RÚV sektað um 250.000 kr.

mbl.is/Eva Björk

RÚV þarf að greiða 250.000 króna stjórnvaldssekt vegna áfengisauglýsingar sem var birt í Ríkissjónvarpinu í október í fyrra. Þetta er niðurstaða fjölmiðlanefndar sem segir að RÚV hafi brotið fjölmiðlalög með birtingu auglýsingarinnar.

Fjölmiðlanefnd barst kvörtun frá Foreldrasamtökum gegn áfengisauglýsingum 16. október í fyrra vegna meintra áfengisauglýsinga á RÚV. Í kvörtuninni var vísað til auglýsinga frá Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni á Egils Gulli, þar á meðal auglýsingar sem kvartandi kvað hafa birst á RÚV miðvikudagskvöldið 14. október kl. 20.42.

Fjölmiðlanefnd komst að þeirri niðurstöðu að með birtingu auglýsingar fyrir Egils Gull á hafi Ríkisútvarpið brotið gegn 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla um bann við viðskiptaboðum fyrir áfengi.

Fram kemur í niðurstöðu fjölmiðlanefndar, að í auglýsingunni væri í raun ekki vísað til vörutegundar sem hefði minna en 2,25% áfengisinnihald, heldur vörutegundar sem hefði hlotið verðlaun World Beer Awards árið 2011 og hefði 5% áfengisinnihald. Jafnframt væri vísað til áfengrar vörutegundar með því að birta myndir af glerflösku en ljóst væri að Egils Gull með 2,25% áfengisinnihaldi stæði neytendum einungis til boða í álumbúðum.

Ríkisútvarpið mótmælti harðlega þeirri niðurstöðu fjölmiðlanefndar að birting auglýsingarinnar hefði brotið í bága við lög. Að mati Ríkisútvarpsins uppfyllti auglýsingin skilyrði laga, þar sem um væri að ræða vöru með minna en 2,25% áfengisinnihald og sem væri sannanlega á markaði fyrir neytendur. Ríkisútvarpið hafnaði þeirri fullyrðingu fjölmiðlanefndar að varan væri einungis fáanleg í glerflösku með 5% áfengisinnihaldi.

Fjölmiðlanefnd taldi hins vegar ekki augljóst að auglýsingin vísaði til óáfengs drykkjar, svo sem áskilið er í lögum, heldur vísaði hún þvert á móti til hinnar áfengu framleiðslu og vöruumbúða sem notaðar eru undir áfengan bjór með 5% áfengisinnihaldi. 

Ákvörðun fjölmiðlanefndar 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert