Þrír ráðherrar og fleira áhrifafólk í íslenskum stjórnmálum er á listum yfir eigendur félaga í skattaskjólum erlendis sem blaðamenn víðsvegar að úr heiminum hafa undir höndum og hafa unnið úr undanfarna mánuði. Þetta kemur fram á fréttavef Ríkisútvarpsins. Þar segir ennfremur að greint verði frá áður óbirtum upplýsingum um eignarhald íslenskra stjórnmálamanna á félögum í skattaskjólum í sérstökum Kastljós-þætti næstu daga.
Fram kemur að þátturinn sé unninn í samstarfið við fjölmiðlafyrirtækið Reykjavík Media, ICIJ Alþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna og þýska blaðið Süddeutsche Zeitung. Þar verði birtar upplýsingar um umfangsmiklar eignir Íslendinga í félögum í skattaskjólum sem nái til 25 ára tímabils. Slík félög hafi síðast verið stofnuð árið 2014 samkvæmt gögnunum. Mikil leynd hvílir yfir stofnun og starfsemi slíkra félaga segir í fréttinni og erfitt að fá upplýsingar um raunverulegt eignarhald þeirra,
Mikil umræða hefur farið fram að undanförnu um félagið Wintris sem er í eigi Önnu Sigurlaugar Pálsdóttur, eiginkonu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra, en það er skráð á Bresku jómfrúareyjum sem skilgreint hefur verið sem skattaskjól. Forsætisráðherrahjónin hafa sagt að félagið hafi hins vegar ekki verið í skattaskjóli enda hafi fullir skattar verið greiddir vegna þess hér á landi frá upphafi.