur sem þessar gætu orðið algeng sjón á túnum …
Bleikar rúllur sem þessar gætu orðið algeng sjón á túnum landsins í sumar.

Sláturfélag Suðurlands mun í ár bjóða til sölu bleikt rúlluplast fyrir bændur til að vefja um heybagga sína og -rúllur. Hver plastrúlla kostar 12.900 krónur án virðisaukaskatts og munu 425 krónur af hverri rúllu renna til Krabbameinsfélagsins.

Elias Hartmann Hreinsson deildarstjóri búvörudeildar SS segir í samtali við mbl.is að með þessu vilji fyrirtækið leggja sitt af mörkum.

„Við höfum fengið mjög góð viðbrögð eftir að við auglýstum rúlluplastið og þetta hefur vakið töluverða athygli. Maður hefur heyrt að margir bændur ætli að taka eitthvað af bleiku,“ segir Elias og bætir við að Sláturfélagið hafi sérstaklega beðið um bleikt rúlluplast frá framleiðandanum.

Lægra metraverð á bleiku

Bleiku rúllurnar verða 1.900 metrar að lengd en hinar hefðbundnu hvítu, svörtu og grænu eru allar 1.500 metra langar. Þó bleiku plastrúllurnar séu þannig eilítið dýrari, eða 12.900 krónur miðað við 10.950 krónur í tilfelli grænu og hvítu eða 10.800 í tilfelli svörtu, þá er metraverð bleiku rúllanna talsvert ódýrara en hinna, samkvæmt útreikningum mbl.is.

Svo virðist því sem bændur geti sparað sér skildinginn og um leið styrkt Krabbameinsfélagið.

„Þetta er auðvitað gert til að styrkja Krabbameinsfélagið en líka til að krydda aðeins tilveruna,“ segir Elias að lokum.

Samkvæmt útreikningum mbl.is eru rúllurnar ódýrari en aðrar sem SS …
Samkvæmt útreikningum mbl.is eru rúllurnar ódýrari en aðrar sem SS selur.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert