Roller Derby-lið Íslands, Ragnarök, mætti liði frá Finnlandi í Hertz-höllinni á Seltjarnarnesi í dag. Þetta er fjórði heimaleikur liðsins en mótherjarnir eru frá borginni Turku í Finnlandi og gengur liðið undir nafninu Dirty River Roller Grrrls B-team Åbo B-ajs.
Roller derby er hröð snertiíþrótt sem er spiluð á hjólaskautum, en markmið leiksins er að skora sem flest stig með því að hringa andstæðinginn.
Vinsældir íþróttarinnar hafa farið ört vaxandi hér á landi sem og annars staðar. Nokkur nýliðanámskeið eru haldin á hverju ári og var svo mikil aðsókn síðast að vísa þurfti fólki frá. Íþróttin er, eins og áður sagði, spiluð á hjólaskautum og eru aðallega konur sem spila hana, þó svo að karlaliðum hafi farið fjölgandi undanfarið um allan heim.