Það kom Ólöfu Nordal, innanríkisráðherra „fullkomlega á óvart“ að hún og eiginmaður hennar, Tómas Sigurðsson, væru á lista blaðamannasamtakanna ICIJ yfir félög í skattaskjólum.
Þetta segir Ólöf í tölvupósti sem hún sendi þingmönnum Sjálfstæðisflokksins í dag. Segir hún félagið sem um ræðir aldrei hafa verið í eigu hennar eða eiginmanns hennar heldur Landsbankans í Lúxemborg. Að því er hún best viti hafi félagið verið afskráð árið 2008.
Ólöf greinir frá því að eiginmaður hennar, Tómas Sigurðsson, hafi unnið fyrir alþjóðlegt fyrirtæki síðastliðin 12 ár. Hann hafi leitað ráðgjafar hjá Landsbankanum árið 2006 í tengslum við skipulagningu fjármála sinna og þá ekki síst vegna kaupréttarsamninga sem áttu að losna í janúar 2007.
Landsbankinn hafi lagt til stofnun erlends fjárfestingarfélags. Tómas hafi hinsvegar hætt við og aldrei tekið við félaginu sem hafi því verið í eigu Landsbankans í Lúxemborg. Nafn þeirra hjóna sé á listanum þar sem Tómas hafi fengið umboð á félagið í undirbúningsferlinu og óskað eftir því að Ólöf fengi slíkt hið sama.
„Við vissum ekki fyrr en um daginn þegar ég var spurð um þetta mál - að félagið var á aflandssvæði. Okkar skilningur við undirbúning þessa var að þetta væri allt í Luxemborg,“ skrifar Ólöf.
„Ég vissi ekki nokkurn skapaðan hlut um þetta mál og það kom mér alveg í opna skjöldu. Þessi undirbúningur átti sér stað árið 2006 áður en ég fór í stjórmál. Ekkert varð af neinu og því ekkert til að tala um.“
Þá skrifar Ólöf að hún sé komin í stutt veikindaleyfi og þurfi að hvílast.
Bréf Ólafar má lesa í heild sinni hér að neðan auk færslu hennar á Facebook um sama efni:
Sæl öll,
Við láta ykkur vita af því að við Tómas erum á þessum lista sem öllu tröllríður núna.
Það kemur okkur fullkomlega á óvart.
Árið 2006 var Tómas að skipuleggja fjármálin sín, ekki síst vegna kaupréttarsamninga sem áttu að losna í janúar 2007. Á þessum tíma leit allt út fyrir að þeir yrðu verðmiklir. Hann leitaði til Landsbankans um ráðgjöf og þeir ráðlögðu honum að sett yrði af stað fjárfestingafélag hjá Landsbankanum í Lux og hófu undirbúning að því. Fljótlega eftir að þetta gerðist fóru bréfin að lækka í verði og Tómasi fannst ekkert fýsilegt að selja þau lengur. Það fór því þannig að hann tók aldrei við þessu félagi og ekkert varð úr þessum áformum.
Félagið var sem sagt í eigu Landsbankans í Luxemborg en ástæða þess að nafnið okkar er á þessum lista er sú að Tómas fékk umboð á félagið í undirbúningsferlinu og óskaði eftir því að ég fengi slíkt hið sama.
Við vissum ekki fyrr en um daginn þegar ég var spurð um þetta mál - að félagið var á aflandssvæði. Okkar skilningur við undirbúning þessa var að þetta væri allt í Luxemborg.
Ég vissi ekki nokkurn skapaðan hlut um þetta mál og það kom mér alveg í opna skjöldu. Þessi undirbúningur átti sér stað árið 2006 áður en ég fór í stjórmál. Ekkert varð af neinu og því ekkert til að tala um.
Ég vildi að þið vissuð þetta áður en þetta kemur fram.
Eftir því sem við best vitum var félagið afskráð árið 2008. Ég mun senda tilkynningu um þetta á fjölmiðla síðar í dag. Ég vildi að þið vissuð þetta fyrst en ég bið ykkur um að halda trúnað um þetta mál þar til tilkynningin kemur fram.
Annars er ég komin í veikindaleyfi, þarf að hvíla mig - blóðkornin eru lág eftir síðustu meðferð og ég þarf að ná upp orku fyrir vorið og verð því fjarverandi í nokkra daga.
Bestu kveðjur
Ólöf