Jóhannes Kr. Kristjánsson, fjölmiðlamaður, staðfestir í samtali við mbl.is að hann sé með félag Önnu Sigurlaugar Pálsdóttur, eiginkonu forsætisráðherra, til umfjöllunar. Félagið er hluti af stærri umfjöllun sem hann vinnur nú að um skattaskjólsfélög.
Sjá fréttaknippi mbl.is: Erlent félag eiginkonu forsætisráðherra
„Ég grennslaðist fyrir um málið,“ segir Jóhannes, en hann segist ekki geta greint nánar frá umfjöllun sinni að svo stöddu.
Reykjavík Media ehf., fjölmiðlafyrirtæki Jóhannesar, vinnur að fréttum um félag Önnu Sigurlaugar, Wintris Inc., ásamt alþjóðlegum samtökum rannsóknarblaðamanna, The International Consortium of Investigative Jounalists (ICIJ) og þýska dagblaðinu Sūddeutsche Zeitung.
Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður forsætisráðherra, hefur greint frá því að skattar hafi frá upphafi verið greiddir af erlenda félaginu Wintris Inc. Eignir félagsins, sem er skráð á Bresku-Jómfrúreyjum og er í fjárstýringu hjá útibúi Credit Suisse á Bretlandi, nema rúmum milljarði, auk þess sem félagið á kröfur á alla föllnu bankanna.
Félag Önnu Sigurlaugar hefur verið rætt á Alþingi í vikunni og hafa þingmenn Vinstr grænna meðal annars krafist þess að ríkisstjórnin fari frá.