Obama býður Sigmundi til kvöldverðar

Þetta er síðasta ár Bandaríkjaforsetans í embætti.
Þetta er síðasta ár Bandaríkjaforsetans í embætti. AFP

Barack Obama Bandaríkjaforseti hefur boðið Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra til fundar þann 13. maí næstkomandi. Öfgahyggja og hryðjuverk verða efst á baugi í viðræðum leiðtoganna að því er fram kemur í tilkynningu frá Hvíta húsinu.

Heimsókn Sigmundar er þáttur í fundi allra leiðtoga Norðurlandanna sem líka munu heimsækja Obama þennan dag. Til umræðu verður meðal annars flóttamannavandinn sem sett hefur mark á Evrópu að undanförnu. Um kvöldið verður svo hátíðarkvöldverður í boði bandarísku forsetahjónanna.

„Þessi fundur felur í sér tækifæri til að halda áfram okkar nánu samvinnu við Norðurlöndin í fjölda mála,“ segir í tilkynningu Hvíta hússins. „Málefni norðurslóða jafnt sem málefni flóttafólks og fólksflutninga í álfunni, sem við viljum takast á við á mannúðlegan máta.

Þá segir að fundurinn muni efla samband Bandaríkjanna við Norðurlöndin og undirstrika áframhaldandi áhuga Bandaríkjanna á að styrkja öryggi Evrópulanda, bæta viðskipti milli heimsálfanna og auka veg lýðræðislegra gilda í álfunni.

Fundur leiðtoganna fer fram í Hvíta húsinu.
Fundur leiðtoganna fer fram í Hvíta húsinu. AFP

Fylgir í kjölfar fundarins í Svíþjóð 2013

Í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu kemur fram að Sigmundur hafi þegið boð forsetans um að sækja þennan leiðtogafund Norðurlandanna og Bandaríkjanna. Um sé að ræða opinbera heimsókn leiðtoganna með viðhafnarkvöldverði þeim til heiðurs.

„Þessi viðburður fylgir í kjölfar fundar leiðtoga Norðurlandanna og Bandaríkjanna sem haldinn var í Svíþjóð árið 2013, en þá bauð þáverandi forsætisráðherra Svíþjóðar til fundarins í tilefni af tvíhliða heimsókn forseta Bandaríkjanna til Svíþjóðar.“

Segir þar að leiðtogarnir muni á fundi sínum ræða áframhaldandi samvinnu Bandaríkjanna og Norðurlandanna á ýmsum sviðum alþjóða- og utanríkismála. Auk þess verði til umfjöllunar barátta gegn hryðjuverkum og aðgerðir gegn ofbeldisfullri öfgahyggju, alþjóðlegt heilbrigðisöryggi, umhverfismál, samstarf varðandi málefni norðurslóða, öryggismál, þróunar- og mannúðarmál auk málefna flóttamanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert