Matthías Imsland, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra og fyrrverandi aðstoðarmaður Eyglóar Harðardóttur, velferðarráðherra, segist ekki þekkja neinn framsóknarmann sem ber traust til Vilhjálms Bjarnasonar, þingmanns Sjálfstæðismanna. Þetta kemur fram í færslu hans á Facebook.
Vísar hann þar til fréttar frá því í kvöld þar sem Vilhjálmur lýsti því yfir að upplýsingar um eignarhald eiginkonu Sigmundar á félagi á Jómfrúreyjum hafi rýrt traust á milli stjórnarflokkanna auk þess sem það valdi honum vonbrigðum.
Matthías segir í færslu sinni að sér þyki þetta fyndið þar sem enginn framsóknarmaður treysti Vilhjálmi. Færsla Matthíasar er í heild eftirfarandi:
„Finnst nú eiginlega pínu fyndið að í hvert skipti sem Villi gagnrýnir Framsókn þá er því slegið upp. Svona til upplýsinga þá þekki ég nú engan framsóknarmann sem ber traust til Vilhjálms.“