Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, segir að sér hafi hvorki borið lagaleg né siðferðisleg skylda til þess að greina frá eignum eiginkonu sinnar, Önnu Sigurlaugar Pálsdóttur, en hún á um 800 milljónir króna í aflandsfélagi. Sigmundur Davíð ræðir málið við blaðamann Fréttablaðsins, Ólöfu Skaftadóttur í dag.
Að sögn Sigmundar Davíðs hafa siðareglur sem settar voru af síðustu ríkisstjórn, 2011, ekki verið staðfestar. Hann segir að það hefði heldur engu breytt því í þeim er vísað í hagsmunaskráningu þingmanna og þess getið að menn láti ekki eigin hagsmuni hafa áhrif á störf sín.
„ Það er alveg ljóst, eins og forseti þingsins hefur kveðið mjög skýrt upp úr um, að það er engin bein skylda og ekki ætlast til þess að menn skrái eignir maka í þessari hagsmunaskráningu. Enginn þingmaður hefur gert það. Það er líka ljóst að það er ekki gert ráð fyrir því að menn skrái eignir af þessari gerð. Hagsmunaskráning þingmanna tiltekur félög í atvinnurekstri en það hefur þetta félag aldrei verið. Það er ekki ætlast til þess að menn skrái skuldabréf, hvað þá bréf sem eru töpuð að mestu,“ útskýrir Sigmundur, í viðtali við Fréttablaðið.
Anna Sigurlaug keypti skuldabréf af bönkunum fyrir hrun. Heildarumfang þeirra var rúmar 500 milljónir sem töpuðust að mestu leyti við fall bankanna. Hún átti því kröfur í slitabú allra stóru bankanna sem féllu í hruninu.
Forsætisráðherra segist byggja sitt siðferði á lögum og reglum. „Sem stjórnmálamaður byggi ég mitt siðferði á því að gera samfélaginu sem mest gagn. Út á það gengur mitt starf. Ég fór ekki í stjórnmál til þess að hafa af því atvinnu og gera það alla ævi, heldur vegna þess að ég hafði sterkar skoðanir á því til hvaða aðgerða ætti að grípa til að koma Íslandi á réttan kjöl. Ég var sakaður um að vera lýðskrumari, að tala fyrir einhverju sem væri ekki raunhæft. Freistingin var alltaf sú, þegar öll spjót beindust að mér, að segja að ég væri svo sannfærður um þessa leið, að ganga svona hart fram gegn kröfuhöfum, að ég væri tilbúinn að ganga á hagsmuni eiginkonu minnar. Mér fannst ekki siðferðislega rétt að blanda henni í þessa umræðu til að upphefja sjálfan mig.“
Þannig að þér finnst fráleitt að halda fram að þessar eignir konu þinnar hafi haft eitthvað að segja um þína framgöngu í málum gegn kröfuhöfum slitabúa föllnu bankanna?, spyr blaðamaður Sigmund Davíð:
„Algjörlega fráleitt. Enda er þetta mál sem ég set á dagskrá og keyri áfram gegn mikilli andspyrnu eins og menn muna frá síðustu kosningum. Þessi niðurstaða náðist. Einn þekktasti lögfræðingur á sviði skuldaríkja, Lee Bucheit, kallaði þetta einstaka niðurstöðu í fjármálasögu heimsins.“
Aðspurður um hvort honum hafi ekki borið skylda til þess að greina frá hagsmunum eiginkonunnar þegar hann átti tvo fulltrúa í framkvæmdahópnum um afnám hafta og um viðureign við kröfuhafa, segir Sigmundur Davíð að engin slík formleg skylda sé fyrir hendi.
„Það er ekki nein slík formleg skylda, samkvæmt þeim reglum sem við höfum rætt, né heldur siðferðisleg skylda, því siðferðisleg skylda hjá mér sem stjórnmálamanni snýst um skyldur mínar við samfélagið og að hámarka árangur minn fyrir það. Þá hlýtur maður að velta fyrir sér hvort það hefði verið betra fyrir niðurstöðuna, ef ég hefði gert þetta að einhverju umtalsefni, fyrstur manna að draga fjölskylduhagsmuni inn í það þegar verið er að taka ákvarðanir eftir hrunið. Þegar menn höfðu áður ekki greint frá því sem þeir voru að verja, sem voru eigin hagsmunir og fjölskyldu.“