Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, kallaði eftir því á Alþingi í dag að leynd yrði aflétt af gögnum um einkavæðingu bankanna á síðasta kjörtímabili. Gögnin væru geymd í sérstöku leyniherbergi á nefndarsviði Alþingis sem þingmenn mættu fara inn í einn í einu og skoða en ekki greina frá því sem þar væri að finna.
Guðlaugur sagði eðlilegt að upplýsingar sem vörðuðu bankaleynd og ákveðna einstaklinga væri eðlilegt að nyti verndar en að öðru leyti væri eðlilegt að almenningur fengi að vita hvað væri að finna í þessum gögnum. Gagnrýndi hann þetta fyrirkomulag og líkti því við það þegar síðasta ríkisstjórn ætlaði fyrst í stað ekki að upplýsa þingmenn og almenning um það hvað væri að finna í fyrsta Icesave-samningnum. Málið varðaði mikla hagsmuni.
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, tók undir með Guðlaugi Þór. Sagðist hann hafa skoðað gögnin og ekki fundið neitt í þeim um samsæri eða landráð. Hann væri þó ekki sérfræðingur í slíku né því viðfangsefni sem gögnin fjölluðu um. Hins vegar skildi hann ekki hvers vegna leynd hvíldi yfir stórum hluta gagnanna. Sagíst hann gjarnan vilja ræða efni þeirra við sérfræðinga en það gæti hann hins vegar ekki vegna þeirrar leyndar sem á þeim hvíldi.
Mætti ekki opinbera þessi gögn þyrftu að vera lögmætar og málefnalegar ástæður fyrir því hvers vegna ekki. Sagði Helgi að hann tæki hann undir kröfur um að eins mikilli leyndi yrði létt af þessum gögnum og mögulegt væri. Ef ekki væri hægt að létta leynd af einhverju af þeim yrði að vera samstaða á meðal þingmanna um það hvers vegna ekki.