Undanfarin ár hefur áhugi á hjólreiðum vaxi talsvert hér á landi og nýtur iðkunin vinsælda sem afþreying, keppni og sem faratæki til að komast á milli staða. Þá hefur sprottið upp talsverður fjöldi hjólakeppna undanfarin ár, allt frá WOW cyclathon þar sem hjólað er kringum landið yfir í tímatökur á Sæbrautinni og Bláa lóns þrautina þar sem hjólað er frá Reykjavík í Bláa lónið.
Þá hafa verið gerðir sérstakir hjólastígar á nokkrum stöðum og njóta þeir sívaxandi vinsælda, hvort sem um er að ræða þægilegan kvöldhjólatúr eða hörku æfingar þar sem hraðinn og tíminn skiptir öllu máli.
Til þess að fylgjast með árangri sínum nýtast margir við hjólaöpp í símanum þar sem notast er við bæði gervitungl og miðun frá farsímasendum til að mæla vegalengdir og hraða viðkomandi hjólreiðamanns. Reyndar virka þessi öpp alla jafna fyrir aðra hreyfingu líka, eins og hlaup eða skíðagöngu. Dæmi um öpp af þessu tagi eru t.d. Strava, Endomondo og Runkeeper.
Til viðbótar við að mæla eigin getu og árangur er í gegnum þessi öpp hægt að fylgjast með árangri vina sinna og skoða hversu vel maður stendur sig í samanburði við aðra sem hafa hjólað sömu leið. Þarna verður því til einskonar viðmiðun sem fólk getur notað til að sjá hvað þyki eðlileg mörk á að ákveðnum vegalengdum og samhliða því áskoranir til að gera betur.
Eins og með svo margt sem tengist samfélagsmiðlum og öppum sem safna upplýsingum um allt mögulegt og ómögulegt er hægt að taka þessar sömu upplýsingar saman og nota þær á skemmtilegan og jafnvel fróðlegan hátt. Það á t.d. við um fyrirtækið sem stendur á bak við Strava appið. Á vef þeirra er hægt að nálgast svokallað hitakort (e. heat map) þar sem hægt er að sjá hvaða hjólaleiðir (og hlaupaleiðir) eru vinsælastar hjá Íslendingum.
Á kortinu sem birt er á heimasíðunni má meðal annars sjá að Reykvíkingar og nærsveitamenn eru hvað duglegastir að hjóla meðfram sjávarsíðunni, hvort sem um er að ræða Ægissíðu, Kársnesið eða Sæbrautina.
Þá er hægt að sjá ýmislegt áhugavert, svo sem að þótt hægt sé að hjóla meðfram Sæbrautinni fyrir ofan athafnarsvæði Eimskipa, þá velja fleiri að fara niður og hjóla Klettagarða og Vatnagarða. Þá fara einnig flestir alla leiðina fyrir Seltjarnarnesið í stað þess að svindla sér og taka styttri hringinn í kringum Reykjavík og fara niður hjá Eiðistorgi.
Þá er mjög greinilegt að á höfuðborgarsvæðinu er tiltölulega lítið hjólað utan stofnæða hjá þeim sem eru að mæla hjólavegalengdir sínar. Þannig er hjólaumferð mjög lítil milli Sæbrautar og Fossvogsdals, ef frá er talið að einhver fjöldi hjólar Suðurlandsbrautina.
Fyrir utan Reykjavíkursvæðið má svo sjá að hjólreiðafólki finnst gaman að fara Hvalfjörðinn, Mosfellsdal alla leið að Þingvöllum og Krýsuvíkurleið.
Sjá má hitakortið fyrir Reykjavíkursvæðið hér, en hægt er að færa það til svo allt landið sjáist eða ákveðnir landshlutar.
Þá er hægt að skoða skemmtilegan samanburð á 2014 og 2015 hitakortum Strava á þessari slóð, en þar má meðal annars sjá að nokkrir nýir stígar hafa verið teknir í gagnið. Þess fyrir utan er ansi lítil breyting í hvar vinsælast er að hjóla, ef frá er talið að hjólreiðar virðast vinna á miðsvæðis í borginni.