Atvikalýsing bóndans sem átti kvíguna sem drapst eftir að hafa verið dregin á eftir jeppa bóndans er í veigamiklum atriðum ekki í samræmi við það sem hefur komið fram í fjölmiðlum. Engu að síður var um skýlaust brot á lögum um velferð dýra og var bóndinn áminntur á staðnum, auk þess sem hann var settur undir aukið eftirlit af hálfu héraðsdýralæknis.
Frétt mbl.is: Drap kvígu með að draga hana á eftir bíl
Matvælastofnun hafði á þessum tíma ekki hafið innheimtu stjórnvaldssekta á grundvelli heimilda í lögum um dýravelferð. Nú er hins vegar búið að setja upp ákveðið fyrirkomulag við ákvörðun stjórnvaldssekta, sem hefur verið kynnt fyrir dýraverndarsamtökum og hagsmunaaðilum og þar með samtökum þeirra sem eru undir eftirliti stofnunarinnar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Matvælastofnunar.
Matvælastofnun fékk ábendingu í lok júní í fyrra um að kú hefði drepist vegna illrar meðferðar af hálfu bónda á Norðvesturlandi. Sagt var frá málinu í fjölmiðlum í gær og hefur það vakið mikla athygli, sértaklega fyrir að bóndinn fékk aðeins áminningu en var ekki kærður. Í tilkynningunni segir að bóndinn hafi ekki áður komið við sögu Matvælastofnunar vegna illrar meðferðar á dýrum áður.
Með núverandi heimild stofnunarinnar er markmiðið að geta brugðist strax við brotum á lögum um dýravelferð og ákvarðast sektarupphæð meðal annars af alvarleika, varanleika, fjölda dýra sem um ræðir, brotavilja, hvort um ítrekað brot er að ræða og mögulegum hagnaði af broti.
Segir Matvælastofnun að nú sé hægt að beita stjórnvaldssektum og að sektir muni ráðast af eðli mála.