„Mig dreymdi slor í nótt“

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG.
Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, tók til máls undir liðnum fundarstjórn forseta við upphafi þingfundar í dag og fór fram á að Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra drægi til baka þau orð sín í útvarpsviðtali í morgun þess efnis að hún hafi ekki gert grein fyrir hagsmunum sínum vegna kvótasölu sinnar og fjölskyldunnar sinnar. Las hún upp yfirlýsingu þess efnis að hún og eiginmaður hennar hefðu aldrei átt né selt kvóta.

Frétt mbl.is: Hefur aldrei átt né selt kvóta

Fór Lilja Rafney ennfremur fram á að Gunnar Bragi bæðist afsökunar á orðum sínum. „Mig dreymdi slor í nótt og ég tel þetta vera að hæstvirtur utanríkisráðherra hafi dregið slor upp í umræðunni og þetta sé slormálflutningur sem á ekki að láta viðgangast. Og ég óska eftir því að hann biðjist afsökunar og dragi þetta til baka.“

Frétt mbl.is: Sagði Sigmund vera kröfuhafa

Ummæli Gunnars Braga féllu í umræðu um erlent eignarhaldsfélag eiginkonu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra og hvort hann hefði átt að gefa það upp við hagsmunaskráningu á veg Alþingis. Reglur þingsins gera ekki kröfu um að fjármálum maka þingmanna séu gerð skil. Eiginkona Sigmundar, Anna Sigurlaug Pálsdóttir, hefur sagt að félagið hafi allar götur greitt skatta hér á landi og engu verið haldið leyndu varðandi það.

Frétt mbl.is: Skattar greiddir frá upphafi

Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinar, tók undir með Lilju Rafney. Ólína sagði ummæli Gunnars Braga ámælisverð og óþverraleg. Sagði hún ömurlegt þegar reynt væri að sverta heiðarlegt fólk með þessum hætti. Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður VG, sagðist engar væntingar hafa til þess að Gunnar Bragi bæðist afsökunar á ummælum sínum enda hefði hann farið fram með þessum hætti áður án þess að gera það. Sagði hún ummælin lágkúruleg.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert