Tugir starfsmanna fengu um 1.200 krónur greiddar á hvern klukkutíma við uppbyggingu að Þeistareykjum síðasta sumar. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag þar sem rætt er við Aðalstein Á. Baldursson, formanns verkalýðsfélagsins Framsýnar.
Aðalsteinn segir fyrirtækið LNS Sögu hafa samið við pólskt fyrirtæki um að reisa stöðvarhúsið á Þeistareykjum. „Það fyrirtæki kom með fimmtíu verkamenn til landsins sem var brotið á. Þessi stóri pólski verktaki fór ekki eftir reglum um lágmarkskjör,“ segir Aðalsteinn.
Bætir hann við að stór hópur starfsmanna hafi verið með kjör fyrir neðan lögbundið lágmark. „Þeir voru með á milli 1.200 og 1.300 krónur á tímann. Við gátum ekki ráðið af ráðningarsamningum að það væri verið að greiða yfirvinnu. Þeir unnu sextíu og átta tíma á viku.“