Kostnaður við malbiksframkvæmdir í Reykjavík í sumar er áætlaður 710 milljónir króna. Alls verður lagt malbik á tæpa 17 kílómetra eða 125 þúsund fermetra. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg.
Þar segir að viðgerðir á illa förnum götum eftir veturinn séu þegar hafnar og hefur víða verið fyllt í holur að undanförnu en áætlað er að verja um 150 milljónum króna til malbiksviðgerða í ár.
Malbiksyfirlagnir munu kosta borgina 560 milljónir. Alls gerir þetta 710 milljónir króna.
Tæpir 13 km af malbiki verða endurnýjaðir á götum borginnar með fræsingu og malbikun.
Malbikslögn yfir eldra slitlag er áætluð rúmir 4 km. Í heildina verður því lagt malbik á tæpa 17 km á 65 stöðum í borginni en malbik er víða illa farið eftir umhleypingasaman vetur. Þá hefur umferð á höfuðborgarsvæðinu aukist mikið auk þess sem sparað hefur verið í viðhaldi á malbiki frá hruni.
Meðal stórra verkefna eru m.a. Bugða frá Kambavaði – Búðatorgs, Suðurlandsbraut og Laugavegur, Norðlingabraut frá Þingtorgi að Helluvaði, Skólasel frá Árskógum að Ölduseli, Bústaðavegur frá Háaleitisbraut að Grensásvegi, Stóragerði frá Heiðargerði að Smáagerði, Fjallkonuvegur, Víkurvegur, Hofsvallagata, Framnesvegur, Skúlagata svo nokkur dæmi séu tekin um umfangsmiklar malbikunarframkvæmdir.
Alls fara rúm 14 þúsund tonn af sjóðandi heitu malbiki á göturnar í sumar. Vert er að taka fram að stofnbrautir á höfuðborgarsvæðinu eru á forræði Vegagerðarinnar.
Stefnt er að því að útboð verði auglýst eftir páska.