Hæstiréttur sýknaði í dag konu sem hafði áður verið dæmd til greiðslu 50 þúsund króna sektar fyrir ærumeiðandi ummæli í garð oddvita Eyja- og Miklaholtshrepps í Héraðsdómi Vesturlands. Einnig var því hafnað að ummælin sem voru tilefni dómsmálsins yrði dæmd dauð og ómerk en héraðsdómur hafði áður fallist á þá kröfu ákæruvaldsins.
Konan var ákærð fyrir að hafa vegið að mannorði oddvitans með því að bera út ærumeiðandi aðdróttun um hann í færslu á samfélagsmiðlinum Facebook árið 2013. Ummælin sem ákært var fyrir voru á þessa leið: „En það vantar ekki að hann smjaðrar fyrir Ólafi Ólafssyni sem á Miðhraun 1. Enda gaf Ólafur honum nýjan traktor (mútur eða hvað?)“.
Frétt mbl.is: Refsað vegna ummæla á Facebook
Konan viðurkenndi fyrir dómi að hafa ritað ummælin. Sagðist hún hafa alhæft og átt að orða hlutina betur. Sagði hún skrif hennar um traktor, sem oddvitinn átti að hafa fengið að gjöf frá Ólafi Ólafssyni, væru bara orðrómur sem hún hefði heyrt. Kvaðst hún vera búin að biðjast afsökunar á því að hafa alhæft um traktorinn og viðurkenndi að hafa gert mistök.
Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu fyrir það fyrsta að oddvitinn hefði aldrei farið fram á það að konan yrði dæmd til refsingar vegna ummælanna og fyrir vikið hafi ekki verið skilyrði til að gera slíka kröfu í ákæru. Væri þeim hluta málsins því sjálfkrafa vísað frá dómi. Fullyrðing um vinnuvélina hafi falið í sér óljósa ályktun eða getgátu „sem reist væri á þeirri röngu forsendu að orðrómur um það efni væri réttur.“ Fyrir vikið var konan sýknuð af kröfu ákæruvaldins um ómerkingu ummælanna. Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði.