Safn, sýningar- og verslunarrými, bakgarður með opnanlegum glerhjúpi, veitingastaður og menningarstarfsemi. Þetta eru meðal hugmynda starfshóps sem var skipaður í því skyni að ákvarða framtíð Hegningarhússins við Skólavörðustíg. Hópurinn lauk störfum um áramótin og skilaði skýrslu í kjölfarið þar sem m.a. er lagt til að húsið verði áfram í þjóðareigu og áhersla lögð á að það verði gert upp í sem upprunalegastri mynd.
Í skýrslunni segir að húsið sé í raun þjóðminjar og að í því felist mikil menningarverðmæti. Staðsetningin sé ekki síður verðmæt. Lagt er til að rekstur hússins verði í almannaþágu. „Seinna meir væri hægt að fela rekstraraðilum, einum eða fleiri, að sjá um starfsemi í húsinu,“ segir í skýrslunni. Þar er ennfremur lagt til að í húsinu verði fjölþætt menningarstarfsemi, sérhæfð verslunarstarfsemi og veitingarekstur. „Ekki er það þó tillaga hópsins að húsið verði fyrst og fremst veitingahús, hvað þá öldurhús.“
Í hópnum voru m.a. fulltrúar ríkis og borgar, Fangelsismálastofnunar og Minjastofnunar. Jakob Frímann Magnússon framkvæmdastjóri átti þar sæti fyrir hönd Miðborgarinnar okkar.
„Það blasir við að það þarf að gera heilmikið við húsið og endurnýja það. Þetta er stórmerkilegt hús sem hefur gegnt margháttuðum hlutverkum, þar hefur t.d. verið bæjarþing, danshús, fangelsi o.fl. Að þessu öllu þarf að huga við framtíðarhlutverk hússins, við þurfum að varðveita þessa merku sögu,“ segir Jakob.
Í skýrslunni segir að í garðinum ætti að vera svið sem gæfi kost á tónleikahaldi, s.s. djassi eða órafmagnaðri tónlist. „Sviðslistir, uppistand og fleira gæti einnig notið sín í garðinum.Vel færi á því að djasstónlist yrði þar sómi sýndur,“ segir þar.
Jakobi hugnast þessar hugmyndir vel og sér fyrir sér að í húsinu verði miðstöð djasstónlistar. Hann stingur upp á nafninu Jailhouse Jazz fyrir starfsemina. „Byggja mætti yfir garðinn og hafa þar veitingastað með kúltúr tónlist. Mér finnst löngu tímabært að djassinn fái verðugan miðborgarstað, með fullri virðingu fyrir þeirri viðleitni sem hefur verið sýnd hingað til,“ segir Jakob. Hann telur að það myndi ríma vel við sögu hússins að þar yrði djassstaður. „Það er vissulega ákveðinn blús sem hefur einkennt þetta hús, eins og önnur betrunarhús. Og eins og allir vita er djassinn upprunninn úr blúsnum. Persónulega vildi ég síðan sjá sjálfa fangaklefana notaða af konseptlistamönnum sem gætu þar t.d. skapað draum fangans á ýmsan hátt með blöndu af hljóð- og listaverki.“
Jakob segir nokkurn einhug hafa ríkt í hópnum um hver framtíð Hegningarhússins ætti að vera. „Að þetta yrði upplifunarhús sem ætti að veita fólki skemmtun og menntun. Skemmtimenntarhúsið við Skólavörðustíg,“ segir Jakob sem segist bíða spenntur eftir lyktum mála. „Ég hélt reyndar að það ætti að vera búið að tilkynna nú þegar um framtíðarnotkun hússins. Þessi ríkisstjórn ætti að hrinda þessu í framkvæmd með stæl – það yrði rós í hnappagatið.“
Bent er á það í skýrslunni að áhugaverð tækifæri felist í því að í húsinu verði einhvers konar sýningarhald tengt þróun byggðar og mannlífs í Reykjavík og sú hugmynd viðruð að rekja mætti þróun Reykjavíkur, frá því að húsið var byggt, á flatskjám. Önnur hugmynd er að í húsinu verði réttarsögusafn, því saga hússins sem fangelsis verði ekki umflúin. Sá hluti sögunnar yrði jafnvel rakin í fangaklefum.
Í skýrslunni segir m.a. að viðgerðir og viðhald hafi setið á hakanum, húsið liggi undir skemmdum og er það mat hópsins að hið opinbera hefði umsjón með þeirri framkvæmd og aflaði til þess fjár. Lagt er til að varið verði um 250 milljónum á fjárlögum til að bjarga húsinu frá enn meiri skemmdum. „Það væri afar dapurlegt ef húsið færðist í flokk þeirra fjölmörgu eldri opinberu bygginga á vegum Ríkiseigna sem bítast þurfa um stopular fjárveitingar,“ segir í skýrslunni.
Að baki Hegningarhússins er garður sem hefur gegnt hlutverki útivistarsvæðis fanga. Í skýrslunni segir að hann auki mjög notagildi eignarinnar og um sé að ræða einstakt aflokað svæði í hjarta höfuðborgarinnar. „Hann mun hafa mikið aðdráttarafl. Þar getur almenningur setið á góðviðrisdögum og notið veðurblíðu og veitinga,“ segir í skýrslunni. Þar er m.a. lagt til að hann verði lagður flísum eða hellum, hann verði yfirbyggður að hluta til og þá með opnanlegum glerhjúp. „Enda mikilvæg upplifun að vera úti í garðinum.“
Gunnþóra Guðmundsdóttir arkitekt var tilnefnd í starfshópinn af Minjastofnun. Að hennar sögn er húsið friðlýst að utan, þ.e. allt ytra byrði þess. „Stigahúsið er einnig friðlýst og þetta þýðir að allar breytingar þurfa að fara fyrir Húsafriðunarnefnd,“ segir Gunnþóra. Hún segir að salur á efri hæðinni, sem áður var dómsalur, sé skilgreindur sem varðveisluverður. „Það þýðir að menn ættu að fara varlega í allar breytingar sem þar ætti að gera, það eru ekki margir salir með slíkum innréttingum,“ segir Gunnþóra. „Vegna þessa þarf að fara varlega í allar framkvæmdir og skoða þær á forsendum þessa gamla húss. Vonandi tekst að tvinna þetta saman þannig að almenningur geti notið þess.“
Til dæmis segir í ástandsskýrslunni að endurnýjun glugga og hurða hafi ekki verið í samræmi við aldur og stíl hússins. Þá segir þar að á mörgum stöðum sé fúga á milli steina léleg eða hreinlega ónýt vegna tæringar og veðrunar, en hún hefur ekki verið endurnýjuð síðan húsið var byggt árið 1874. Lagt er til að hún verði endurnýjuð á öllum útveggjum til að styrkja steinhleðsluna og halda upprunalegu útliti.
Meðal annarra framkvæmda sem lagðar eru til í ástandsskýrslunni er að skorsteinn verði tekinn niður og endurhlaðinn, veggir í kjallara verði hreinsaðir vegna raka og að jarðvegur í garði á bak við húsið verði fjarlægður og endurnýjaður.