Hvað snýr upp og niður?

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Anna Sigurlaug Pálsdóttir
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Anna Sigurlaug Pálsdóttir mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sig­mund­ur Davíð Gunn­laugs­son, for­sæt­is­ráðherra seg­ist ekki kom­ast hjá því að ræða stjórn­mál þessa páska. Hann spyr hvað snúi upp og niður? Hann og eig­in­kona hans, Anna Sig­ur­laug Páls­dótt­ir, birta á vefn­um í dag sam­an­tekt um er­lent fé­lag um eign­ir henn­ar. 

Í sam­an­tekt frá þeim hjón­um kem­ur fram að það var Lands­bank­inn sem ráðlagði að um­sýsla fjár­mun­anna færi fram í fé­lagi á Bresku Jóm­frúreyj­um sem bank­inn myndi leggja til, en lagaum­hverfi eyj­anna bygg­ist á bresk­um fé­laga­rétti. Þeirri ráðgjöf var fylgt síðla árs 2007. Í fram­haldi voru eign­ir færðar inn í fé­lagið Wintris og Anna eignaðist þannig kröfu á það.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
Sig­mund­ur Davíð Gunn­laugs­son mbl.is/​Styrm­ir Kári


Fjár­varsla fór í upp­hafi fram hjá Lands­bank­an­um og stjórn fé­lags­ins var sem fyrr seg­ir í hönd­um um­sýslu­fyr­ir­tæk­is sem bank­inn lagði til. Eins og áður hef­ur komið fram hef­ur varsla eigna fé­lags­ins og reikn­ing­ur þess verið í hönd­um Cred­it Suis­se í London frá ár­inu 2008.

Hjónin Anna Sigurlaug Pálsdóttir og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Hjón­in Anna Sig­ur­laug Páls­dótt­ir og Sig­mund­ur Davíð Gunn­laugs­son. mbl.is/​Eva Björk

All­ir pen­ing­arn­ir gefn­ir upp til skatts á Íslandi

Strax í upp­hafi gerði Anna það að skil­yrði að all­ir pen­ing­arn­ir yrðu gefn­ir upp til skatts á Íslandi og vildi ekki einu sinni nýta sér heim­ild­ir í lög­um til að fresta skatt­lagn­ingu, seg­ir í sam­an­tek­inni sem hægt er að lesa hér að neðan.

„Stjórn­mál eru furðulegt fyr­ir­bæri. Ekki hvað síst hér á Íslandi þar sem menn veigra sér oft ekki við því að snúa hlut­um al­gjör­lega á haus.

Ég greip með af­ger­andi hætti inn í at­b­urðarás­ina í ís­lensk­um stjórn­mál­um og boðaði for­dæma­laus­ar aðgerðir til að verja hags­muni al­menn­ings, aðgerðir sem um leið voru til þess falln­ar að rýra hags­muni eig­in­konu minn­ar.

Það sem ég boðaði var kallað galið, ófram­kvæm­an­legt lýðskrum. Ég var sagður búa til óraun­hæf­ar vænt­ing­ar og tala fyr­ir ein­hverju sem stæðist ekki lög, tala fyr­ir eigna­upp­töku og aðgerðum sem leiða myndu til margra ára mála­ferla. Ég mætti mót­spyrnu í hverju skrefi bæði af hálfu vog­un­ar­sjóðanna og mál­svara þeirra hér á landi. Mál­svar­arn­ir kölluðu mig po­púl­ista, ekki hvað síst eft­ir að ég boðaði að ef kröfu­haf­ar létu ekki und­an ætti að skella á þá skatti.

Sig­ur hafðist þó í mál­inu þrátt fyr­ir mikla mót­spyrnu. Það náðist niðurstaða sem vakið hef­ur at­hygli og undr­un alþjóðlega fyr­ir hvað hún var óvenju­leg og góð fyr­ir Ísland. Niðurstaða sem Lee Buchheit kallaði ein­staka í fjár­mála­sögu heims­ins. Sú niðurstaða að vog­un­ar­sjóðirn­ir, sem komu til að græða á falli bank­anna, voru látn­ir borga fyr­ir að fá eign­ir sín­ar af­hent­ar. Þeir þurftu að borga fyr­ir að fá pen­inga sem formaður eins af stjórn­ar­and­stöðuflokk­un­um minnti reglu­lega á að væri lögvar­in eign þeirra.

Til að gera þetta mögu­legt var fólk, eins og kon­an mín, sem þegar hafði tapað miklu á að láta bank­ana geyma pen­ing­ana sína fyr­ir hrun, látið taka á sig enn meira tap.

Nú þegar búið er að klára það sem sagt var ómögu­legt og ná niður­stöðunni sem reynd­ist „ein­stök í fjár­mála­sögu heims­ins“, stíga þeir fram sem sögðu mig hafa lofað því ómögu­lega og segja mig van­hæf­an til að ná þess­um ár­angri vegna þess að með því hafi ég verið að fórna hags­mun­um eig­in fjöl­skyldu. Og það sem meira sé, ég hafi ekki einu sinni látið vita af því að ég væri að fórna hags­mun­um fjöl­skyld­unn­ar. Ekk­ert af þessu fólki hafði talið sig van­hæft eða séð ástæðu til að gera grein fyr­ir eig­in hags­mun­um og hags­mun­um fjöl­skyldna sinna á liðnum árum þegar verið var að taka ákv­arðanir sem ekki fórnuðu þeirra eig­in hags­mun­um held­ur vörðu þá,“ skrif­ar Sig­mund­ur.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og eiginkona hans, Anna Sigurlaug Pálsdóttir
Sig­mund­ur Davíð Gunn­laugs­son og eig­in­kona hans, Anna Sig­ur­laug Páls­dótt­ir mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

Rægja fjöl­skyldu henn­ar til þess að vega að for­sæt­is­ráðherra

Hann seg­ir þár til sem sjá þessa umræðu alla sem til­efni til að ráðast á eig­in­konu hans, „rægja hana og fjöl­skyldu henn­ar og dreifa óhróðri um þetta góða fólk, allt vænt­an­lega í þeim til­gangi að vega að mér. Blanda þannig í málið fólki sem á svo sann­ar­lega ekki skilið að vera dregið inn í óþverraum­ræðuna sem allt of oft fylg­ir stjórn­mál­um nú til dags.

Þannig varð því miður til sú staða að óhjá­kvæmi­legt reynd­ist fyr­ir mig að fara að tjá mig um mál­efni eig­in­konu minn­ar en til þessa hef ég fylgt þeirri stefnu að leyfa mönn­um ekki að blanda konu minni eða fjöl­skyldu inn í póli­tísk átök. Þegar ég vék frá þeirri reglu gerðist það sem við mátti bú­ast að menn nýta allt sem sagt er sem til­efni til að þvæla málið áfram.

Ástæðulaust er að elt­ast við þá sem það gera. Hins veg­ar hef ég full­an skiln­ing á að við um­fjöll­un eins og þá sem boðið hef­ur verið upp á að und­an­förnu vakni ýms­ar spurn­ing­ar hjá al­menn­ingi. Slíkt er eðli­legt þegar umræða um stjórn­mál og fjár­mál er ann­ars veg­ar,“ seg­ir í pistli á vef for­sæt­is­ráðherra en hér fyr­ir neðan er sam­an­tekt þeirra hjóna að finna.

Sam­an­tekt

Anna S. Páls­dótt­ir
Sig­mund­ur Davíð Gunn­laugs­son

 

Hvers vegna var stofnað er­lent fé­lag um eign­ir Önnu?

Um langt skeið hef­ur verið al­menn vitn­eskja um það á Íslandi að Anna er efnuð kona og hef­ur raun­ar verið fjallað ít­rekað um það í fjöl­miðlum und­an­far­in ár, meðal ann­ars ár­lega í tengsl­um við birt­ingu álagn­ing­ar­skrár Skatts­ins. Fyr­ir tæp­um ára­tug seldi hún hlut sinn í far­sælu fyr­ir­tæki sem fjöl­skylda henn­ar hóf að byggja upp fyr­ir nærri hálfri öld. Með öðrum orðum var um að ræða hluta af afrakstri ævi­starfs for­eldra henn­ar og fjöl­skyldu. Þegar hún fékk þetta fjár­magn til ráðstöf­un­ar árið 2007 höfðum við búið í Bretlandi um nokk­urra ára skeið og höfðum hug á að búa er­lend­is áfram, í Bretlandi eða Dan­mörku.

Lands­bank­inn, viðskipta­banki okk­ar á þeim tíma, ráðlagði fyr­ir­komu­lag sem hentaði til að hafa eign­irn­ar aðgengi­leg­ar óháð því hvernig bú­setu okk­ar yrði háttað á sama tíma og haldið væri utan um eign­irn­ar og um­sýslu þeirra á ein­um stað. Hvor­ugt okk­ar hafði neina sér­staka þekk­ingu á slík­um fé­lög­um en á þeim tíma var venj­an sú að efnuðum viðskipta­vin­um bank­anna var gjarn­an ráðlagt að stofna slík fé­lög til að halda utan um eign­ir sín­ar. Stjórn þess­ara fé­laga var oft í hönd­um um­sýslu­fyr­ir­tæk­is sem bank­inn lagði til og slík um­sýslu­fyr­ir­tæki lögðu m.a. til stjórn­ar­menn fyr­ir fé­lagið.

Hvers vegna er fé­lagið skráð á Bresku Jóm­frúreyj­um?

Lands­bank­inn ráðlagði að um­sýsla fjár­mun­anna færi fram í fé­lagi á Bresku Jóm­frúreyj­um sem bank­inn myndi leggja til, en lagaum­hverfi eyj­anna bygg­ist á bresk­um fé­laga­rétti. Þeirri ráðgjöf var fylgt síðla árs 2007. Í fram­haldi voru eign­ir færðar inn í fé­lagið Wintris og Anna eignaðist þannig kröfu á það. Fjár­varsla fór í upp­hafi fram hjá Lands­bank­an­um og stjórn fé­lags­ins var sem fyrr seg­ir í hönd­um um­sýslu­fyr­ir­tæk­is sem bank­inn lagði til. Eins og áður hef­ur komið fram hef­ur varsla eigna fé­lags­ins og reikn­ing­ur þess verið í hönd­um Cred­it Suis­se í London frá ár­inu 2008.

Hvers vegna heit­ir fé­lagið Wintris?

Bank­inn fékk fé­lagið skráð und­ir því nafni. Það var hluti af heild­arpakka þannig að Anna valdi ekki nafnið né stýrði hún upp­setn­ing­unni að öðru leyti.

Voru all­ar eign­irn­ar samt gefn­ar upp til skatts?

Já, strax í upp­hafi gerði Anna það að skil­yrði að all­ir pen­ing­arn­ir yrðu gefn­ir upp til skatts á Íslandi og vildi ekki einu sinni nýta sér heim­ild­ir í lög­um til að fresta skatt­lagn­ingu.

Hafa verið greidd­ir skatt­ar af eign­un­um og tekj­um af þeim alla tíð síðan?

Já, eign­ar­hlut­ur í Wintris hef­ur verið færður til eign­ar á skatt­fram­töl­um Önnu allt frá ár­inu 2008. Verðbréf, skráð í eigu fé­lags­ins á hverj­um tíma hafa verið færð til eign­ar á skatt­fram­töl­um Önnu frá og með tekju­ár­inu 2009. Á skatt­fram­tali vegna tekju­árs­ins 2008 var færð til eign­ar krafa á Wintris sem nam fram­lögðu fé Önnu til fé­lags­ins.

All­an eign­ar­halds­tíma henn­ar á Wintris hafa skatt­skyld­ar tekj­ur af verðbréf­um, skráðum í eigu fé­lags­ins, verið færðar henni til tekna á viðkom­andi skatt­fram­töl­um hér á landi eft­ir því sem tekj­urn­ar hafa fallið til.

Of­an­greind­ar upp­lýs­ing­ar eru staðfest­ar af KPMG sem hef­ur frá ár­inu 2006 séð um fram­tal okk­ar sem ein­stak­linga og síðar sem hjóna. (Sjá áður birta yf­ir­lýs­ingu KPMG). Við hjón­in höf­um eðli máls­ins sam­kvæmt verið sam­sköttuð síðan við geng­um í hjóna­band árið 2010.

Því er ekki að neita að okk­ur þykir nokkuð sér­stakt að hafa reglu­lega mátt lesa ít­ar­leg­ar frétt­ir um eign­ir Önnu og skatt­greiðslur okk­ar hjóna í fjöl­miðlum und­an­far­in ár en heyra nú aðdrótt­an­ir um að hún hafi leynt eign­um sín­um fyr­ir skatta­yf­ir­völd­um á Íslandi.

Hvers vegna hef­ur þá verið talað um fé­lag í skatta­skjóli?

Það er alrangt að fé­lagið hafi nokk­urn tím­ann verið í skatta­skjóli og raun­ar er það ekki einu sinni af­l­ands­fé­lag í hefðbundn­um skiln­ingi því að fé­lagið hef­ur alltaf verið skatt­lagt á Íslandi. Hin ýmsu lönd hafa verið notuð sem skatta­skjól, t.d. hef­ur Svíþjóð verið gagn­rýnd fyr­ir að vera skatta­skjól fyr­ir út­lend­inga.

Það hvort um skatta­skjól er að ræða fer því ekki eft­ir land­inu held­ur því hvort það er notað til að forðast skatt í heima­land­inu. Það á aug­ljós­lega ekki við í þessu til­viki þar sem eign­irn­ar og tekj­ur af þeim hafa verið gefn­ar upp til skatts á Íslandi.

Hvers vegna geym­ir Anna eign­ir sín­ar áfram er­lend­is?

Ástæða þess að fjöl­skylduarf­ur Önnu og fjár­fest­ing­ar eru enn er­lend­is er fyrst og fremst sú að við töld­um ekki æski­legt að eig­in­kona þing­manns og síðar ráðherra stundaði fjár­fest­ing­ar hér á landi á sama tíma, m.a. í ís­lensk­um fyr­ir­tækj­um.

Af sömu ástæðu hef­ur held­ur aldrei komið til greina að Anna nýtti sér leið Seðlabank­ans sem gerði fólki sem átti fjár­magn er­lend­is kleift að kaupa krón­ur á af­slætti.

Hef­ur Anna hagn­ast á því að geyma eign­irn­ar áfram er­lend­is í er­lendri mynt? 

Nei, hún hef­ur stór­tapað á því miðað við það ef hún hefði flutt eign­irn­ar heim. Tapið af því að forðast að skapa álita­mál með því að taka eign­irn­ar heim vegna stjórn­málaþátt­töku Sig­mund­ar er jafn­vel meira en tap henn­ar af falli bank­anna.

Anna hefði getað keypt gjald­eyri með fjár­fest­inga­leið Seðlabank­ans sem inn­leidd var á síðasta kjör­tíma­bili (en hef­ur nú verið af­num­in). Með henni gat efnað fólk sem átti gjald­eyri keypt krón­ur á af­slætti. Krón­urn­ar hefði hún svo getað geymt á háum vöxt­um í verðtryggðum ís­lensk­um krón­um. Árang­ur í efna­hags­mál­um, m.a. sú staðreynd að kröfu­haf­ar bank­anna létu af hendi fjár­magn, hef­ur svo styrkt gengi krón­unn­ar til mik­illa muna.

Niðurstaðan er sú að eign­ir Önnu væru mun meiri ef hún hefði talið for­svar­an­legt að flytja þær til Íslands. Það er hins veg­ar ólík­legt að slíkt hefði verið talið falla vel að bar­áttu Sig­mund­ar gegn verðtrygg­ingu og háum vöxt­um á Íslandi. Enn á ný leiddi því stjórn­mála­bar­átta Sig­mund­ar til taps frem­ur en hagnaðar fyr­ir Önnu.

Hvers vegna þurfti að lag­færa skráð eign­ar­halds hjá um­sýslu­fyr­ir­tæk­inu árið 2009?

Eins og Anna gat um á face­book-síðu sinni var fé­lagið skráð á okk­ur bæði um skeið hjá um­sýslu­fé­lag­inu úti þótt skrán­ing á fé­lag­inu, kröfu á það, eign­um þess og tekj­um af þeim hafi alla tíð verið rétt gagn­vart skatta­yf­ir­völd­um hér heima.

Þegar Wintris var stofnað árið 2007 höfðum við verið í sam­búð um nokk­urra ára skeið og vor­um þar af leiðandi með sam­eig­in­leg út­gjöld. Þegar stofnað var til viðskipta við Lands­bank­ann árið 2007 vor­um við með sam­eig­in­leg­an banka­reikn­ing eins og við höfðum haft í Bretlandi mörg ár þar á und­an.

Þegar bank­inn skráði fé­lagið sam­kvæmt þeirri til­hög­un sem nefnd var að ofan var það skráð á okk­ur bæði og tvö hluta­bréf gef­in út þó það væri ljóst frá upp­hafi að fjár­mun­ir Wintris til­heyrðu Önnu. Anna lagði eign­irn­ar svo inn í fé­lagið en á móti stofnaðist krafa á fé­lagið fyr­ir sömu upp­hæð. Sú krafa er tal­in fram á skatt­fram­tali Önnu fyr­ir tekju­árið 2008. Hluta­bréf fé­lags­ins voru því einskis virði í upp­hafi enda átti lána­drott­inn fé­lags­ins, Anna, all­ar eign­ir þess.

Þegar við ákváðum að gifta okk­ur fylgdi því að fara yfir ýmis mál, þar á meðal fjár­hags­leg. Um svipað leyti, síðla árs 2009, var skipt um um­sýslu­fyr­ir­tæki og þegar starfs­menn þess fóru yfir gögn fé­lags­ins bentu þeir okk­ur á að við vær­um bæði skráð hlut­haf­ar í fé­lag­inu. Við höfðum fram að því ekki hugsað sér­stak­lega út í fyr­ir­komu­lagið sem lagt var upp með af bank­an­um í upp­hafi. Það hafði alla tíð verið ljóst í huga okk­ar beggja að Anna væri eig­andi þess­ara eigna og það hafði ekki breyst þrátt fyr­ir fyr­ir­hugað brúðkaup. Þá voru eign­ir fé­lags­ins og tekj­ur af þeim færðar Önnu til tekna á skatt­fram­tali henn­ar. Við send­um því strax svar til baka um að svona ætti þetta ekki að vera og lét­um breyta því.

Hvernig var skráð eign­ar­hald lag­fært hjá um­sýslu­fyr­ir­tæk­inu?

Hluta­bréf Sig­mund­ar í fé­lag­inu var ógilt og nýtt hluta­bréf gefið út á nafn Önnu. Þar með varð Wintris að fullu skráð í eigu henn­ar, í sam­ræmi við skiln­ing okk­ar beggja um að eini til­gang­ur­inn væri að halda utan um fjöl­skylduarf henn­ar.

Við breyt­ing­una voru öll viðeig­andi skil­yrði upp­fyllt með því að hlut­irn­ir sem skráðir höfðu verið á Sig­mund voru fram­seld­ir til Önnu.  Stjórn fé­lags­ins ógilti hlut­ina og gaf út nýtt hluta­bréf á nafn Önnu fyr­ir jafn­mörg­um hlut­um. Verð hlut­anna við framsalið var einn doll­ar enda hlut­irn­ir verðlaus­ir í upp­hafi og framsalið form­leg lag­fær­ing.

Eft­ir að skipt var um um­sýslu­fé­lag var stjórn fé­lags­ins jafn­framt breytt þannig að Anna varð eini stjórn­ar­maður fé­lags­ins en fram að því hafði um­sýslu­fyr­ir­tækið lagt til stjórn­ar­menn eins og áður grein­ir.

Þurfti líka að lag­færa skrán­ingu eign­ar­halds­ins á Íslandi?

Nei, Anna lagði frá upp­hafi fram eign­irn­ar í fé­lag­inu og átti all­ar kröf­ur á fé­lagið og skrán­ing fé­lags­ins, eigna þess og tekna af þeim gagn­vart skattyf­ir­völd­um á Íslandi hef­ur ætíð verið í sam­ræmi við þá staðreynd eins og yf­ir­lýs­ing KPMG staðfest­ir.

Okk­ur finnst því mik­il­vægt að það komi fram að eng­ar skatta­leg­ar ástæður lágu að baki þess­ari ógild­ingu og henni fylgdi ekk­ert skatta­legt hagræði.

Hef­ur hags­muna­skrán­ing Sig­mund­ar vegna fé­lags­ins verið í sam­ræmi við regl­ur Alþing­is?

Þegar Sig­mund­ur sett­ist á þing vorið 2009 sem stjórn­ar­and­stöðuþingmaður vor­um við í sam­búð en ekki í hjóna­bandi. Regl­ur um hags­muna­skrán­ingu þing­manna á Íslandi eru skýr­ar. Eign­ar­hlut­ir maka (hvort sem um er að ræða sam­búðarfólk eða hjón) í fé­lög­um eru ekki skrán­ing­ar­skyld­ir skv. regl­um um hags­muna­skrán­ingu þing­manna, eins og for­seti Alþing­is staðfesti úr ræðustól þings­ins 16. mars 2016: „For­seti vek­ur at­hygli á því að meðal ann­ars í hags­muna­skrán­ingu Alþing­is er kveðið mjög skýrt á um að upp­lýs­ing­ar um fjár­mál maka þing­manna eiga ekki er­indi þar.“

Jafn­framt er ein­ung­is skylt að skrá heiti fé­laga sem alþing­ismaður á hlut í séu þau í at­vinnu­rekstri. Wintris er ekki fé­lag í at­vinnu­rekstri, eini til­gang­ur fé­lags­ins er að halda utan um eign­ir Önnu.

Ekki er held­ur skylt sam­kvæmt regl­un­um að skrá skulda­bréf eða kröfu­rétt­indi. Sig­mund­ur hef­ur því fylgt regl­um um hags­muna­skrán­ingu þing­manna allt frá því hann tók fyrst sæti á Alþingi árið 2009, hvernig sem á þetta mál er litið.

Er ástæða til að gera breyt­ing­ar á því með hvaða hætti þing­menn og ráðherr­ar skrá hags­muni?

Mik­il­væg­ast er að farið sé að þeim regl­um sem gilda. En í þessu sam­hengi má auðvitað einnig velta vöng­um yfir því hvort regl­ur um hags­muna­skrán­ingu ættu að vera á ann­an veg. Það er þó stórt skref að stíga að blanda mök­um þing­manna í hags­muna­skrán­ingu.

Einnig mætti skoða hvort skrá ætti fleiri hluti en nú er gert, t.d. skuld­ir þing­manna (og maka ef vilji stend­ur til þess). Í því sam­bandi er rétt að minna á að bank­arn­ir áttu ekk­ert inni hjá Önnu held­ur öf­ugt.

Gat þetta haft áhrif á hæfi?

Á síðustu átta árum hafa þing­menn og ráðherr­ar þurft að taka ákv­arðanir um ýmis mál­efni sem tengj­ast banka­hrun­inu og af­leiðing­um þess, mál­efni sem í mörg­um til­fell­um tengj­ast beint hags­mun­um þeirra sjálfra og fjöl­skyldna þeirra. Þing­menn og fjöl­skyld­ur þeirra áttu eðli­lega hags­muna að gæta í banka­hrun­inu eins og aðrir Íslend­ing­ar, pen­inga á reikn­ing­um, í pen­inga­markaðssjóðum og sum­ir mik­il líf­eyr­is­rétt­indi. Líf­eyr­is­sjóðirn­ir verða t.d. fyr­ir veru­leg­um áhrif­um af því hvernig upp­gjöri slita­bú­anna er háttað.

Í öll­um þess­um ákvörðunum hafa þing­menn og ráðherr­ar því verið að fást við mikla hags­muni sem oft tengj­ast þeim beint. Þeir hafa því verið að verja hags­muni sína og fjöl­skyldna sinna án þess að þeir teldu sér­staka ástæðu til að gera grein fyr­ir því, hvað þá að það vekti spurn­ing­ar um hæfi þeirra. Það væri því sér­kenni­legt í meira lagi að telja að stjórn­mála­menn geti orðið van­hæf­ir til að gefa eft­ir hags­muni ætt­ingja en menn telj­ist ekki van­hæf­ir ef þeir eru að bæta eig­in hags­muni og ætt­ingja sinna.

Með hvaða hætti voru stjórn­mála­menn að verja eig­in hags­muni um leið og þeir vörðu al­manna­hags­muni eft­ir hrun?

Það hafa komið upp fjöl­mörg dæmi um að ákv­arðanir sem tengd­ust úr­lausn hruns­ins hefðu áhrif á hags­muni þeirra sem voru að taka þær. Það næg­ir að nefna „neyðarlög­in“ og ráðstaf­an­ir í fram­haldi af þeim.

Hægt var að eiga inni eign­ir hjá bönk­un­um með ólík­um hætti. Sum­ir áttu eign­ir á reikn­ing­um, aðrir í pen­inga­markaðssjóðum og enn aðrir í skulda­bréf­um. Laga­lega voru þetta allt jafn­gild­ar eign­ir fyr­ir setn­ingu neyðarlaga. Áður en bank­arn­ir féllu var for­gangs­röðinni breytt með ákvörðun um setn­ingu neyðarlaga og þeir sem áttu pen­ing á reikn­ing­um fengu allt sitt bætt, þeir sem áttu í pen­inga­markaðssjóðum fengu í fram­hald­inu eign­ir sín­ar bætt­ar að mestu og þeir sem áttu pen­inga í skulda­bréf­um voru látn­ir bera kostnaðinn.

Það skipti engu máli þótt öldruð ekkja ætti 5 millj­ón­ir í skulda­bréf­um en efnaður maður 100 millj­ón­ir inná há­vaxta­reikn­ingi. Efnamaður­inn fékk allt sitt bætt á kostnað ekkj­unn­ar og annarra sem áttu inni pen­inga í formi skulda­bréfa. Eng­inn þingmaður eða ráðherra taldi sig van­hæf­an til að taka slík­ar ákv­arðanir. Eng­inn þeirra sá held­ur ástæðu til að gefa upp hvað þeir ættu mikl­ar eign­ir í pen­inga­markaðssjóðum eða á reikn­ingi í banka, hvað þá að þeir teldu sig van­hæfa. Þó voru þeir að verja eig­in eign­ir og fjöl­skyldu sinn­ar á kostnað annarra.

Svo lagði Sig­mund­ur til að það yrði tekið ennþá meira af skulda­bréfa­eig­end­un­um,  til að koma til móts við skuld­sett heim­ili og tryggja greiðslu­jöfnuð þjóðarbús­ins, sem neyðarlög­in höfðu ekki tryggt. Þá dett­ur ein­hverj­um í hug að halda því fram að hann gæti verið van­hæf­ur til að leggja slíkt til vegna þess að með því sé hann að skerða hags­muni eig­in fjöl­skyldu.

Þeir sem gerðu enga grein fyr­ir því hvað þeir væru að verja mikið af eig­in eign­um telja að Sig­mund­ur hefði átt að gera grein fyr­ir því hvað hann væri að fórna miklu af eign­um eig­in­konu sinn­ar.

Hvað sem líður form­leg­um regl­um var þá eng­in siðferðileg skylda til að upp­lýsa um eign­ir eða tap Önnu?

Til skamms tíma hefði getað verið póli­tísk­ur ávinn­ing­ur af því að upp­lýsa um að sú stefna sem Sig­mund­ur var að berj­ast fyr­ir fæli í sér frek­ari fórn­ir af hálfu fjöl­skyld­unn­ar. En hefði verið siðferðis­lega rétt af hon­um að blanda eig­in­konu sinni í umræðuna með þeim hætti og hefði það aukið eða minnkað lík­urn­ar á að ná þeirri far­sælu niður­stöðu sem hafðist í mál­inu eft­ir mikið stríð?

Það hlýt­ur fyrst og fremst að vera skylda stjórn­mála­manna og sér­stak­lega for­sæt­is­ráðherra að ná há­marks ár­angri fyr­ir sam­fé­lagið. Sú skylda var alltaf leiðarljós Sig­mund­ar í bar­áttu hans.

En hefði verið æski­legt að gera nán­ustu sam­starfs­mönn­um, t.d. þeim sem voru að fást við kröfu­haf­ana grein fyr­ir þessu?

Nei, það hefði verið væg­ast sagt vara­samt og orkað mjög tví­mæl­is siðferðilega ef Sig­mund­ur hefði farið að gera þeim sér­stak­lega grein fyr­ir því að eig­in­kona sín ætti inni pen­ing hjá föllnu bönk­un­um. Það hefði mátt túlka sem skila­boð um að það ætti að hafa þess­ar eign­ir í huga eða verja þær að ein­hverju leyti í viður­eign­inni við kröfu­haf­ana.

Sig­mund­ur vildi ekki færa vog­un­ar­sjóðunum vopn í hend­ur með því að barma sér yfir tapi eig­in­kon­unn­ar. Þess í stað fékk hann í verkið þá sem höfðu verið harðast­ir í bar­átt­unni árin á und­an, fólkið sem skildi vand­ann best og hafði reynt að út­skýra hann fyr­ir fyrri stjórn­völd­um, fjöl­miðlum og al­menn­ingi.

Þeir sem voru reiðubún­ir til að taka verkið að sér fengu ein­föld skila­boð. Ekk­ert tal um að miðla ætti mál­um milli hags­muna al­menn­ings og kröfu­hafa hvaða nöfn­um sem þeir nefnd­ust, ekki orð um að kona Sig­mund­ar væri eitt af þeim fórn­ar­lömb­um banka­hruns­ins sem þegar hefðu tapað pen­ing­um og myndu tapa enn meiru á þeim aðgerðum sem farið yrði í. Bara þessi ein­földu skila­boð: „Gangið eins langt og hægt er til að ná sem allra mestu af þess­um pen­ing­um til að tryggja hags­muni Íslands og gangið svo aðeins lengra en það!“

Sig­mund­ur lagði til að lagður yrði skatt­ur á slita­bú­in (kröfu­haf­ana) en svo var far­in sú leið að samþykkja svo kölluð stöðug­leika­skil­yrði, hvers vegna var það gert?

Strax og rík­is­stjórn­in tók við var byrjað að skatt­leggja kröfu­hafa (slita­bú­in) til að standa und­ir skulda­leiðrétt­ingu, nokkuð sem síðasta rík­is­stjórn hafði talið ófram­kvæm­an­legt. Næst boðaði Sig­mund­ur stöðug­leika­skatt sem kröfu­haf­arn­ir yrðu látn­ir greiða í gegn um slita­bú­in ef þeir byðu ekki al­menni­lega nauðasamn­inga þar sem þeir gæfu eft­ir veru­leg­an hluta eigna sinna.

Sig­mund­ur var alltaf hlynt­ur skatt­in­um og ýtti mjög á að hann yrði hafður sem hæst­ur. Ýmsar töl­ur voru skoðaðar og eng­inn þeirra sem að vinn­unni komu lagði til hærri tölu en hann. Það var þó alltaf ljóst að val­frjáls leið (nauðasamn­ing­ar) myndi standa til boða. Það þyrfti bæði kylfu og gul­rót eins og Sig­mund­ur nefndi í frægi viðtali fyr­ir kosn­ing­ar.

Rík­is­stjórn­in ákvað ekki hvor leiðin var far­in held­ur lagði upp þessa tvo mögu­leika. Þingið samþykkti aðferðina og kröfu­haf­arn­ir völdu að upp­fylla stöðug­leika­skil­yrðin, þ.e. af­henda meg­inþorra inn­lendra eigna sinna til stjórn­valda sem stöðug­leikafram­lag, fjár­magna bank­ana til langs tíma og greiða stjórn­völd­um til baka fé sem þau lögðu bönk­un­um til við stofn­un þeirra.

Þótt Sig­mund­ur hafi verið hall­ur und­ir skatta­leiðina hafði hin leiðin ýmsa kosti sem skatta­leiðin inni­hélt ekki. Hún kem­ur í veg fyr­ir lagaflækj­ur, leys­ir greiðslu­jafnaðar­vand­ann að fullu leyti, eyk­ur gjald­eyr­is­forða Seðlabank­ans, trygg­ir lang­tíma­fjár­mögn­un banka­kerf­is­ins og leiðir þannig til fjár­mála­stöðug­leika. Viðtök­urn­ar hafa enda farið fram úr björt­ustu von­um, krón­an hef­ur styrkst, gjald­eyr­is­forði hef­ur stór­auk­ist, er­lend fjár­fest­ing tók við sér og láns­hæf­is­mat Íslands hef­ur hækkað. Þess­ar tvær hliðar, stöðug­leika­skil­yrði og skatt­lagn­ing voru hannaðar af sér­fræðing­um stjórn­valda til að tryggja nauðsyn­leg­an ár­ang­ur, hvor á sinn hátt.

Sam­kvæmt nýj­ustu út­reikn­ing­um sem Sig­mund­ur hef­ur séð hefði stöðug­leika­skatt­ur­inn með lög­bundn­um frá­drætti skilað um 620 millj­örðum á nú­ver­andi gengi. Stöðug­leikafram­lög­in eru hins veg­ar í um 500 millj­örðum og hagnaður bank­anna held­ur áfram að renna að lang­mestu leyti í rík­is­sjóð. Þeir vissu því hvað þeir voru að gera, sér­fræðing­arn­ir, þegar þeir hönnuðu leið sem gæti lagað sig að ólík­um aðstæðum.

Það má rifja upp að lengi var bent á það Sig­mundi til háðung­ar að hann hefði verið svo gal­inn að halda því fram að hægt væri að ná 300 millj­örðum af kröfu­höf­un­um. Í raun nefndi hann aldrei til­tekna tölu. Fram að því að niðurstaða náðist var samt hneyksl­ast á Sig­mundi fyr­ir að hafa haldið því fram að hægt yrði að ná slíku fjár­magni. „Hvar eru 300 millj­arðarn­ir?“ sungu þeir áður í kór sem reyna nú að halda því fram að hann hafi verið van­hæf­ur til að skila 500, 600, 700 millj­örðum?

Hvers vegna á Anna inni pen­inga hjá föllnu bönk­un­um (kröf­ur á þá)?

Þúsund­ir spari­fjár­eig­enda lögðu ís­lensku bönk­un­um til fjár­magn á ár­un­um fyr­ir efna­hags­hrunið, bæði með inn­lán­um, pen­inga­markaðssjóðum og skulda­bréf­um. Fé­lag Önnu var eitt  þeirra sem átti pen­inga inni hjá bönk­un­um í formi skulda­bréfa, þ.e. hún lánaði bönk­un­um pen­inga. Líkt og hjá öðrum voru þessi kaup gerð í góðri trú um að staða bank­anna væri betri er raun varð en eins og flest­ir muna var láns­hæfi ís­lensku bank­anna metið í besta mögu­lega flokki (AAA) áður en þeir féllu.

Þess­ar vænt­ing­ar stóðust ekki og efna­hags­hrun var staðreynd. Frá upp­hafi hef­ur hef­ur Anna gert sér grein fyr­ir að tjón henn­ar næmi hundruðum millj­óna króna og að mögu­leik­ar á end­ur­heimt­um væru ákaf­lega tak­markaðir.

Í kjöl­far þess að gömlu bank­arn­ir féllu og sættu slitameðferð var kröf­um lýst í slita­bú þeirra eins og lög um gjaldþrota­skipti boða. Fé­lagið hef­ur aldrei selt vog­un­ar­sjóðum kröf­ur og það hef­ur aldrei keypt kröf­ur á eft­ir­markaði (þ.e. eft­ir hrun bank­anna).

Meðal krafna voru víkj­andi skulda­bréf, sem telj­ast sam­kvæmt gjaldþrota­rétti eft­ir­stæðar kröf­ur, og eru að fullu tapaðar. Ekki ligg­ur fyr­ir hverj­ar end­an­leg­ar end­ur­heimt­ur verða af heild­inni en bú­ast má við að þær nemi um 16% af lýst­um kröf­um. Áætlað tjón vegna þess­ara skulda­bréfa nem­ur því hundruðum millj­óna króna.

Draga laga­breyt­ing­ar varðandi svo kallaðan af­drátt­ar­skatt úr tapi Önnu?

Nei. Þetta var ein af þeim frá­leitu kenn­ing­um sem sett­ar hafa verið á flot und­an­farna daga. Eins og komið hef­ur fram var þessi breyt­ing­in fyrst og fremst gerð til að auðvelda út­gáfu skulda­bréfa vegna upp­gjörs gömlu bank­anna og til að tryggja jafn­ræði kröfu­hafa og koma í veg fyr­ir að skatta­lög­saga og tví­skött­un­ar­samn­ing­ar hefðu áhrif á það ferli.

Einnig er vert að muna að til þess að skatt­skyld­ar tekj­ur mynd­ist þyrfti greiðslan úr þrota­bú­un­um að vera hærri en kaup­verð bréf­anna. Það er því lang­ur veg­ur frá því að Anna hafi haft ein­hvern hag af þess­ari laga­breyt­ingu.

Hver var afstaða Sig­mund­ar til kaupa á gögn­um um af­l­ands­fé­lög?

Sig­mund­ur hef­ur beitt sér fyr­ir því að skatta­yf­ir­völd á Íslandi nýti þær leiðir sem í boði eru til að koma í veg fyr­ir skattsvik. Hann hef­ur meðal ann­ars rætt þetta á Alþingi, t.d. í ræðu þann 15. maí 2014, í umræðu um mögu­leg kaup á skatt­gögn­um frá ótil­greind­um aðila:

„Ég treysti því að skatt­rann­sókn­ar­stjóri geti metið þetta og muni hér eft­ir sem hingað til leita allra leiða til að koma upp um skattsvik. Að sjálf­sögðu þarf skatt­rann­sókn­ar­stjóri að hafa ýms­ar leiðir til þess, enda skattsvik og skattund­an­skot mjög dýr fyr­ir sam­fé­lagið. Ég ít­reka að ég treysti skatt­rann­sókn­ar­stjóra til þess að leysa úr þessu eins og öðru.“ –http://​www.alt­hingi.is/​altext/​raeda/​143/​rad20140515T111936.html

Einnig hef­ur Sig­mund­ur og rík­is­stjórn hans sýnt þenn­an vilja í verki með því að veita skatt­rann­sókn­ar­stjóra sér­staka 37 millj­óna króna auka­fjár­veit­ingu til kaupa á gögn­um frá ónefnd­um aðila í þess­um til­gangi. –http://​www.vis­ir.is/​rikis­stjorn­in-veit­ir-37-millj­on­um-til-ad-kaupa-skattagogn/​article/​2015150419528

Vissi Sig­mund­ur að gögn um fé­lag Önnu væru á meðal þess­ara upp­lýs­inga?

Nei, við vit­um reynd­ar ekki enn hvort þau eru það en við höf­um alltaf gert ráð fyr­ir því að mikl­ar lík­ur væru á að upp­lýs­ing­ar um þetta fé­lag væru hluti af þess­um gögn­um. Það skipti hins veg­ar engu máli þar sem skatt­ar hafa alltaf verið greidd­ir af því á Íslandi og til­vist fé­lags­ins því aldrei verið haldið leyndri fyr­ir skatta­yf­ir­völd­um. Við höf­um aldrei litið á fé­lag Önnu sem af­l­ands­fé­lag, hvað þá fé­lag í skatta­skjóli, enda hafa all­ir skatt­ar af eign­un­um og tekj­um af þeim verið greidd­ir á Íslandi skv. ís­lensk­um skatta­regl­um.

Hafði þátt­taka Sig­mund­ar í stofn­un InD­efence hóps­ins og bar­átta þess hóps ein­hver áhrif á málið?

Við höf­um orðið vör við spurn­ing­ar um bar­átt­una gegn Ices­a­ve og þátt­töku Sig­mund­ar i starfi InD­efence hóps­ins. Árang­urs­rík og þrot­laus bar­átta hóps­ins sem stóð yfir um nokk­urra ára skeið var unn­in af sjálf­boðaliðum og sner­ist ætíð um að verja hags­muni al­menn­ings á Íslandi.

Meg­in­bar­áttu­mál InD­efence hóps­ins var að verj­ast fram­göngu breskra stjórn­valda þegar þau beittu Íslend­inga hryðju­verka­lög­um í októ­ber 2008 og svo að tryggja að eign­ir þrota­bús Lands­bank­ans skyldu standa und­ir greiðslu skulda bank­ans en ekki skatt­fé al­menn­ings. Grund­vall­ar­atriði í því var að skatt­fé al­menn­ings yrði held­ur ekki varið til að tryggja bresk­um og hol­lensk­um stjórn­völd­um vexti af kröf­um sín­um í þrota­bú Lands­bank­ans, rétt­indi sem eng­um for­gangs­kröfu­höf­um stend­ur til boða. Semsagt, að tryggja að skatt­greiðend­ur sætu ekki uppi með skuld­bind­ing­ar fall­inna einka­banka.

Það er mik­il­væg staðreynd að setn­ing neyðarlaga í októ­ber 2008, áður en bank­arn­ir féllu, fól í sér að inn­lán urðu for­gangs­kröf­ur og inn­lán­seig­end­ur fóru því fram fyr­ir skulda­bréfa­eig­end­ur í skuldaröð bank­anna, þ.m.t. Lands­bank­ans.

Bar­átta okk­ar og annarra gegn Ices­a­ve samn­ing­un­um gat því aldrei haft nein áhrif á mögu­leg­ar end­ur­heimt­ur skulda­bréfa­eig­enda í Lands­bank­an­um, þar á meðal Önnu. Að auki er krafa Wintris í þrota­bú Lands­bank­ans til kom­in vegna kaupa á víkj­andi skulda­bréfi bank­ans og frá upp­hafi mátti því vera ljóst að kraf­an var einskis virði, enda var henni hafnað af slita­stjórn bank­ans.

Bar­átt­an gegn Ices­a­ve samn­ing­un­um sner­ist um að koma í veg fyr­ir að skuld­ir við kröfu­hafa fall­ins banka yrðu færðar yfir á al­menn­ing. Bar­átt­an við kröfu­haf­ana sner­ist hins veg­ar um að eign­ir kröfu­hafa yrðu færðar frá þeim og yfir til al­menn­ings.

Marg­ir af mik­il­væg­ustu sam­starfs­mönn­um Sig­mund­ar úr báðum þess­um verk­efn­um komu úr InD­efence hópn­um. Í báðum til­fell­um skilaði bar­átt­an ár­angri og gjör­breytti ástandi efna­hags­mála á Íslandi til hins betra og mun hafa mik­il og já­kvæð áhrif á kjör al­menn­ings til framtíðar.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert