Kemur borginni ekki á óvart

Reykjavíkurflugvöllur.
Reykjavíkurflugvöllur. mbl.is/Árni Sæberg

„Borgin hefði náttúrulega aldrei farið út í það að stefna ríkinu, sem er auðvitað nokkuð sérstakt, nema að hafa mjög góða ástæðu til þess að líta svo á að ríkinu bæri að efna gerðan samning,“ segir Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, í samtali við mbl.is.

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu í gær að innanríkisráðuneytinu bæri að að loka norðaustur/suðvestur flugbrautinni á Reykjavíkurflugvelli og endurskoða skipulagsreglur fyrir völlinn til samræmis við lokun flugbrautarinnar innan 16 vikna á grundvelli yfirlýsingar þáverandi innanríkisráðherra Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og Jóns Gnarr sem þá var borgarstjóri Reykjavíkur.

Frétt mbl.is: Ríkið þarf að loka NA/SV flugbrautinni

„Það var búið að fara mjög gaumgæfilega yfir þetta með lögfræðingum borgarinnar sem voru algerlega einróma um það. Þannig að þetta kemur ekki á óvart. Önnur niðurstaða hefði hins vegar gert það,“ segir Hjálmar. Framhaldið segir hann í höndum ríkisins sem getur áfrýjað dómnum til Hæstaréttar. Hann segir Reykjavíkur borg ekki eiga von á öðru en að Hæstiréttur komist að sömu niðurstöðu. 

„Maður getur auðvitað ekkert fullyrt um það en það er auðvitað mikilvægt fyrir okkur að fá staðfest að mat okkar sé rétt að þarna hafi verið gerður bindandi samningur sem beri að standa við. Það er ekki hægt að segja eitt í dag og annað á morgun. Það er grundvallaratriði í góðri stjórnsýslu óháð því hvaða skoðanir fólk kann að hafa á ákveðnum deilumálum.“

Þess utan sé mjög mikilvægt að á milli ríkis og sveitarfélaga sé staðið við það sem samið er um og ekki ríki einhver tortryggni og óvild á milli þessara tveggja stjórnsýslustiga.

Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar.
Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar. mbl.is/Rax
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert