„Við upplifum þetta sem ofbeldi“

„Við upplifum þetta sem ofbeldi,“ segir Sigurveig Káradóttir, eigandi Matarkistunnar um hávaða og titring sem stafar framkvæmdum við Laugaveg 4-6. Þar er verið að brjóta klöpp niður á 6 metra dýpi fyrir verslunarhúsnæði sem á að byggja.

Í nálægum húsum við Skólavörðustíg og Bergstaðarstræti eru verslunareigendur langþreyttir á stanslausum drunum sem skapast þegar stórvirkar vinnuvélar brjóta niður klöppina sem hús þeirra standa á. Sigurveig hefur þurft að loka versluninni frá mánudögum og fram á fimmtudaga en hún er komin með eyrnabólgu vegna framkvæmdanna sem hófust í byrjun febrúar. 

Oddný Guðmundsdóttir, rekstrarstjóri Mokka-kaffis, segir salinn oft vera tóman þar sem viðskiptavinir þoli ekki hávaðan og raskið sem fylgi framkvæmdunum. Anna María Sveinbjörnsdóttir, gullsmiður í sama húsi, segist hafa mælt hávaðan í hundrað desibelum og hefur brugðið á það ráð að vera með eyrnahlífar í vinnunni.

Þrátt fyrir að hafa kvartað yfir stöðu mála til hinna ýmsu sviða borgarinnar hefur lítið verið um svör og þær stöllur eru afar ósáttar við að fengist hafi leyfi fyrir framkvæmdunum. Húsin í kring séu byggð ofan á klöppinni og þannig ætti það að vera með ný hús líka.

mbl.is var í bænum í dag og kynnti sér aðstæður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert