RÚV með „drottningarstæla“

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Ríkisútvarpið efnir í kvöld til borgarafundar um heilbrigðismál. Í tilkynningu kemur fram að boðið verði upp á málefnalegan umræðuvettvang þar sem leitað verði svara við spurningum almennings um heilbrigðiskerfið og framtíð þess.

Á vefsíðu fundarins kemur fram að sérfróðir gestir sem og fulltrúar stjórnmálaflokka muni sitja þar fyrir svörum. Athygli hefur þó vakið að Kári Stefánsson er ekki á meðal auglýstra gesta, en hann er forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar og upphafsmaður söfnunarinnar þar sem safnast hafa um 85 þúsund undirskriftir, til stuðnings endurreisn heilbrigðiskerfisins.

„Ég er enginn sérfræðingur“

Í samtali við mbl.is skýrir Kári frá því að hann hafi upphaflega komið með hugmyndina að fundinum á borð til Ríkisútvarpsins.

„Ég fór að velta fyrir mér hvernig maður ætti að ljúka þessari söfnun og afréð að koma á fót einhvers konar pallborðsumræðum með stjórnmálamönnum á opnum fundi. Ég hringdi í bæði Stöð 2 og Ríkisútvarpið og Magnús Geir útvarpsstjóri greip þetta á lofti,“ segir Kári.

„Svo hafa þau samband við mig og segja vera búin að skipuleggja þetta. Þau ætli að hafa tvö pallborð, á öðru borðinu verði ýmsir sérfræðingar og á hinu borðinu verði pólitíkusarnir. Þeir buðu mér að taka þátt með sérfræðingunum og ég sagði þeim að það kæmi ekki til greina, ég væri enginn sérfræðingur og hef ekki unnið í íslensku heilbrigðiskerfi í fjörutíu ár.“

Sagt er að boðið verði upp á málefnalegan umræðuvettvang á …
Sagt er að boðið verði upp á málefnalegan umræðuvettvang á borgarafundinum. mbl.is/Ómar

Undirskriftasöfnunin ástæða fundarins

Kári segir að fremur hafi hann verið að leiða það sem hann lítur á sem grasrótarhreyfingu sem beinist að þessum málaflokki.

„Þeir segja nei, við viljum ekki hafa þig á pallborði með stjórnmálamönnunum. Þá sagði ég ósköp einfaldlega við þá að þá tæki ég ekki þátt í þessu.

Mér finnst það persónulega svolítið asnalegt þar sem ástæðan fyrir þessum fundi er undirskriftasöfnunin og það sem söfnunin beinist að er að setja þrýsting á stjórnmálamenn. Þarna er RÚV að hunsa þá staðreynd að beint lýðræði er orðið eða er að verða mikið afl, ekki aðeins í stjórnmálum á Íslandi heldur um allan heim.“

Skilaboð til undirskrifenda

Kári segir að honum finnist hann verða að koma skilaboðum til þeirra sem skrifað hafa undir í söfnuninni.

„Ég vil koma því áleiðis að ástæðan fyrir því að ég er ekki þátttakandi í fundinum er einfaldlega sú að okkur hefur ekki staðið til boða að vera þátttakendur. RÚV vill okkur ekki í þessu og það er í sjálfu sér allt í lagi því það verða umræður um heilbrigðismál en ekki um mig, aðstandendur söfnunarinnar eða hana sem slíka. 

Þetta er ofboðslega asnalegt, það má vel vera að það sé gott að einhverjir aðrir séu að ræða þetta, því það er auðvitað búið að heyrast dálítið í mér og fólki í kringum mig á þessum vikum, en það er sama, af því að þetta er einhvers konar hápunktur þessarar söfnunar,“ segir Kári.

„Stjórnmálaflokkarnir eru svo margir. Ef það er einhver sem á að vera þarna þá er það ég að setja þrýsting á stjórnmálamennina. Hitt meikar engan sens.

Að þessu sögðu finnst mér það myndarlegt af RÚV að halda þennan borgarafund. En ég hefði haldið að skemmtilegasta sjónvarpið væri að etja mér gegn stjórnmálamönnunum í þessum hópi. En RÚV er með svolitla drottningarstæla og þeir vilja stjórna og þeir vilja ráða. Þeir lúta ekki einu sinni „common sense“.“

Ingólfur segir RÚV vera með óhlutdrægi að leiðarljósi.
Ingólfur segir RÚV vera með óhlutdrægi að leiðarljósi. mbl.is/Eva Björk

Ekki pólitísk uppákoma

Ingólfur Bjarni Sigfússon vef- og nýmiðlastjóri RÚV segir í samtali við mbl.is að Kára hafi vissulega verið boðið til fundarins.

„Við buðum honum og hann vildi ekki þiggja það boð. Þetta er í sjálfu sér ekki pólitísk uppákoma heldur borgarafundur, þar sem við erum að leita svara en ekki að setja þumalskrúfur á menn eða vinna að einhverjum tilteknum málstað,“ segir Ingólfur, spurður af hverju Kári hafi ekki fengið að vera á pallborði með fulltrúum stjórnmálaflokkanna.

„Ég sé það á þeim spurningum sem okkur berast að það er mjög margt sem brennur á fólki og við ætlum að reyna að fá svör við því. Ég held að Kári hefði verið mjög gott innlegg í annan panelinn en þetta er ekki fundur þar sem til stendur að Kári, eða einhver annar, sé að herja á stjórnmálamenn. RÚV hefur allt annað hlutverk og lagaramma heldur en þann.“

Samrýmist illa hlutverki RÚV

Þá segir Ingólfur að Kára hafi einnig verið boðið að koma á milli pallborðsumræðna til að afhenda þær undirskriftir sem safnast hafa.

„Hann vildi það heldur ekki og það er í raun og veru hans mat. Fundurinn snýst ekki um undirskriftirnar per se þó vissulega sé sá mikli áhugi sem landsmenn sýna kveikjan að því að halda borgarafund um málið.

En ef við myndum stilla upp panel, þar sem fulltrúi einhverrar hreyfingar, hvort sem það er Kári eða einhver annar, hefur það hlutverk að herja á einhvern annan, þá samrýmdist það illa hlutverki RÚV, sem er með óhlutdrægi að leiðarljósi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert