Baráttan um Bessastaði harðnar

Hver tekur við á Bessastöðum í ár?
Hver tekur við á Bessastöðum í ár? mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Nú eru 14 vik­ur til for­seta­kosn­inga og svo virðist sem kjós­end­ur eigi erfitt verk fyr­ir hönd­um, ætli þeir að kynna sér alla fram­bjóðend­ur sem stefna á Bessastaði. Kosn­ing­arn­ar fara fram 25. júní en til­kynna þarf fram­boð fimm vik­um fyr­ir kosn­ing­ar, eða 21. maí.

12 ein­stak­ling­ar hafa til­kynnt um fram­boð sitt, að minnsta kosti fjór­ir liggja und­ir feldi og erfitt er að henda reiður á þeim sem orðaðir hafa verið við embættið, en hafa ekki tjáð sig um það op­in­ber­lega.

Met­sölu­rit­höf­und­ur og Youtu­be-stjarna með þeim fyrstu

Þorgrím­ur Þrá­ins­son, rit­höf­und­ur, var með þeim fyrstu sem lístu yfir áhuga á fram­boðinu, í nóv­em­ber 2015. Lítið hef­ur borið á Þorgrími eft­ir ára­mót, en hann er nú stadd­ur í æf­inga­ferð í Dan­mörku með ís­lenska karla­landsliðinu í knatt­spyrnu. Þorgrím­ur hef­ur verið í landsliðsnefnd karla síðastliðin 8 ár, kann vel við sig í því starfi og seg­ir landsliðið ganga fyr­ir. Þorgrím­ur mun ferðast með liðinu á loka­keppni EM sem fram fer í Frakklandi í júní.

„Þetta er kannski á versta tíma hvað fram­boðið varðar en mér er meira í mun að landsliðið standi sig vel í Frakklandi en að ég verði for­seti,“ sagði Þorgrím­ur í viðtali í Sunnu­dags­blaði Morg­un­blaðsins í des­em­ber.

Þorgrímur Þráinnsson var meðal þeirra fyrstu sem tilkynnti um framboð …
Þorgrím­ur Þráinns­son var meðal þeirra fyrstu sem til­kynnti um fram­boð sitt til for­seta, en hann seg­ir vel­gengi karla­landsliðsins í knatt­spyrnu ganga fyr­ir embætt­inu. Þorgrím­ur ferðast með liðinu til Frakk­lands í sum­ar. mbl.is/Á​rni Sæ­berg

Ari Jóseps­son, Youtu­be-stjarna, til­kynnti um fram­boð sitt á svipuðum tíma og Þorgrím­ur. Ari verður 35 ára 5. júní og verður því að öll­um lík­ind­um yngsti fram­bjóðand­inn, en eitt af skil­yrðum þess að mega bjóða sig fram til embætt­is­ins er að hafa náð 35 ára aldri.

Ari Jósepsson, Youtube-stjarna og yngsti forsetaframbjóðandinn.
Ari Jóseps­son, Youtu­be-stjarna og yngsti for­setafram­bjóðand­inn. Ljós­mynd/​Af Faca­book síðu Ara

Ástþór Magnús­son, at­hafnamaður, til­kynnti um fram­boð sitt í byrj­un árs, en hann ætl­ar að end­ur­vekja for­setafram­boð sitt „Virkj­um Bessastaði.“ Ástþór hyggst einnig nýta sér nýj­ar leiðir í kosn­inga­bar­áttu sinni, en hann er meðal ann­ars mætt­ur á Snapchat.  

Ástþór er hress á Snapchat.
Ástþór er hress á Snapchat. Ljós­mynd/​Snapchat

Elísa­bet Jök­uls­dótt­ir, rit­höf­und­ur og Hild­ur Þórðardótt­ir, heila, voru fyrstu kon­urn­ar sem til­kynntu um fram­boð. Elísa­bet vill fyrst og fremst hafa það huggu­legt á Bessa­stöðum sem eiga að vera opn­ir að henn­ar mati og þar á jafn­framt að vera mik­il traffík af fólki. „Þetta á ekki bara að vera hús úti í fjarska held­ur á að liggja þjóðbraut þangað,“ sagði Elísa­bet í sam­tali við mbl.is í janú­ar.

Elísabet Jökulsdóttir rithöfundur.
Elísa­bet Jök­uls­dótt­ir rit­höf­und­ur. mbl.is/Þ​órður Arn­ar Þórðar­son

Er mars mánuður næsta for­seta?

Í byrj­un mars fór staðfest­um fram­boðum fjölg­andi. Sturla Jóns­son, vöru­bíl­stjóri, lísti yfir áhuga sín­um á embætt­inu í byrj­un árs og á föstu­dag staðfesti hann fram­boð sitt í beinni út­send­ingu í þætt­in­um Lín­an laus á Útvarpi Sögu.

Heim­ir Örn Hólm­ars­son, raf­magns­tækni­fræðing­ur, til­kynnti fram­boð sitt í byrj­un mánaðar­ins, en hann hef­ur starfað í flug­geir­an­um í 10 ár „í störf­um sem hafa í senn verið tækni­lega og laga­lega krefj­andi og öðlast þaðan tölu­verða reynslu á alþjóðavett­vangi,“ að því er fram kem­ur í til­kynn­ingu frá Heimi Erni.

Hóp­ur fólks sem hvatti Vig­fús Bjarna Al­berts­son, sjúkra­húsprest, til að bjóða sig fram varð áber­andi í byrj­un mars og þann 6. mars til­kynnti Vig­fús Bjarni um fram­boð sitt. „Ég veit að ég hef hug­rekki til að ganga inn í þess­ar aðstæður og tala upp­hátt,“ sagði Vig­fús þegar hann tók við 500 und­ir­skrift­um stuðnings­manna sinna á Hót­el Borg, þar sem hann kynnti fram­boð sitt.

Séra Vigfús Bjarni Albertsson ásamt fjölskyldu sinni.
Séra Vig­fús Bjarni Al­berts­son ásamt fjöl­skyldu sinni. mbl.is/ Árni Sæ­berg

Frum­kvöðull og fyrr­um Coca Cola fram­vkæmda­stjóri

Í síðustu viku bætt­ust Halla Tóm­as­dótt­ir, frum­kvöðull og rekstr­ar­fræðing­ur og Bær­ing Ólafs­son, fyrr­ver­andi for­stjóri og fram­kvæmda­stjóri hjá Coca Cola, í hóp fram­bjóðenda.

Nafn Höllu kom fyrst upp í for­setaum­ræðunni fyr­ir ára­mót en Halla til­kynnti um fram­boð sitt á heim­ili sínu 17. mars. Í ræðu sinni sagði Halla að hún væri af þeirri lán­sömu kyn­slóð sem orðið hafi fyr­ir djúp­um áhrif­um af for­setatíð Vig­dís­ar.

Halla Tómasdóttir greindi frá forsetaframboði á heimili sínu í Kópavogi.
Halla Tóm­as­dótt­ir greindi frá for­setafram­boði á heim­ili sínu í Kópa­vogi. mbl.is/Á​rni Sæ­berg

Bær­ing ætlaði að bjóða sig fram árið 2012 en hætti við þar sem hann vildi ekki bjóða fram gegn sitj­andi for­seta, Ólafi Ragn­ari Gríms­syni. Bær­ing tel­ur að helsta verk­efni for­seta þessa stund­ina sé að sam­eina þjóðina. „Þjóðin virðist vera í mikl­um ólgu­sjó og ég held það þurfi mann sem hef­ur reynslu til að sam­eina þjóðina um þau mark­mið og mál­efni sem tryggja framtíðina fyr­ir landið í staðinn fyr­ir að vera að ein­blína of mikið á mis­tök fólks í fortíðinni og í smá­mál­um,“ sagði Bær­ing í sam­tali við mbl.is á föstu­dag.

Sunnu­dag­ur til fram­boðs

Í gær, sunnu­dag, bætt­ust tveir fram­bjóðend­ur í hóp­inn. Hrann­ar Pét­urs­son, fé­lags­fræðing­ur, bauð fjöl­miðlum, fjöl­skyldu og vin­um upp á morgunkaffi þegar hann til­kynnti um fram­boð sitt. Hrann­ar sagði fram­boðið eiga sér lang­an aðdrag­anda og að hann hafi haft sterka skoðun á embætt­inu alla tíð.

