Þingflokkur Vinstri grænna hefur ekki komið saman til að ræða hvort vantrauststillaga verði borin fram á Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, að sögn Svandísar Svavarsdóttur, þingflokksformanns Vinstri grænna.
„Það hefur ekkert breyst í málinu og það sem forsætisráðherra hefur sagt breytir ekki staðreyndum málsins.“ En forsætisráðherra tjáði sig m.a. í fjölmiðlum um helgina um erlent félag í eigu eiginkonu sinnar.
„Það sem liggur fyrir er að við þurfum að heyra hvað Sjálfstæðisflokkurinn vill gera. Hann stendur frammi fyrir því hvort hann og alþingi telji það ásættanlegt sem fyrir liggur og það er mikilvægt að kalla það fram fyrir samfélagið.“
Svandís bendir á að komið hafi fram í umræðunni að fleiri möguleikar kunni að vera í stöðunni en vantrauststillaga og þá megi vissulega skoða. „Það má til dæmis alveg skoða hugmyndina með siðaráðið sem yrði þá sett saman á grundvelli nýju siðareglnanna.“