Svo virðist sem Anna Sigurlaug Pálsdóttir, eiginkona forsætisráðherra, hafi tapað fremur en grætt á því fyrirkomulagi að félag í hennar eigu hafi verið skráð á Bresku Jómfrúaeyjum.
Blásið hefur um forsætisráðherrahjónin eftir að ljóst varð fyrir tæpri viku að Anna Sigurlaug ætti aflandsfélagið Wintris Inc. á Bresku Jómfrúaeyjum.
Félagið var stofnað árið 2007 utan um hagnað af sölu hlutar hennar í fjölskyldufyrirtækinu P. Samúelssyni. Það fyrirtæki hafði faðir hennar stofnað árið 1970, til innflutnings og sölu Toyota-bifreiða, en síðar varð það umboðsaðili Toyota á Íslandi.
Kristján Gunnar Valdimarsson, lektor í skattarétti við lagadeild Háskóla Íslands, ræddi við mbl.is um mögulegt hagræði af aflandsfélögum sem þessum.
„Ef við hugsum um aflandsfélag sem er að fjárfesta erlendis í til dæmis hlutabréfum, þá borgar félagið ekki skatt af ávöxtun hlutabréfanna. Skatturinn er því í raun ekki borgaður fyrr en félagið greiðir þér arð.
Skattlagningin er þó sú sama, nema hvað að þú frestar henni, öfugt við það sem gerist ef þú sjálfur kaupir og selur hlutabréf, þá greiðirðu um leið skatt af hagnaðinum. Það er hægt að orða það þannig að skattahagræðið felist í frestun skattlagningar.“
1. janúar 2010 segir Kristján að vatnaskil hafi orðið hvað varðar arðgreiðslur aflandsfélaga.
„Þá taka gildi sérstök lagaákvæði sem lúta að þessu,“ segir Kristján og vísar í þessu tilliti til 57. greinar a. í lögum um tekjuskatt.
„Þau gera það að verkum að þú þarft að borga skatt af hagnaði félagsins á hverju ári, burtséð frá því hvort nokkrum arði sé úthlutað. Og þá þarftu, eftir að þessi ákvæði tóku gildi, að borga venjulegan tekjuskatt sem er 38 til 46 prósent.
Þar með er skattalegt hagræði af félaginu úr sögunni. Og til viðbótar, það er orðið verra heldur en ef þú fjárfestir sjálfur eða í gegnum íslenskt félag, þar sem þá er greiddur 20 prósent fjármagnstekjuskattur.“
Kristján segir ákvæði af þessu tagi til þess gerð að koma í veg fyrir að aflandsfélög séu stofnuð, í þeim tilgangi að sniðganga álagningu skatta. Keimlík ákvæði má finna í löggjöf fjölmargra landa og í Bandaríkjunum hefur álíka ákvæði verið í gildi frá árinu 1964, að sögn Kristjáns.
Fram hefur komið að Landsbankinn í Lúxemborg stofnaði félagið árið 2007 fyrir Önnu Sigurlaugu. Kristján var forstöðumaður skattasviðs Landsbankans á árunum 2003 til 2008.
„Ég þekki ekkert til þessa máls en á þeim tíma var þessu háttað þannig að bankinn gat séð um að svona félög væru stofnuð. Þetta var svona fyrir hrun en ég veit ekki hvernig það er í dag,“ segir Kristján. Bendir hann á að hagræði af aflandsfélögum hafi ekki einskorðast við skatta.
„Ef þú ætlaðir að fá lán út á svona félag þá voru bankar mjög viljugir til að lána út á félög á Bresku Jómfrúaeyjum, því það var svo auðvelt að taka veð í félögunum,“ segir hann og bætir við að lagaumhverfi eyjanna byggist á breskum félagarétti. Enn fremur sé æðsti dómstóll eyjanna á Bretlandi.
„Það er mjög þekkt og viðurkennd framkvæmd að bankinn láni félagi á Bresku Jómfrúaeyjum og taki veð í bréfunum. Svo er einfalt mál að ganga að veðunum þar sem lagaumhverfið þar er vel þekkt í þessum geira.“
Spurður hvernig málum væri háttað ef aflandsfélagið væri lagt niður og fé þess flutt til landsins, segir Kristján að meginreglan sé sú að skattur sé greiddur af því sem er umfram stofnvirði bréfa í félagi.
„Það sem hún setti í þetta upphaflega verður því ekki skattlagt aftur.“
Verðbólga sé þó ekki tekin með í þá jöfnu.
„Áður fyrr var því þannig háttað en ekki nú, svo hún borgar skatt af nafnvirði hækkunarinnar. Hún raunverulega tapar á því að það megi ekki reikna með verðbólgunni.“