Halla ætlar að bjóða sig fram

Halla Tómasdóttir
Halla Tómasdóttir mbl.is/Ómar

Halla Tómasdóttir, frumkvöðull og fjárfestir, ætlar að bjóða sig fram til forseta Íslands, samkvæmt frétt Fréttablaðsins í dag.

Samkvæmt heimildum blaðsins verður boðað til blaðamannafundar um miðjan dag þar sem ákvörðunin verður kynnt. Halla hefur ekki greint frá þessu á Facebooksíðu sínni.

Í desemberbyrjun var stofnuð síða á Facebook þar sem skorað var á Höllu að bjóða sig fram. Hún sagðist þá djúpt snortin, en ætlaði að gefa sér tíma til að hugsa málið og ræða það við sína nánustu áður en hún segði af eða á með framboð.

Halla er gift Birni Skúlasyni viðskiptafræðingi og saman eiga þau tvö börn. Fram kemur á stuðningssíðu hennar að hún hafi komið að uppbyggingu Háskólans í Reykjavík, leitt verkefnið Auður í krafti kvenna, en einnig gegndi hún starfi framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs Íslands 2006 til 2007 áður en hún lét þar af störfum til að stofna fjárfestingarsjóðinn Auði Capital. Undanfarin misseri hefur Halla mest starfað erlendis, meðal annars sem stofnandi Sisters Capital.

Bætt við klukkan 8:13

Halla Tómasdóttir boðar til blaðamannafundar klukkan 15 í dag á heimili sínu í Kópavogi. „Eins og kunnugt er hefur stór hópur stuðningsmanna skorað á Höllu að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands.

Halla hefur gefið sér góðan tíma til að velta öllum hliðum málsins fyrir sér og ætlar að skýra frá niðurstöðu sinni á fundinum. Ávarp Höllu verður einnig sent út á Facebook-síðunni „Við skorum á Höllu Tómasdóttur í forsetaframboð 2016“ þar sem rúmlega 1600 manns hafa lýst yfir stuðningi við framboð Höllu,“ samkvæmt tilkynningu sem send var til fjölmiðla í morgun.

Fréttablaðið

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka