Aðalfundur Samtaka ferðaþjónustunnar ítrekar fyrri ályktanir um að Reykjavíkurborg láti af andstöðu sinni við Reykjavíkurflugvöll og hverfi frá byggingaráformum sem hafa í för með sér lokun NA/SV brautar flugvallarins. Þetta kemur fram í ályktun sem samþykkt var á aðalfundi samtakanna fyrr í vikunni.
„Í ályktunum, sem samþykktar voru á aðalfundum SAF árin 2014 og 2015 var skorað á forsvarsmenn Reykjavíkurborgar að láta af andstöðu sinni við Reykjavíkurflugvöll og hverfa frá byggingaráformum sem hafa í för með sér lokun NA/SV brautar flugvallarins. Við auglýsingar að breytingum á skipulagi og fleiri tækifæri hafa Samtök ferðaþjónustunnar ítrekað kröfur aðalfundanna, en allt kemur fyrir ekki.
Á undanförnum 24 mánuðum hefur verið unnið ötullega að því að fullkanna aðra flugvallarkosti og hefur skýrt komið í ljós að ekkert annað flugvallarstæði kemur til greina í Reykjavík en Vatnsmýrin. Undir það skrifar m.a. borgarstjórinn í Reykjavík.
Hugmyndir hafa komið fram um hugsanlega staðsetningu nýs flugvallar í Hvassahrauni, en ljóst er að miklar rannsóknir þurfa að eiga sér stað áður en ákvörðun um byggingu nýs flugvallar yrði tekin og jafnframt tæki mörg ár að byggja þar flugvöll.
Reykjavíkurflugvöllur mun því verða í Vatnsmýrinni um langt árabil hvað sem lengri framtíð ber í skauti sér. Það er lífsnauðsynlegt fyrir sjúkraflug og almannaöryggi. Það er ómetanlegt fyrir almenningssamgöngur þjóðarinnar og það er gríðarlega mikilvægt fyrir ferðaþjónustuna í landinu.
Því er það óskiljanlegt ábyrgðarleysi af hálfu borgarinnar að reyna í ljósi alls þessa að knýja fram lokun NA/SV brautarinnar, sem gegnir mikilvægu öryggishlutverki á flugvellinum. Svo langt gengur borgin í því efni að standa í málaferlum við innanríkisráðherra, sem ber ábyrgð á öryggi flugs í landinu.
Aðalfundur SAF haldinn í Reykjavík 15. mars 2016 lýsir yfir miklum áhyggjum af framferði Reykjavíkurborgar í þessu máli og skorar á borgaryfirvöld að lýsa því yfir að þau muni tryggja framtíð Reykjavíkurflugvallar í óskertri mynd til frambúðar eða þar til annar flugvöllur hefði verið byggður og tekinn í notkun.“