Nýting auðlinda byggi á framsýni

Samtök ferðaþjónustunnar gera þá kröfu að nýting þeirrar auðlindar sem í náttúrunni felast sé byggð á  framsýni, ábyrgð og skipulagi með heildarhagsmuni þjóðarbúsins að leiðarljósi. Umræða um nýtingu og vernd íslenskrar náttúru á ekki einungis að snúast um nýtingu náttúruauðlinda til orkufreks iðnaðar. Þetta er meðal þess sem kemur fram í ályktun sem samþykkt var á aðalfundi SAF í vikunni.

Hálendið
Hálendið mbl.is/Malín Brand

„Ferðaþjónustan hefur tryggt þann stöðugleika, hagvöxt og kaupmátt sem Íslendingar búa við í dag. Þannig á ferðaþjónustan þátt í því að hagkerfi landsins er hratt að breytast úr því að vera frumvinnsluhagkerfi í þjónustuhagkerfi. Ferðaþjónusta skilar nú um þriðjungi gjaldeyristekna landsins og rúmlega 10 prósent þjóðarinnar starfa beint við ferðaþjónustu um allt land.

Ferðaþjónustan er þannig orðin afgerandi hreyfiafl í þeim miklu samfélagsbreytingum sem þegar eru hafnar og nýr valkostur hvað varðar stefnu í atvinnumálum þjóðarinnar. Ferðaþjónustan knýr ekki síður samfélagsbreytingar sem kalla á nýtt gildismat til dæmis um verðmæti ósnortinna víðerna, mikilvægi náttúruverndar og nýrra möguleika til eflingar landsbyggðarinnar og byggðaþróunar.

Tryggja verður sjálfbæra nýtingu náttúrunnar til lengri tíma

Aðalfundur SAF gerir þá kröfu að nýting þeirrar auðlindar sem í náttúrunni felast sé byggð á framsýni, ábyrgð og skipulagi með heildarhagsmuni þjóðarbúsins að leiðarljósi.
Umræða um nýtingu og vernd íslenskrar náttúru á ekki einungis að snúast um nýtingu náttúruauðlinda til orkufreks iðnaðar. Meta þarf þau óefnislegu gæði sem í ósnortinni náttúru felast,“ segir meðal annars í ályktun aðalfundar. Þar er viljayfirlýsingu um þjóðgarð á miðhálendinu fagnað. 

„Aðalfundur SAF skorar á stjórnvöld að tryggja að fjármagn skili sér til baka til uppbyggingar innviða enda er það grunnforsenda þess að ferðaþjónustan geti vaxið og dafnað til framtíðar.

Ríkissjóður hefur miklar tekjur af ferðaþjónustunni m.a. í formi neysluskatta ferðamanna og annarra beinna skatta. Ferðaþjónustan býr til um 30.000 nýja skattgreiðendur á degi hverjum, allan ársins hring. Þessir skattgreiðendur nýta þó ekki nema að litlum hluta opinbera þjónustu. Fyrir liggur að aukning virðisaukaskattstekna ríkissjóðs, ein og sér, af neyslu erlendra ferðamanna nam 10 milljörðum króna á milli áranna 2014 og 2015. Þá er nú þegar gistináttagjald innheimt af ferðamönnum. Einnig hafa samtök ferðaþjónustunnar stutt hugmyndir um gjaldtöku fyrir virðisaukandi þjónustu enda telja samtökin að slík innheimta geti stutt við stýringu og dreifingu, gæði og þjónustu á hverjum ferðamannastað,“ segir í ályktun fundarins.

 

Svartá í Bárðardal
Svartá í Bárðardal Photo: Group's Facebook page
Frá Skjálfandafljóti.
Frá Skjálfandafljóti. Ljósmynd/lax-a.net
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka