Brösuglega hefur gengið að dýpka Landeyjahöfn frá því að belgíska dýpkunarskipið Galileo 2000 var fengið til landsins síðla febrúar.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, segir Eyjamenn orðna langþreytta á ástandinu. „Landeyjahöfn var opnuð árið 2010 og þetta vor er nákvæmlega eins og önnur vor hafa verið frá árinu 2010. Ár eftir ár er þetta eins en á meðan ekkert er gert, þá gerist ekki neitt,“ segir Elliði í Morgunblaðinu í dag.
Hann vill ekki tjá sig um það hvort ljóst hafi verið frá upphafi að Galileo hentaði ekki til dýpkunaraðgerða í höfninni. „Hins vegar er ljóst að landsmenn hljóta að átta sig á því að þetta verkefni leysist ekki með því að gera ekki neitt,“ segir Elliði. Siglingar um Landeyjahöfn hófust fyrst í byrjun maí í fyrra en þeim lauk um miðjan september. „Það er allt of mikill kostnaður fyrir samfélagið hér að vera í þessari stöðu,“ segir Elliði.