Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, vill frekari viðbrögð og svör frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra vegna aflandsfélags Önnu Sigurlaugar Pálsdóttur, eiginkonu hans. Möguleg vantrauststillaga á Sigmund hefur verið rædd innan flokksins ásamt öðrum viðbrögðum.
Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, vill ekki tjá sig um málið fyrr en það hefur verið rætt á þingflokksfundi.
Ríkisútvarpið greindi frá því í gærkvöldi að möguleg vantrauststillaga á forsætisráðherra hafi verið rædd innan allra stjórnarandstöðuflokkanna en þeir hafi hins vegar ekki rætt saman formlega um sameiginlega tillögu. Þeir vilji hins vegar að forsætisráðherra svari ýmsum spurningum sem ekki hafi verið svarað í þinginu fyrir páskafrí.
Málið snýst um aflandsfélag Önnu Sigurlaugar á Bresku Jómfrúareyjunum. Alþingi kemur næst saman eftir tvær vikur, eða mánudaginn 4. apríl vegna páskafrís þingmanna.
„Staðan er sú að þingið kemur ekki saman fyrr en eftir páska. Við erum dálítið að reyna að átta okkur á hver viðbrögð forsætisráðherra eru. Ég upplifi að fólki finnist að það þurfi meiri viðbrögð og svör frá forsætisráðherra,“ segir Óttarr í samtali við mbl.is um málið.
Frétt mbl.is: Ekki nóg að vera bara reiður
Hann segir að málið hafi verið rætt innan flokksins og hvernig bregðast skuli við því. Hann staðfestir að vantrauststillaga sé meðal þeirra úrræða sem rædd hafa verið.
„Við eins og öll þjóðin erum að upplifa þetta í beinni. Þessar upplýsingar og þessar fréttir komu jafn flatt upp á okkur og almenning og að því er virðist samstarfsflokkinn og fleiri. Þannig að við erum auðvitað bara að reyna að fylgjast með og reyna að átta okkur á málinu.
Við tökum enga endanlega ákvörðun fyrr en við erum komin nærri því að þing komi saman aftur. Það eru ekki við sem stýrum aðburðarásinni, það er forsætisráðherra,“ segir Óttarr.
„Þetta hefur verið óformlega rætt, held ég, innan allra stjórnarandstöðuflokkanna en við höfum ekki rætt það á fundi. Ég ætla ekki að tjá mig um það fyrr en við höfum gert það,“ segir Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar. Ekki er fyrirhugaður þingflokksfundur hjá flokknum fyrr en eftir páska.
Frétt mbl.is: „Skattalegt hagræði úr sögunni“