„Þetta mál er risavaxið og undir öllum eðlilegum kringumstæðum myndi maður gera ráð fyrir að þingið myndi lýsa yfir vantrausti á ráðherra við svona fréttir. Þetta er hins vegar eitthvað sem þarf að ræða. Það er ýmislegt sem skiptir máli, til dæmis að allt komi fram sem geri þingmönnum meirihlutans kleift að móta sína skoðun.
Svo liggur líka fyrir að þingið kemur ekki saman í tvær vikur, það verður í fyrsta lagi hægt að leggja þetta fram eftir tvær vikur og þá veit maður ekki hvernig staðan verður,“ segir Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, í samtali við mbl.is.
Málið hefur ekki verið rætt formlega meðal þingmanna Vinstri grænna en Katrín Jakobsdóttir, formaður flokksins, segir í samtali við mbl.is að mörgum spurningum sé ósvarað í málinu. Þá gerir hún ráð fyrir að farið verði yfir málið áður en þing kemur saman á ný eftir páskafrí.
Ríkisútvarpið greindi frá því í gærkvöldi að möguleg vantrauststillaga á forsætisráðherra hafi verið rædd innan allra stjórnarandstöðuflokkanna en þeir hafi hins vegar ekki rætt saman formlega um sameiginlega tillögu. Þeir vilji hins vegar að forsætisráðherra svari ýmsum spurningum sem ekki hafi verið svarað í þinginu fyrir páskafrí.
Málið snýst um aflandsfélag Önnu Sigurlaugar Pálsdóttur, eiginkonu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra, á Bresku Jómfrúareyjunum. Alþingi kemur næst saman eftir tvær vikur, eða mánudaginn 4. apríl vegna páskafrís þingmanna.
Frétt mbl.is: Vantraust á forsætisráðherra
Vantrauststillaga er ályktun löggjafarþings í þingræðisríki um að ríkisstjórn í heild eða einstakir ráðherrar njóti ekki stuðnings þingsins og beri því að segja af sér.
Helgi Hrafn segist aðspurður gera ráð fyrir að verið sé að ræða málið í öllum hornum, það sé af þeirri stærðargráðu. „Þetta kemur upp rétt fyrir páskahlé og fólk er búið að gera sínar áætlanir. Þannig að það er óheppilegur tími fyrir fólk til að hittast en fólk talar auðvitað saman,“ segir Helgi Hrafn.
Hann segir mikilvægt að halda því til haga að tillaga sem þessi snúist ekki aðeins um hvort hún verði lögð fram eða ekki. Hún snúist einnig um hvenær hún verður lögð fram og á hvaða forsendum. Ekki sé nóg að vera bara hneykslaður og reiður heldur þurfi að útskýra hvers vegna og á hvaða forsendum tillagan sé lögð fram.
„Svo skiptir verulegu máli, vegna þess að vantrauststillaga snýst ekki bara um minnihlutann að tjá reiði sína, að þingmenn meirihlutans fá að hugsa sinn gang almennilega, það skiptir líka máli. Það er ekki bara stjórnarandstaðan og hennar einkamál hvort og hvenær vantrausti er lýst yfir. Þetta er mál þingsins á móti ríkisstjórn,“ segir Helgi Hrafn.
„Í engu þingi í lýðræðislegu samfélagi ætti þetta að þykja í lagi. Hvernig þeir [þingmenn stjórnarflokkanna] brugðust við fyrst var auðvitað fáránlegt, að það væri einhver skepnuskapur af þingmönnum minnihlutans að tala um þetta og vera hneyskslaðir á þessu.
Eins og það sé einhver lágkúra að tala um það að forsætisráðherra landsins hafi geðveikislegra hagsmuna að gæta í máli sem hann er í forsvari fyrir. Maður veltir sér hvernig það muni þróast á tveggja vikna tímabili, hvernig þeir fara að sjá málin og hugsa um þau með tímanum,“ segir Helgi Hrafn að lokum.
Uppfært kl. 11.01
„Það liggur algjörlega fyrir að það er mjög mörgum spurningum ósvarað að hálfu forsætisráðherra og það liggur algjörlega fyrir að þetta hlýtur að rýra mjög traust á hans störfum,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, aðspurð um málið.
Hún segir það ekki hafa verið rætt formlega meðal þingmanna flokksins en eðilega hafi þingmennirnir rætt málið sín á milli á óformlegum nótum. Katrín væntir þess að farið verði yfir stöðuna áður en þing kemur saman eftir páskafrí.