Hæstiréttur Íslands úrskurðaði í dag að Slysavarnarfélagið Landsbjörg bæri bótaábyrgð á helmingi þess líkamstjóns sem Baldur Sigurðarson hlaut 1. janúar 2013 þegar hluti skottertu sem hann kveikti í skaust í andlit hans. Afleiðingarnar urðu þær að hann missti sjón á hægra auga.
Í mars í fyrra úrskurðaði Héraðsdómur Reykjavíkur að félagið bæri ábyrgð á 2/3 hluta þess líkamstjóns sem hann varð fyrir. Landsbjörg áfrýjaði málinu til Hæstaréttar.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað verða óröskuð. Því mun Landsbjörg greiða 2.660.000 krónur í málskostnað sem rennur í ríkissjóð.
Í skaðabótamáli sem Baldur höfðaði eftir slysið hélt hann því fram að Landsbjörg, sem teldist framleiðandi tertunnar og jafnframt dreifingaraðili hennar, bæri hlutlæga ábyrgð vegna þess tjóns sem rakið yrði til ágalla á tertunni.
Í dómi Hæstaréttar kom fram að allar leiðbeiningar á tertunni hefðu samrýmst þeim kröfum sem gerðar væru til leiðbeininga í reglugerð um skotelda að því undanskildu að ekki voru leiðbeiningar um að öryggisfjarlægð væri 25 metrar.
Þar sem leiðbeiningarnar hefðu ekki verið jafn ítarlegar og ákvæði reglugerðarinnar mæltu fyrir um var talið að ágalli hefði verið á tertunni og að á þeim ágalla bæri Slysavarnarfélagið Landsbjörg ábyrgð.
Á hinn bóginn yrði ráðið af framburði vitna að Baldur hefði ekki farið eftir þeim leiðbeiningum sem voru á tertunni og hann kvaðst hafa lesið áður en hann kveikti í henni en þær hefðu gefið honum tilefni til ríkrar aðgæslu meðal annars um að víkja vel frá tertunni. Þess í stað hefði hann staðið yfir tertunni og fært hana til eftir að hann kveikti í henni. Með þeirri háttsemi hefði hann sýnt af sér stórkostlegt gáleysi og yrði því talinn meðábyrgur að slysinu. Var því talið rétt að hann bæri tjón sitt að hálfu.