Hrannar bauð fjölmiðlum, fjölskyldu og vinum upp á morgunkaffi þegar …
Hrann­ar bauð fjöl­miðlum, fjöl­skyldu og vin­um upp á morgunkaffi þegar hann til­kynnti um fram­boð sitt. mbl.is/​Eggert

Guðmund­ur Frank­lín Jóns­son, viðskipta­fræðing­ur og fyrr­ver­andi formaður Hægri grænna, til­kynnti um fram­boð sitt í stöðuupp­færslu á Face­book í gær. „Eft­ir því sem ég hef elst og þrosk­ast, því bet­ur geri ég mér grein fyr­ir hvað ég er hepp­inn að vera Íslend­ing­ur og þakk­lát­ur fyr­ir þau for­rétt­indi að hafa fæðst og al­ist upp í þessu fal­lega landi okk­ar. Í ljósi þessa ætla ég að bjóða fram krafta mína og hef ákveðið að gefa kost á mér í embætti til for­seta Íslands,“ seg­ir Guðmund­ur meðal ann­ars í færslu sinni.

Hverj­ir eru ennþá lík­leg­ir?

Þá eru þeir upp tald­ir sem staðfest hafa fram­boð sitt enn sem komið er. Enn er þó fjöldi ein­stak­linga sem hef­ur verið nefnd­ur á nafn.

Davíð Þór Jóns­son, héraðsprest­ur á Aust­ur­landi og fyrr­ver­andi grín­isti, Guðrún Nor­dal, pró­fess­or og for­stöðumaður Árna­stofn­un­ar, Bryn­dís Hlöðvers­dótt­ir, rík­is­sátta­semj­ari og Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dótt­ir, fyrr­ver­andi ráðherra og þing­kona, eru öll að íhuga for­setafram­boð, en hafa ekki til­kynnt ákvörðun sína.

Auk þess hafa sum nöfn ít­rekað komið upp í umræðunni, og þar má lík­leg­ast helst nefna stór­söngv­ar­ann Bergþór Páls­son og rit­höf­und­inn Andra Snæ Magna­son. Ann­ar rit­höf­und­ur, Ólaf­ur Jó­hann Ólafs­son, hef­ur einnig verið nefnd­ur sem lík­leg­ur fram­bjóðandi, auk þess sem Vís­ir greindi frá því í fe­brú­ar að Össur Skarp­héðins­son, þingmaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, væri lík­leg­ur fram­bjóðandi.

Eng­inn úr þess­um hópi hef­ur þó tjáð sig op­in­ber­lega um mögu­legt fram­boð. Tæp­lega 3500 manns hafa líkað við síðu á Face­book þar sem Andri Snær er hvatt­ur til að fara fram og ljóst er að miðað við það hann ætti ekki í nein­um erfiðleik­um með að afla meðmæla, en for­seta­efni skal hafa meðmæli minnst 1500 kosn­ing­ar­bærra manna og mest 3000. Fast á hæla stuðnings­síðu Andra Snæs kem­ur stuðnings­síða Bergþórs, en ein­ung­is mun­ar ör­fá­um lík­end­um á síðunum tveim­ur. 

Um 3.500 manns hafa líst yfir stuðningi sínum við framboð …
Um 3.500 manns hafa líst yfir stuðningi sín­um við fram­boð Andra Snæs Magna­son­ar. Hann hef­ur hins veg­ar ekki til­kynnt um fram­boð. mbl.is/​Krist­inn Ingvars­son

Hum­ar á Bessastaði?

Ólík­leg­asta nafnið sem hef­ur skotið upp koll­in­um í umræðunni um mögu­lega for­setafram­bjóðend­ur er Face­book stjarn­an Hum­ar Lindu­son Eld­járn, en hann til­heyr­ir fjöl­skyldu Ara Eld­járns, grín­ista, og því með for­seta­blóð í æðum. Stuðnings­síða hon­um til heiðurs hef­ur verið stofnuð á Face­book og hafa rúm­lega 700 manns líkað við hana. Hum­ar hef­ur sjálf­ur tjáð sig um málið: 

Humar uppfyllir ekki öll skilyrði til framboðs.
Hum­ar upp­fyll­ir ekki öll skil­yrði til fram­boðs. Ljós­mynd/​Af Face­book

Því miður fyr­ir Hum­ar er nokkuð víst að hann upp­fyll­ir ekki öll þau skil­yrði sem þarf til að bjóða sig fram, en það verður áhuga­vert að fylgj­ast með hon­um að lokn­um speguler­ing­um. 

Í síðustu for­seta­kosn­ing­um, árið 2012, voru alls sex fram­bjóðend­ur. Nán­ast ör­uggt verður að telj­ast að það met verði slegið í ár, og það all hressi­lega. Þeir sem hafa áhuga á embætt­inu hafa að minnsta kosti ennþá 9 vik­ur til að til­kynna um fram­boð sitt. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert