Var í þvingaðri stöðu til að játa

Maðurinn hefði misst dvalarleyfi sitt í Bretlandi ef hann hefði …
Maðurinn hefði misst dvalarleyfi sitt í Bretlandi ef hann hefði dvalið lengur á Íslandi. mbl.is

Kínverski ferðamaðurinn, sem dæmdur var fyrir manndráp af gáleysi fyrir að hafa ekið bíl of hratt inn á einbreiða brú, var í þvingaðri stöðu til að játa að mati lögmanns hans Evu B. Helgadóttur. Maðurinn var dæmdur í héraðsdómi Suðurlands í gær í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi og sviptur ökuréttindum í tíu mánuði. 

Við fyrirtöku málsins játaði maðurinn að hafa ekið of hratt í snjó og krapi og án nægjanlegrar aðgæslu, en maðurinn hafði áður neitað sök. Hann hafi ekki haft fulla stjórn á bílnum er honum var ekið framan á  vinstra fram­horn bíls sem ekið var í gagn­stæða átt með þeim af­leiðing­um að bíl­stjóri síðar­nefnda bíls­ins hlaut mikla áverka á brjósti og lést skömmu síðar.

Eva segir manninn hafa verið í þvingaðri stöðu til að játa. „Ef hann hefði verið hér á landi út farbannið þá hefði hann misst dvalarleyfi sitt í London.“ Slysið varð á annan dag jóla og hefur maðurinn sætt farbanni frá 29. desember sl.

Maðurinn, sem er búsettur í London og rekur þar fyrirtæki þurfti að sögn Evu að meta hvort hann ætti að setja allt sit líf í uppnám og rekstrargrundvöll  fyrirtækis síns eða játa sök. „Síðan má ekki gleyma því að hann er í þessu slysi og þarf að takast á við áfall því tengdu einn í ókunnu landi.“ 

Merkingar á brúnni hafi verið á skjön við reglur, auk þess að vera  ekki alþjóðlegar. „Ég vil meina að hvorugur þessara ferðamanna hafi áttað sig á hættunni þarna,“ segir hún og bendir á að maðurinn hafi verið á 60 km hraða þar sem hraðamerkingar heimila 90 km hraða.  

Var tilbúinn að leggja fram 10 milljóna tryggingu

Meðferð íslenska réttarkerfisins á manninum byggist síðan alfarið á því að hann sé erlendur ríkisborgari.  Maðurinn hafi til að mynda verið tilbúinn að leggja fram 10 milljón króna tryggingu fyrir því að  hann myndi vera við réttarhöldin. „En okkar reglur gera ekki ráð fyrir að hægt að sé að hleypa mönnum út. Ég vil meina að þetta sé á mörkum þess að standast mannréttindasjónarmið.

Mér finnst alveg klárt mál að við getum ekki viljað hafa allan þennan straum af ferðamönnum og geta svo ekki tekist á við það þegar svona slys verða,“ segir Eva.   

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert