Líklega rætt á þingflokksfundi

Guðlaugur Þór segir málefni forsætisráðherra væntanlega verða rædd, ásamt fleirum, …
Guðlaugur Þór segir málefni forsætisráðherra væntanlega verða rædd, ásamt fleirum, á þingflokksfundi. Kristinn Ingvarsson

Möguleg vantrauststillaga stjórnarandstöðunnar á hendur Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra og skýringar hans í fjölmiðlum um helgina á erlendu félagi í eigu eiginkonu sinnar hafa ekki verið rædd innan Sjálfstæðisflokksins.

Guðlaugur Þór Þórðarson þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir málið þó líklega verða rætt af þingmönnum flokksins. „Við hittumst í vikunni á þingflokksfundi og förum þá væntanlega yfir þetta eins og önnur mál.“

Sjálfur er hann sáttur við skýringar forsætisráðherra. „Mér finnst hann hafa gert ágætlega grein fyrir sínum málum,“ sagði Guðlaugur Þór.

Spurður um mótmæli á netinu þar sem forsætisráðherra er „sagt upp störfum“ eins og þar er orðað og um 6.300 manns hafa undirritað segir Guðlaugur Þór: „Burt séð frá þessu máli þá væru það fréttir fyrir mig ef allir væru ánægðir með Sigmund Davíð. Hann er umdeildur stjórnmálamaður eins og flestir, og ef ekki allir, forsætisráðherrar sem hafa verið frá því að ég man eftir mér.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka