Heilbrigðisþjónusta sem Vesturlandabúar taka sem gefinni er ekki eins sjálfsögð í fátækum ríkjum eins og Rúanda þar sem íslenski læknirinn Martin Ingi Sigurðsson var nýlega að störfum með hópi bandarískra hjartalækna. Eftir reynslu sína segir Martin ótrúlegt hve miklu skipti hvar fólk fæðist í heiminum.
Á Íslandi og öðrum þróuðum ríkjum gengur fólk út frá aðgengi að heilbrigðisþjónustu sem gefnu. Í Rúanda, tæplega tólf milljón manna ríki í Austur-Afríku, eru hins vegar engar hjartaaðgerðir gerðar. Þeir sem þurfa á nauðsynlegum aðgerðum að halda þurfa að fara til Indlands eða Suður-Afríku til að komast í þær, hafi þeir ráð á að greiða fyrir þær sjálfir. Eins og gefur að skilja hafa langt því frá allir landsmenn tök á því.
Martin Ingi er á lokametrunum í sérfræðinámi sínu í svæfingarlækningum við Brigham and Women's-sjúkrahúsinu, kennslusjúkrahúsi Harvard-háskóla í Boston. Undanfarin níu ár hefur hópur þaðan sem gengur undir nafninu Team Heart haldið til Rúanda til að vinna með fólki sem þjáist af gigtsótt. Það er sjaldgæf langtímaafleiðing ómeðhöndlaðrar streptókokkasýkingar.
„Lítill hluti fólks sem fær streptókokkasýkingu lendir í því að sýkingin ræðst á hjartalokur þess, eyðileggur þær og veldur hjartabilun. Það eru fjórar hjartalokur og hún getur í raun og veru eyðilagt þær allar. Þessum sjúkdómi er nú eiginlega útrýmt á Vesturlöndum því fólk hefur mjög gott aðgengi að heilbrigðisþjónustu og sýklalyfjum en í Afríku er þetta ennþá talsvert vandamál. Það er talsvert stór hópur af ungu fólki þar sem er kominn með lokastigshjartabilun vegna þess að hjartalokur þess eru eyðilagðar af streptókokkasýkingu,“ segir Martin Ingi.
Tiltölulega auðvelt er að meðhöndla streptókokkasýkingar en vandamálið í Rúanda er fyrst og fremst aðgengi landsmanna að heilbrigðisþjónustu. Martin Ingi segir að þegar næsti heilbrigðisstarfsmaður sé í fjögurra tíma göngufjarlægð þá harki fólk bara af sér ef það fær slæma hálsbólgu eða streptókokka. Því fái einhver hluti fólks gigtsótt.
Hópurinn frá Bandaríkjunum fer þess vegna árlega til Rúanda og finnur unga sjúklinga með lokastigshjartabilun sem eiga innan við tólf mánuði ólifaða ef ekkert er að gert. Læknarnir gera opnar hjartaaðgerðir til að skipta um hjartalokurnar og veita fólkinu þannig nýtt líf.
Martin Ingi var einn af fjórum svæfingarlæknum í hópnum en auk þeirra voru hjartaskurðlæknar, gjörgæslulæknar, lyfjafræðingar og félagsráðgjafar. Hópurinn þurfti að taka allan búnað með sér og setja upp eigin hátækniskurðstofu, gjörgæslu og legudeild en yfirvöld í Rúanda sáu þeim fyrir aðstöðu í höfuðborginni Kígalí.
Alls skimaði hópurinn 160 sjúklinga en af þeim voru sextán valdir til að gangast undir aðgerð. Teymið hafði tíu daga til að setja upp aðstöðuna, gera aðgerðirnar og pakka saman aftur. Tvær aðgerir voru gerðar á dag, átta daga í röð, og var vinnudagurinn hjá læknunum frá tólf til nítján tímar á dag. Martin Ingi sá um svæfingarnar og hjartaómanir á meðan á aðgerðunum stóð. Vanda þurfti valið á sjúklingunum enda aðeins takmarkaður fjöldi plássa í boði.
„Við reynum að velja sjúklingana þannig að þeir mega ekki vera það langt gengnir að við teljum þá ekki munu lifa aðgerðina af en þeir mega heldur ekki vera of stutt gengnir því að þá geta þeir kannski beðið þar til á næsta ári eða eftir hálft ár þegar annað teymi kemur sem gerir svipaðar aðgerðir. Við reynum að velja sjúklingana mjög vandlega þannig að við tökum alltaf sextán veikustu sjúklingana sem við teljum samt að muni lifa aðgerðina,“ segir Martin Ingi.
Þessi takmarkaði fjöldi þýddi hins vegar að meðlimir hópsins þurftu að taka erfiðar ákvarðanir sem Martin Ingi segir að þá ekki þurfa að standa frammi fyrir dags daglega.
„Á Íslandi eða Bandaríkjunum myndi maður bara gefa öllum tækifæri á að fara í aðgerðina en þarna þarf maður virkilega að velja úr. Það eru einhverjir sem við þurfum að segja nei við sem við vitum að munu sennilega deyja án aðgerðar en eru svo veikir að við erum ekki viss um að þeir hafi aðgerðina og gjörgæsluleguna af, vegna þess að við höfum bara þessi sextán pláss. Ef við hefðum óendanlega mörg pláss eins og við höfum bæði í Bandaríkjunum og á Íslandi myndum við örugglega gefa miklu fleiri séns á að fara í aðgerðina og sjá hvernig þeim myndi reiða af. Það er mikið af ákvörðunum sem eru teknar þarna sem maður hefur ekki þurft að taka annars staðar þar sem maður hefur unnið,“ segir Martin Ingi.
Eitt markmið teymisins er að hjálpa til við að byggja upp heilbrigðisþjónustu sem tengist hjartasjúkdómum í Rúanda. Vonir standi til að á næstu fimm til átta árum verði kominn spítali þar sem geti gert hjartaaðgerðir. Á meðan Team Heart var í landinu þjálfuðu meðlimir hópsins upp heimamenn í svæfingarlækningum.
„Það er einn skurðlæknir í sérnámi í hjartaskurðlækningum í Suður-Afríku en hann kemur alltaf heim þegar þetta teymi er í Rúanda. Vonin er að hann verði hjartaskurðlæknirinn þegar nýr spítali verður kominn sem hefur tök á að gera svona aðgerðir og aðrar hjartaaðgerðir,“ segir Martin Ingi.
Reynsluna segir Martin Ingi hafa verið einstaklega góða en hann ætlar að sérhæfa sig í hjartasvæfingum og gjörgæslulækningum þegar hann lýkur sérfræðináminu í svæfingarlækningum í sumar. Aðstæður í Afríkuríkinu eru enda allt aðrar en í Boston þar sem ein fremstu háskólasjúkrahús heims er að finna.
„Það er í rauninni ótrúlegt hvað það skiptir miklu máli hvar maður er fæddur í heiminum, hvaða aðgengi maður hefur að heilbrigðisþjónustu og hlutir sem maður tekur algerlega sem gefnum þegar maður vinnur á Íslandi og í Bandaríkjunum eru svo ótrúlega langt í burtu,“ segir Martin Ingi.
Sem dæmi nefnir hann blóðbanka. Læknar hugsi yfirleitt lítið um hvort þeir eigi blóð til þess að framkvæma skurðaðgerðir þar sem það er gefið að það sé til. Í Rúanda sé það hins vegar meiriháttar vandamál.
„Við kláruðum blóðið á spítalanum oftar en einu sinni og það er mjög óþægileg staða að vera í að það vanti blóð en geta ekki fengið það og fá að vita að það sé maður að keyra á mótorhjóli einhvers staðar í höfuðborginni með blóð. Það er eitthvað sem maður lendir ekki í á Íslandi eða Bandaríkjunum þar sem getur fengið blóð á fimmtán til þrjátíu mínútum. Þarna getur biðtími eftir blóði verið allt að átta tímar sem getur verið mjög óþægilegt,“ segir hann.
Það skemmtilega fyrir þá sem hafa farið oftar en einu sinni með teyminu til Rúanda segir Martin Ingi hins vegar það að margir sjúklingar frá fyrri árum komi að heimsækja það.
„Fólk sem leit ansi illa út fyrir nokkrum árum lítur allt í einu vel út. Einn af þeim er núna læknanemi, sumir eru byrjaðir að vinna í borginni og hefur tekist að mennta sig. Það er mjög gleðilegt sérstaklega fyrir þá sem hafa komið áður,“ segir Martin Ingi sem segist vonast til að sér bjóðist að fara aftur með þessum hópi eða öðrum í framtíðinni.