Hvað snýr upp og niður?

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Anna Sigurlaug Pálsdóttir
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Anna Sigurlaug Pálsdóttir mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra segist ekki komast hjá því að ræða stjórnmál þessa páska. Hann spyr hvað snúi upp og niður? Hann og eiginkona hans, Anna Sigurlaug Pálsdóttir, birta á vefnum í dag samantekt um erlent félag um eignir hennar. 

Í samantekt frá þeim hjónum kemur fram að það var Landsbankinn sem ráðlagði að umsýsla fjármunanna færi fram í félagi á Bresku Jómfrúreyjum sem bankinn myndi leggja til, en lagaumhverfi eyjanna byggist á breskum félagarétti. Þeirri ráðgjöf var fylgt síðla árs 2007. Í framhaldi voru eignir færðar inn í félagið Wintris og Anna eignaðist þannig kröfu á það.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson mbl.is/Styrmir Kári


Fjárvarsla fór í upphafi fram hjá Landsbankanum og stjórn félagsins var sem fyrr segir í höndum umsýslufyrirtækis sem bankinn lagði til. Eins og áður hefur komið fram hefur varsla eigna félagsins og reikningur þess verið í höndum Credit Suisse í London frá árinu 2008.

Hjónin Anna Sigurlaug Pálsdóttir og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Hjónin Anna Sigurlaug Pálsdóttir og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. mbl.is/Eva Björk

Allir peningarnir gefnir upp til skatts á Íslandi

Strax í upphafi gerði Anna það að skilyrði að allir peningarnir yrðu gefnir upp til skatts á Íslandi og vildi ekki einu sinni nýta sér heimildir í lögum til að fresta skattlagningu, segir í samantekinni sem hægt er að lesa hér að neðan.

„Stjórnmál eru furðulegt fyrirbæri. Ekki hvað síst hér á Íslandi þar sem menn veigra sér oft ekki við því að snúa hlutum algjörlega á haus.

Ég greip með afgerandi hætti inn í atburðarásina í íslenskum stjórnmálum og boðaði fordæmalausar aðgerðir til að verja hagsmuni almennings, aðgerðir sem um leið voru til þess fallnar að rýra hagsmuni eiginkonu minnar.

Það sem ég boðaði var kallað galið, óframkvæmanlegt lýðskrum. Ég var sagður búa til óraunhæfar væntingar og tala fyrir einhverju sem stæðist ekki lög, tala fyrir eignaupptöku og aðgerðum sem leiða myndu til margra ára málaferla. Ég mætti mótspyrnu í hverju skrefi bæði af hálfu vogunarsjóðanna og málsvara þeirra hér á landi. Málsvararnir kölluðu mig popúlista, ekki hvað síst eftir að ég boðaði að ef kröfuhafar létu ekki undan ætti að skella á þá skatti.

Sigur hafðist þó í málinu þrátt fyrir mikla mótspyrnu. Það náðist niðurstaða sem vakið hefur athygli og undrun alþjóðlega fyrir hvað hún var óvenjuleg og góð fyrir Ísland. Niðurstaða sem Lee Buchheit kallaði einstaka í fjármálasögu heimsins. Sú niðurstaða að vogunarsjóðirnir, sem komu til að græða á falli bankanna, voru látnir borga fyrir að fá eignir sínar afhentar. Þeir þurftu að borga fyrir að fá peninga sem formaður eins af stjórnarandstöðuflokkunum minnti reglulega á að væri lögvarin eign þeirra.

Til að gera þetta mögulegt var fólk, eins og konan mín, sem þegar hafði tapað miklu á að láta bankana geyma peningana sína fyrir hrun, látið taka á sig enn meira tap.

Nú þegar búið er að klára það sem sagt var ómögulegt og ná niðurstöðunni sem reyndist „einstök í fjármálasögu heimsins“, stíga þeir fram sem sögðu mig hafa lofað því ómögulega og segja mig vanhæfan til að ná þessum árangri vegna þess að með því hafi ég verið að fórna hagsmunum eigin fjölskyldu. Og það sem meira sé, ég hafi ekki einu sinni látið vita af því að ég væri að fórna hagsmunum fjölskyldunnar. Ekkert af þessu fólki hafði talið sig vanhæft eða séð ástæðu til að gera grein fyrir eigin hagsmunum og hagsmunum fjölskyldna sinna á liðnum árum þegar verið var að taka ákvarðanir sem ekki fórnuðu þeirra eigin hagsmunum heldur vörðu þá,“ skrifar Sigmundur.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og eiginkona hans, Anna Sigurlaug Pálsdóttir
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og eiginkona hans, Anna Sigurlaug Pálsdóttir mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rægja fjölskyldu hennar til þess að vega að forsætisráðherra

Hann segir þár til sem sjá þessa umræðu alla sem tilefni til að ráðast á eiginkonu hans, „rægja hana og fjölskyldu hennar og dreifa óhróðri um þetta góða fólk, allt væntanlega í þeim tilgangi að vega að mér. Blanda þannig í málið fólki sem á svo sannarlega ekki skilið að vera dregið inn í óþverraumræðuna sem allt of oft fylgir stjórnmálum nú til dags.

Þannig varð því miður til sú staða að óhjákvæmilegt reyndist fyrir mig að fara að tjá mig um málefni eiginkonu minnar en til þessa hef ég fylgt þeirri stefnu að leyfa mönnum ekki að blanda konu minni eða fjölskyldu inn í pólitísk átök. Þegar ég vék frá þeirri reglu gerðist það sem við mátti búast að menn nýta allt sem sagt er sem tilefni til að þvæla málið áfram.

Ástæðulaust er að eltast við þá sem það gera. Hins vegar hef ég fullan skilning á að við umfjöllun eins og þá sem boðið hefur verið upp á að undanförnu vakni ýmsar spurningar hjá almenningi. Slíkt er eðlilegt þegar umræða um stjórnmál og fjármál er annars vegar,“ segir í pistli á vef forsætisráðherra en hér fyrir neðan er samantekt þeirra hjóna að finna.

Samantekt

Anna S. Pálsdóttir
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

 

Hvers vegna var stofnað erlent félag um eignir Önnu?

Um langt skeið hefur verið almenn vitneskja um það á Íslandi að Anna er efnuð kona og hefur raunar verið fjallað ítrekað um það í fjölmiðlum undanfarin ár, meðal annars árlega í tengslum við birtingu álagningarskrár Skattsins. Fyrir tæpum áratug seldi hún hlut sinn í farsælu fyrirtæki sem fjölskylda hennar hóf að byggja upp fyrir nærri hálfri öld. Með öðrum orðum var um að ræða hluta af afrakstri ævistarfs foreldra hennar og fjölskyldu. Þegar hún fékk þetta fjármagn til ráðstöfunar árið 2007 höfðum við búið í Bretlandi um nokkurra ára skeið og höfðum hug á að búa erlendis áfram, í Bretlandi eða Danmörku.

Landsbankinn, viðskiptabanki okkar á þeim tíma, ráðlagði fyrirkomulag sem hentaði til að hafa eignirnar aðgengilegar óháð því hvernig búsetu okkar yrði háttað á sama tíma og haldið væri utan um eignirnar og umsýslu þeirra á einum stað. Hvorugt okkar hafði neina sérstaka þekkingu á slíkum félögum en á þeim tíma var venjan sú að efnuðum viðskiptavinum bankanna var gjarnan ráðlagt að stofna slík félög til að halda utan um eignir sínar. Stjórn þessara félaga var oft í höndum umsýslufyrirtækis sem bankinn lagði til og slík umsýslufyrirtæki lögðu m.a. til stjórnarmenn fyrir félagið.

Hvers vegna er félagið skráð á Bresku Jómfrúreyjum?

Landsbankinn ráðlagði að umsýsla fjármunanna færi fram í félagi á Bresku Jómfrúreyjum sem bankinn myndi leggja til, en lagaumhverfi eyjanna byggist á breskum félagarétti. Þeirri ráðgjöf var fylgt síðla árs 2007. Í framhaldi voru eignir færðar inn í félagið Wintris og Anna eignaðist þannig kröfu á það. Fjárvarsla fór í upphafi fram hjá Landsbankanum og stjórn félagsins var sem fyrr segir í höndum umsýslufyrirtækis sem bankinn lagði til. Eins og áður hefur komið fram hefur varsla eigna félagsins og reikningur þess verið í höndum Credit Suisse í London frá árinu 2008.

Hvers vegna heitir félagið Wintris?

Bankinn fékk félagið skráð undir því nafni. Það var hluti af heildarpakka þannig að Anna valdi ekki nafnið né stýrði hún uppsetningunni að öðru leyti.

Voru allar eignirnar samt gefnar upp til skatts?

Já, strax í upphafi gerði Anna það að skilyrði að allir peningarnir yrðu gefnir upp til skatts á Íslandi og vildi ekki einu sinni nýta sér heimildir í lögum til að fresta skattlagningu.

Hafa verið greiddir skattar af eignunum og tekjum af þeim alla tíð síðan?

Já, eignarhlutur í Wintris hefur verið færður til eignar á skattframtölum Önnu allt frá árinu 2008. Verðbréf, skráð í eigu félagsins á hverjum tíma hafa verið færð til eignar á skattframtölum Önnu frá og með tekjuárinu 2009. Á skattframtali vegna tekjuársins 2008 var færð til eignar krafa á Wintris sem nam framlögðu fé Önnu til félagsins.

Allan eignarhaldstíma hennar á Wintris hafa skattskyldar tekjur af verðbréfum, skráðum í eigu félagsins, verið færðar henni til tekna á viðkomandi skattframtölum hér á landi eftir því sem tekjurnar hafa fallið til.

Ofangreindar upplýsingar eru staðfestar af KPMG sem hefur frá árinu 2006 séð um framtal okkar sem einstaklinga og síðar sem hjóna. (Sjá áður birta yfirlýsingu KPMG). Við hjónin höfum eðli málsins samkvæmt verið samsköttuð síðan við gengum í hjónaband árið 2010.

Því er ekki að neita að okkur þykir nokkuð sérstakt að hafa reglulega mátt lesa ítarlegar fréttir um eignir Önnu og skattgreiðslur okkar hjóna í fjölmiðlum undanfarin ár en heyra nú aðdróttanir um að hún hafi leynt eignum sínum fyrir skattayfirvöldum á Íslandi.

Hvers vegna hefur þá verið talað um félag í skattaskjóli?

Það er alrangt að félagið hafi nokkurn tímann verið í skattaskjóli og raunar er það ekki einu sinni aflandsfélag í hefðbundnum skilningi því að félagið hefur alltaf verið skattlagt á Íslandi. Hin ýmsu lönd hafa verið notuð sem skattaskjól, t.d. hefur Svíþjóð verið gagnrýnd fyrir að vera skattaskjól fyrir útlendinga.

Það hvort um skattaskjól er að ræða fer því ekki eftir landinu heldur því hvort það er notað til að forðast skatt í heimalandinu. Það á augljóslega ekki við í þessu tilviki þar sem eignirnar og tekjur af þeim hafa verið gefnar upp til skatts á Íslandi.

Hvers vegna geymir Anna eignir sínar áfram erlendis?

Ástæða þess að fjölskylduarfur Önnu og fjárfestingar eru enn erlendis er fyrst og fremst sú að við töldum ekki æskilegt að eiginkona þingmanns og síðar ráðherra stundaði fjárfestingar hér á landi á sama tíma, m.a. í íslenskum fyrirtækjum.

Af sömu ástæðu hefur heldur aldrei komið til greina að Anna nýtti sér leið Seðlabankans sem gerði fólki sem átti fjármagn erlendis kleift að kaupa krónur á afslætti.

Hefur Anna hagnast á því að geyma eignirnar áfram erlendis í erlendri mynt? 

Nei, hún hefur stórtapað á því miðað við það ef hún hefði flutt eignirnar heim. Tapið af því að forðast að skapa álitamál með því að taka eignirnar heim vegna stjórnmálaþátttöku Sigmundar er jafnvel meira en tap hennar af falli bankanna.

Anna hefði getað keypt gjaldeyri með fjárfestingaleið Seðlabankans sem innleidd var á síðasta kjörtímabili (en hefur nú verið afnumin). Með henni gat efnað fólk sem átti gjaldeyri keypt krónur á afslætti. Krónurnar hefði hún svo getað geymt á háum vöxtum í verðtryggðum íslenskum krónum. Árangur í efnahagsmálum, m.a. sú staðreynd að kröfuhafar bankanna létu af hendi fjármagn, hefur svo styrkt gengi krónunnar til mikilla muna.

Niðurstaðan er sú að eignir Önnu væru mun meiri ef hún hefði talið forsvaranlegt að flytja þær til Íslands. Það er hins vegar ólíklegt að slíkt hefði verið talið falla vel að baráttu Sigmundar gegn verðtryggingu og háum vöxtum á Íslandi. Enn á ný leiddi því stjórnmálabarátta Sigmundar til taps fremur en hagnaðar fyrir Önnu.

Hvers vegna þurfti að lagfæra skráð eignarhalds hjá umsýslufyrirtækinu árið 2009?

Eins og Anna gat um á facebook-síðu sinni var félagið skráð á okkur bæði um skeið hjá umsýslufélaginu úti þótt skráning á félaginu, kröfu á það, eignum þess og tekjum af þeim hafi alla tíð verið rétt gagnvart skattayfirvöldum hér heima.

Þegar Wintris var stofnað árið 2007 höfðum við verið í sambúð um nokkurra ára skeið og vorum þar af leiðandi með sameiginleg útgjöld. Þegar stofnað var til viðskipta við Landsbankann árið 2007 vorum við með sameiginlegan bankareikning eins og við höfðum haft í Bretlandi mörg ár þar á undan.

Þegar bankinn skráði félagið samkvæmt þeirri tilhögun sem nefnd var að ofan var það skráð á okkur bæði og tvö hlutabréf gefin út þó það væri ljóst frá upphafi að fjármunir Wintris tilheyrðu Önnu. Anna lagði eignirnar svo inn í félagið en á móti stofnaðist krafa á félagið fyrir sömu upphæð. Sú krafa er talin fram á skattframtali Önnu fyrir tekjuárið 2008. Hlutabréf félagsins voru því einskis virði í upphafi enda átti lánadrottinn félagsins, Anna, allar eignir þess.

Þegar við ákváðum að gifta okkur fylgdi því að fara yfir ýmis mál, þar á meðal fjárhagsleg. Um svipað leyti, síðla árs 2009, var skipt um umsýslufyrirtæki og þegar starfsmenn þess fóru yfir gögn félagsins bentu þeir okkur á að við værum bæði skráð hluthafar í félaginu. Við höfðum fram að því ekki hugsað sérstaklega út í fyrirkomulagið sem lagt var upp með af bankanum í upphafi. Það hafði alla tíð verið ljóst í huga okkar beggja að Anna væri eigandi þessara eigna og það hafði ekki breyst þrátt fyrir fyrirhugað brúðkaup. Þá voru eignir félagsins og tekjur af þeim færðar Önnu til tekna á skattframtali hennar. Við sendum því strax svar til baka um að svona ætti þetta ekki að vera og létum breyta því.

Hvernig var skráð eignarhald lagfært hjá umsýslufyrirtækinu?

Hlutabréf Sigmundar í félaginu var ógilt og nýtt hlutabréf gefið út á nafn Önnu. Þar með varð Wintris að fullu skráð í eigu hennar, í samræmi við skilning okkar beggja um að eini tilgangurinn væri að halda utan um fjölskylduarf hennar.

Við breytinguna voru öll viðeigandi skilyrði uppfyllt með því að hlutirnir sem skráðir höfðu verið á Sigmund voru framseldir til Önnu.  Stjórn félagsins ógilti hlutina og gaf út nýtt hlutabréf á nafn Önnu fyrir jafnmörgum hlutum. Verð hlutanna við framsalið var einn dollar enda hlutirnir verðlausir í upphafi og framsalið formleg lagfæring.

Eftir að skipt var um umsýslufélag var stjórn félagsins jafnframt breytt þannig að Anna varð eini stjórnarmaður félagsins en fram að því hafði umsýslufyrirtækið lagt til stjórnarmenn eins og áður greinir.

Þurfti líka að lagfæra skráningu eignarhaldsins á Íslandi?

Nei, Anna lagði frá upphafi fram eignirnar í félaginu og átti allar kröfur á félagið og skráning félagsins, eigna þess og tekna af þeim gagnvart skattyfirvöldum á Íslandi hefur ætíð verið í samræmi við þá staðreynd eins og yfirlýsing KPMG staðfestir.

Okkur finnst því mikilvægt að það komi fram að engar skattalegar ástæður lágu að baki þessari ógildingu og henni fylgdi ekkert skattalegt hagræði.

Hefur hagsmunaskráning Sigmundar vegna félagsins verið í samræmi við reglur Alþingis?

Þegar Sigmundur settist á þing vorið 2009 sem stjórnarandstöðuþingmaður vorum við í sambúð en ekki í hjónabandi. Reglur um hagsmunaskráningu þingmanna á Íslandi eru skýrar. Eignarhlutir maka (hvort sem um er að ræða sambúðarfólk eða hjón) í félögum eru ekki skráningarskyldir skv. reglum um hagsmunaskráningu þingmanna, eins og forseti Alþingis staðfesti úr ræðustól þingsins 16. mars 2016: „Forseti vekur athygli á því að meðal annars í hagsmunaskráningu Alþingis er kveðið mjög skýrt á um að upplýsingar um fjármál maka þingmanna eiga ekki erindi þar.“

Jafnframt er einungis skylt að skrá heiti félaga sem alþingismaður á hlut í séu þau í atvinnurekstri. Wintris er ekki félag í atvinnurekstri, eini tilgangur félagsins er að halda utan um eignir Önnu.

Ekki er heldur skylt samkvæmt reglunum að skrá skuldabréf eða kröfuréttindi. Sigmundur hefur því fylgt reglum um hagsmunaskráningu þingmanna allt frá því hann tók fyrst sæti á Alþingi árið 2009, hvernig sem á þetta mál er litið.

Er ástæða til að gera breytingar á því með hvaða hætti þingmenn og ráðherrar skrá hagsmuni?

Mikilvægast er að farið sé að þeim reglum sem gilda. En í þessu samhengi má auðvitað einnig velta vöngum yfir því hvort reglur um hagsmunaskráningu ættu að vera á annan veg. Það er þó stórt skref að stíga að blanda mökum þingmanna í hagsmunaskráningu.

Einnig mætti skoða hvort skrá ætti fleiri hluti en nú er gert, t.d. skuldir þingmanna (og maka ef vilji stendur til þess). Í því sambandi er rétt að minna á að bankarnir áttu ekkert inni hjá Önnu heldur öfugt.

Gat þetta haft áhrif á hæfi?

Á síðustu átta árum hafa þingmenn og ráðherrar þurft að taka ákvarðanir um ýmis málefni sem tengjast bankahruninu og afleiðingum þess, málefni sem í mörgum tilfellum tengjast beint hagsmunum þeirra sjálfra og fjölskyldna þeirra. Þingmenn og fjölskyldur þeirra áttu eðlilega hagsmuna að gæta í bankahruninu eins og aðrir Íslendingar, peninga á reikningum, í peningamarkaðssjóðum og sumir mikil lífeyrisréttindi. Lífeyrissjóðirnir verða t.d. fyrir verulegum áhrifum af því hvernig uppgjöri slitabúanna er háttað.

Í öllum þessum ákvörðunum hafa þingmenn og ráðherrar því verið að fást við mikla hagsmuni sem oft tengjast þeim beint. Þeir hafa því verið að verja hagsmuni sína og fjölskyldna sinna án þess að þeir teldu sérstaka ástæðu til að gera grein fyrir því, hvað þá að það vekti spurningar um hæfi þeirra. Það væri því sérkennilegt í meira lagi að telja að stjórnmálamenn geti orðið vanhæfir til að gefa eftir hagsmuni ættingja en menn teljist ekki vanhæfir ef þeir eru að bæta eigin hagsmuni og ættingja sinna.

Með hvaða hætti voru stjórnmálamenn að verja eigin hagsmuni um leið og þeir vörðu almannahagsmuni eftir hrun?

Það hafa komið upp fjölmörg dæmi um að ákvarðanir sem tengdust úrlausn hrunsins hefðu áhrif á hagsmuni þeirra sem voru að taka þær. Það nægir að nefna „neyðarlögin“ og ráðstafanir í framhaldi af þeim.

Hægt var að eiga inni eignir hjá bönkunum með ólíkum hætti. Sumir áttu eignir á reikningum, aðrir í peningamarkaðssjóðum og enn aðrir í skuldabréfum. Lagalega voru þetta allt jafngildar eignir fyrir setningu neyðarlaga. Áður en bankarnir féllu var forgangsröðinni breytt með ákvörðun um setningu neyðarlaga og þeir sem áttu pening á reikningum fengu allt sitt bætt, þeir sem áttu í peningamarkaðssjóðum fengu í framhaldinu eignir sínar bættar að mestu og þeir sem áttu peninga í skuldabréfum voru látnir bera kostnaðinn.

Það skipti engu máli þótt öldruð ekkja ætti 5 milljónir í skuldabréfum en efnaður maður 100 milljónir inná hávaxtareikningi. Efnamaðurinn fékk allt sitt bætt á kostnað ekkjunnar og annarra sem áttu inni peninga í formi skuldabréfa. Enginn þingmaður eða ráðherra taldi sig vanhæfan til að taka slíkar ákvarðanir. Enginn þeirra sá heldur ástæðu til að gefa upp hvað þeir ættu miklar eignir í peningamarkaðssjóðum eða á reikningi í banka, hvað þá að þeir teldu sig vanhæfa. Þó voru þeir að verja eigin eignir og fjölskyldu sinnar á kostnað annarra.

Svo lagði Sigmundur til að það yrði tekið ennþá meira af skuldabréfaeigendunum,  til að koma til móts við skuldsett heimili og tryggja greiðslujöfnuð þjóðarbúsins, sem neyðarlögin höfðu ekki tryggt. Þá dettur einhverjum í hug að halda því fram að hann gæti verið vanhæfur til að leggja slíkt til vegna þess að með því sé hann að skerða hagsmuni eigin fjölskyldu.

Þeir sem gerðu enga grein fyrir því hvað þeir væru að verja mikið af eigin eignum telja að Sigmundur hefði átt að gera grein fyrir því hvað hann væri að fórna miklu af eignum eiginkonu sinnar.

Hvað sem líður formlegum reglum var þá engin siðferðileg skylda til að upplýsa um eignir eða tap Önnu?

Til skamms tíma hefði getað verið pólitískur ávinningur af því að upplýsa um að sú stefna sem Sigmundur var að berjast fyrir fæli í sér frekari fórnir af hálfu fjölskyldunnar. En hefði verið siðferðislega rétt af honum að blanda eiginkonu sinni í umræðuna með þeim hætti og hefði það aukið eða minnkað líkurnar á að ná þeirri farsælu niðurstöðu sem hafðist í málinu eftir mikið stríð?

Það hlýtur fyrst og fremst að vera skylda stjórnmálamanna og sérstaklega forsætisráðherra að ná hámarks árangri fyrir samfélagið. Sú skylda var alltaf leiðarljós Sigmundar í baráttu hans.

En hefði verið æskilegt að gera nánustu samstarfsmönnum, t.d. þeim sem voru að fást við kröfuhafana grein fyrir þessu?

Nei, það hefði verið vægast sagt varasamt og orkað mjög tvímælis siðferðilega ef Sigmundur hefði farið að gera þeim sérstaklega grein fyrir því að eiginkona sín ætti inni pening hjá föllnu bönkunum. Það hefði mátt túlka sem skilaboð um að það ætti að hafa þessar eignir í huga eða verja þær að einhverju leyti í viðureigninni við kröfuhafana.

Sigmundur vildi ekki færa vogunarsjóðunum vopn í hendur með því að barma sér yfir tapi eiginkonunnar. Þess í stað fékk hann í verkið þá sem höfðu verið harðastir í baráttunni árin á undan, fólkið sem skildi vandann best og hafði reynt að útskýra hann fyrir fyrri stjórnvöldum, fjölmiðlum og almenningi.

Þeir sem voru reiðubúnir til að taka verkið að sér fengu einföld skilaboð. Ekkert tal um að miðla ætti málum milli hagsmuna almennings og kröfuhafa hvaða nöfnum sem þeir nefndust, ekki orð um að kona Sigmundar væri eitt af þeim fórnarlömbum bankahrunsins sem þegar hefðu tapað peningum og myndu tapa enn meiru á þeim aðgerðum sem farið yrði í. Bara þessi einföldu skilaboð: „Gangið eins langt og hægt er til að ná sem allra mestu af þessum peningum til að tryggja hagsmuni Íslands og gangið svo aðeins lengra en það!“

Sigmundur lagði til að lagður yrði skattur á slitabúin (kröfuhafana) en svo var farin sú leið að samþykkja svo kölluð stöðugleikaskilyrði, hvers vegna var það gert?

Strax og ríkisstjórnin tók við var byrjað að skattleggja kröfuhafa (slitabúin) til að standa undir skuldaleiðréttingu, nokkuð sem síðasta ríkisstjórn hafði talið óframkvæmanlegt. Næst boðaði Sigmundur stöðugleikaskatt sem kröfuhafarnir yrðu látnir greiða í gegn um slitabúin ef þeir byðu ekki almennilega nauðasamninga þar sem þeir gæfu eftir verulegan hluta eigna sinna.

Sigmundur var alltaf hlyntur skattinum og ýtti mjög á að hann yrði hafður sem hæstur. Ýmsar tölur voru skoðaðar og enginn þeirra sem að vinnunni komu lagði til hærri tölu en hann. Það var þó alltaf ljóst að valfrjáls leið (nauðasamningar) myndi standa til boða. Það þyrfti bæði kylfu og gulrót eins og Sigmundur nefndi í frægi viðtali fyrir kosningar.

Ríkisstjórnin ákvað ekki hvor leiðin var farin heldur lagði upp þessa tvo möguleika. Þingið samþykkti aðferðina og kröfuhafarnir völdu að uppfylla stöðugleikaskilyrðin, þ.e. afhenda meginþorra innlendra eigna sinna til stjórnvalda sem stöðugleikaframlag, fjármagna bankana til langs tíma og greiða stjórnvöldum til baka fé sem þau lögðu bönkunum til við stofnun þeirra.

Þótt Sigmundur hafi verið hallur undir skattaleiðina hafði hin leiðin ýmsa kosti sem skattaleiðin innihélt ekki. Hún kemur í veg fyrir lagaflækjur, leysir greiðslujafnaðarvandann að fullu leyti, eykur gjaldeyrisforða Seðlabankans, tryggir langtímafjármögnun bankakerfisins og leiðir þannig til fjármálastöðugleika. Viðtökurnar hafa enda farið fram úr björtustu vonum, krónan hefur styrkst, gjaldeyrisforði hefur stóraukist, erlend fjárfesting tók við sér og lánshæfismat Íslands hefur hækkað. Þessar tvær hliðar, stöðugleikaskilyrði og skattlagning voru hannaðar af sérfræðingum stjórnvalda til að tryggja nauðsynlegan árangur, hvor á sinn hátt.

Samkvæmt nýjustu útreikningum sem Sigmundur hefur séð hefði stöðugleikaskatturinn með lögbundnum frádrætti skilað um 620 milljörðum á núverandi gengi. Stöðugleikaframlögin eru hins vegar í um 500 milljörðum og hagnaður bankanna heldur áfram að renna að langmestu leyti í ríkissjóð. Þeir vissu því hvað þeir voru að gera, sérfræðingarnir, þegar þeir hönnuðu leið sem gæti lagað sig að ólíkum aðstæðum.

Það má rifja upp að lengi var bent á það Sigmundi til háðungar að hann hefði verið svo galinn að halda því fram að hægt væri að ná 300 milljörðum af kröfuhöfunum. Í raun nefndi hann aldrei tiltekna tölu. Fram að því að niðurstaða náðist var samt hneykslast á Sigmundi fyrir að hafa haldið því fram að hægt yrði að ná slíku fjármagni. „Hvar eru 300 milljarðarnir?“ sungu þeir áður í kór sem reyna nú að halda því fram að hann hafi verið vanhæfur til að skila 500, 600, 700 milljörðum?

Hvers vegna á Anna inni peninga hjá föllnu bönkunum (kröfur á þá)?

Þúsundir sparifjáreigenda lögðu íslensku bönkunum til fjármagn á árunum fyrir efnahagshrunið, bæði með innlánum, peningamarkaðssjóðum og skuldabréfum. Félag Önnu var eitt  þeirra sem átti peninga inni hjá bönkunum í formi skuldabréfa, þ.e. hún lánaði bönkunum peninga. Líkt og hjá öðrum voru þessi kaup gerð í góðri trú um að staða bankanna væri betri er raun varð en eins og flestir muna var lánshæfi íslensku bankanna metið í besta mögulega flokki (AAA) áður en þeir féllu.

Þessar væntingar stóðust ekki og efnahagshrun var staðreynd. Frá upphafi hefur hefur Anna gert sér grein fyrir að tjón hennar næmi hundruðum milljóna króna og að möguleikar á endurheimtum væru ákaflega takmarkaðir.

Í kjölfar þess að gömlu bankarnir féllu og sættu slitameðferð var kröfum lýst í slitabú þeirra eins og lög um gjaldþrotaskipti boða. Félagið hefur aldrei selt vogunarsjóðum kröfur og það hefur aldrei keypt kröfur á eftirmarkaði (þ.e. eftir hrun bankanna).

Meðal krafna voru víkjandi skuldabréf, sem teljast samkvæmt gjaldþrotarétti eftirstæðar kröfur, og eru að fullu tapaðar. Ekki liggur fyrir hverjar endanlegar endurheimtur verða af heildinni en búast má við að þær nemi um 16% af lýstum kröfum. Áætlað tjón vegna þessara skuldabréfa nemur því hundruðum milljóna króna.

Draga lagabreytingar varðandi svo kallaðan afdráttarskatt úr tapi Önnu?

Nei. Þetta var ein af þeim fráleitu kenningum sem settar hafa verið á flot undanfarna daga. Eins og komið hefur fram var þessi breytingin fyrst og fremst gerð til að auðvelda útgáfu skuldabréfa vegna uppgjörs gömlu bankanna og til að tryggja jafnræði kröfuhafa og koma í veg fyrir að skattalögsaga og tvísköttunarsamningar hefðu áhrif á það ferli.

Einnig er vert að muna að til þess að skattskyldar tekjur myndist þyrfti greiðslan úr þrotabúunum að vera hærri en kaupverð bréfanna. Það er því langur vegur frá því að Anna hafi haft einhvern hag af þessari lagabreytingu.

Hver var afstaða Sigmundar til kaupa á gögnum um aflandsfélög?

Sigmundur hefur beitt sér fyrir því að skattayfirvöld á Íslandi nýti þær leiðir sem í boði eru til að koma í veg fyrir skattsvik. Hann hefur meðal annars rætt þetta á Alþingi, t.d. í ræðu þann 15. maí 2014, í umræðu um möguleg kaup á skattgögnum frá ótilgreindum aðila:

„Ég treysti því að skattrannsóknarstjóri geti metið þetta og muni hér eftir sem hingað til leita allra leiða til að koma upp um skattsvik. Að sjálfsögðu þarf skattrannsóknarstjóri að hafa ýmsar leiðir til þess, enda skattsvik og skattundanskot mjög dýr fyrir samfélagið. Ég ítreka að ég treysti skattrannsóknarstjóra til þess að leysa úr þessu eins og öðru.“ –http://www.althingi.is/altext/raeda/143/rad20140515T111936.html

Einnig hefur Sigmundur og ríkisstjórn hans sýnt þennan vilja í verki með því að veita skattrannsóknarstjóra sérstaka 37 milljóna króna aukafjárveitingu til kaupa á gögnum frá ónefndum aðila í þessum tilgangi. –http://www.visir.is/rikisstjornin-veitir-37-milljonum-til-ad-kaupa-skattagogn/article/2015150419528

Vissi Sigmundur að gögn um félag Önnu væru á meðal þessara upplýsinga?

Nei, við vitum reyndar ekki enn hvort þau eru það en við höfum alltaf gert ráð fyrir því að miklar líkur væru á að upplýsingar um þetta félag væru hluti af þessum gögnum. Það skipti hins vegar engu máli þar sem skattar hafa alltaf verið greiddir af því á Íslandi og tilvist félagsins því aldrei verið haldið leyndri fyrir skattayfirvöldum. Við höfum aldrei litið á félag Önnu sem aflandsfélag, hvað þá félag í skattaskjóli, enda hafa allir skattar af eignunum og tekjum af þeim verið greiddir á Íslandi skv. íslenskum skattareglum.

Hafði þátttaka Sigmundar í stofnun InDefence hópsins og barátta þess hóps einhver áhrif á málið?

Við höfum orðið vör við spurningar um baráttuna gegn Icesave og þátttöku Sigmundar i starfi InDefence hópsins. Árangursrík og þrotlaus barátta hópsins sem stóð yfir um nokkurra ára skeið var unnin af sjálfboðaliðum og snerist ætíð um að verja hagsmuni almennings á Íslandi.

Meginbaráttumál InDefence hópsins var að verjast framgöngu breskra stjórnvalda þegar þau beittu Íslendinga hryðjuverkalögum í október 2008 og svo að tryggja að eignir þrotabús Landsbankans skyldu standa undir greiðslu skulda bankans en ekki skattfé almennings. Grundvallaratriði í því var að skattfé almennings yrði heldur ekki varið til að tryggja breskum og hollenskum stjórnvöldum vexti af kröfum sínum í þrotabú Landsbankans, réttindi sem engum forgangskröfuhöfum stendur til boða. Semsagt, að tryggja að skattgreiðendur sætu ekki uppi með skuldbindingar fallinna einkabanka.

Það er mikilvæg staðreynd að setning neyðarlaga í október 2008, áður en bankarnir féllu, fól í sér að innlán urðu forgangskröfur og innlánseigendur fóru því fram fyrir skuldabréfaeigendur í skuldaröð bankanna, þ.m.t. Landsbankans.

Barátta okkar og annarra gegn Icesave samningunum gat því aldrei haft nein áhrif á mögulegar endurheimtur skuldabréfaeigenda í Landsbankanum, þar á meðal Önnu. Að auki er krafa Wintris í þrotabú Landsbankans til komin vegna kaupa á víkjandi skuldabréfi bankans og frá upphafi mátti því vera ljóst að krafan var einskis virði, enda var henni hafnað af slitastjórn bankans.

Baráttan gegn Icesave samningunum snerist um að koma í veg fyrir að skuldir við kröfuhafa fallins banka yrðu færðar yfir á almenning. Baráttan við kröfuhafana snerist hins vegar um að eignir kröfuhafa yrðu færðar frá þeim og yfir til almennings.

Margir af mikilvægustu samstarfsmönnum Sigmundar úr báðum þessum verkefnum komu úr InDefence hópnum. Í báðum tilfellum skilaði baráttan árangri og gjörbreytti ástandi efnahagsmála á Íslandi til hins betra og mun hafa mikil og jákvæð áhrif á kjör almennings til framtíðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert