„Hingað hafa borist erindi frá sveitarstjórnum sem lýsa óánægju með þessa breytingu. Við að sjálfsögðu hlustum á þau sjónarmið en ákvörðun okkar stendur,“ segir Brynjar Smári Rúnarsson, forstöðumaður hjá Póstinum.
Íslandspóstur hefur fengið leyfi Póst- og fjarskiptastofnunar til að fækka dreifingardögum á pósti í dreifbýli. Verður pósti, frá og með 1. apríl næstkomandi, dreift þrjá daga í viku aðra vikuna og tvo daga í hinni, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
„Samkvæmt skilgreiningu er þetta lágmarksþjónusta en Pósturinn mun áfram leitast við að veita sem besta þjónustu í samræmi við óskir hvers viðskiptavinar,“ segir Brynjar. „Þó verður að segjast að kostnaður við póstdreifingu úti í sveitunum er mjög hár og meðgjöfin er mikil. Það er á engan hátt hlutverk Íslandspósts að niðurgreiða þessa þjónustu og við höfum því í raun enga aðra kosti í stöðunni.“